Eftirlit Um borð í herskipi á æfingu úti á Atlantshafinu á síðasta ári.
Eftirlit Um borð í herskipi á æfingu úti á Atlantshafinu á síðasta ári. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Utanríkisráðuneytið, í samstarfi við Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, stendur fyrir hátíðarfundi nk. mánudag, 13. maí. Tilefnið er 75 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins (NATO)

Utanríkisráðuneytið, í samstarfi við Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, stendur fyrir hátíðarfundi nk. mánudag, 13. maí. Tilefnið er 75 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins (NATO). Fundurinn verður í hátíðarsal Háskólans frá kl. 10 til 12.

Frá stofnun hefur Atlantshafsbandalagið verið hornsteinn öryggis Evrópu og staðið vörð um frelsi og gildi aðildarríkjanna sem byggð eru á lögmálum lýðræðis, einstaklingsfrelsis og réttarríkisins, segir í tilkynningu. Mikilvægi bandalagsins hafi aukist m.a. vegna vaxandi spennu milli stórveldanna. Áskoranirnar séu margar og samstaða aðildarríkjanna mikilvæg.

Á fundinum talar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Ávörp um fjarfundatæki flytja Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO og utanríkisráðherra Litháens Gabrielius Landsbergis. Þá taka við pallborðsumræður um hlutverk bandalagsins í nútíð og framtíð og þátttöku Íslands, sem er eitt af stofnríkjum NATO. Þar mæla Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og varaformaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann á Bifröst, Hermann Örn Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá NATO, Karítas Ríkharðsdóttir, stjórnarmaður í Varðbergi, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar.

Þau sem ræða málin í pallborði um framtíðarhorfur og áskoranir í varnar- og öryggismálum eru Freyja Steingrímsdóttir samskiptastjóri BSRB, Júlíus Viggó Ólafsson formaður Heimdallar, Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ, og Stefanía Reynisdóttir, ritari Skjaldar og alþjóðafulltrúi Uppreisnar, sem er ungliðasveit Viðreisnar.