Kliður í Iðnó Kórinn stóð fyrir þverfaglegri listahátíð í Iðnó í júní 2022 undir hatti Listahátíðar í Reykjavík.
Kliður í Iðnó Kórinn stóð fyrir þverfaglegri listahátíð í Iðnó í júní 2022 undir hatti Listahátíðar í Reykjavík.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við ætlum að flytja þó nokkuð af nýju efni, en sérstaða kórsins er sú að við syngjum einvörðungu lög eftir fólk sem er í kórnum,“ segir Snorri Hallgrímsson stjórnandi Kliðs, blandaðs kórs sem blæs til rafmagnaðrar upplifunar með tónleikum í Gömlu rafstöðinni í Elliðaárdal 16

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Við ætlum að flytja þó nokkuð af nýju efni, en sérstaða kórsins er sú að við syngjum einvörðungu lög eftir fólk sem er í kórnum,“ segir Snorri Hallgrímsson stjórnandi Kliðs, blandaðs kórs sem blæs til rafmagnaðrar upplifunar með tónleikum í Gömlu rafstöðinni í Elliðaárdal 16. maí kl. 20.

„Við höfðum átak í byrjun þessarar annar og vildum fá inn sem flest ný verk frá kórmeðlimum og getum sagt með stolti að við ætlum að frumflytja fjögur ný lög. Þau eru mjög ólík, enda eru verk sem Kliður syngur allt frá því að vera samin við sálma til þjóðlagaskotinna verka og nýklassískra tónsmíða. Tónskáldin í kórnum mynda áhugavert þversnið af íslensku tónlistarsenunni núna og mörg þeirra eru eftirsótt af sinfóníu- og kammersveitum víða um heim, semja kvikmyndatónlist hér heima og erlendis, auk þess að koma reglulega fram á tónlistarhátíðum víða um heim. Við ætlum á tónleikunum að syngja lag eftir Sigurlaugu Thorarensen sem heitir „(w)hole“, en það er mjög melódískt kórstykki og smá tilraunakennt. Við syngjum líka lag eftir Tom Manoury sem heitir „Vitlíki“ og er frekar rytmískt og tilraunakennt. Sem mótsvar við því ætlum við að syngja lag eftir eitt af söngvaskáldum okkar, José Luis Anderson, en hann er betur þekktur undir listamannsnafninu Andervel. Fjórða lagið sem við frumflytjum er „Dalalæða“, mjög nýstárlegt klassískt samtímatónverk eftir Mariu-Carmelu Raso, en hún er þekkt undir listamannsnafninu MSEA.“

Enginn með svipuna á lofti

Kórinn Kliður hefur starfað í tæp níu ár og Snorri segir að ákveðinn kjarni fólks hafi verið lengi í kórnum.

„Fólk tekur sér stundum pásur og þá reynum við að taka inn nýtt fólk í staðinn, en svo kemur fólk gjarnan aftur eftir að hafa tekið sér hlé. Í vetur hefur verið óvenjumikið af nýju fólki, sem hefur verið spennandi en líka mikil áskorun. Í fyrrasumar urðu smá breytingar hjá kórnum þegar ég tók við sem stjórnandi en ég hafði verið almennur kórmeðlimur Kliðs. Jelena Ciric, sem hafði stjórnað kórnum, tók sér smá pásu og fólkið í skipulagsnefndinni tók sér líka hlé. Við erum því nokkur ný í brúnni.“

Í Klið er listafólk úr ólíkum greinum og Snorri segir kveikjuna að kórnum hafa verið vinahóp sem langaði að hittast til að syngja saman.

„Þau bjuggu til lítinn kór úr því. Þetta voru til dæmis Borko, eða Björn Kristjánsson, úr FM Belfast, María Huld Markan, Kira Kira og Pétur Ben, tvíburasysturnar Gyða og Kristín Anna Valtýsdætur úr múm, Valgeir Sigurðsson og fleira gott fólk. Georg Kári Hilmarsson úr Sprengjuhöllinni var fyrsti stjórnandinn og fljótlega fór tónlistarfólk innan kórsins að koma með sín eigin stykki og þetta varð smám saman mantran: að vera meira eins og hljómsveit en hefðbundinn kór, syngja frekar lög sem við værum að semja sjálf,“ segir Snorri og bætir við að kórinn hafi komið fram á ýmsum hátíðum og viðburðum, auk þess að koma reglulega fram á tónleikum víða um land.

„Fyrir okkur er mjög mikilvægt að halda í þetta andrúmsloft, að við erum fólk sem hittist til að njóta þess að syngja saman. Við leggjum mikið upp úr því að andinn í hópnum sé góður, að við séum ekki að þræla fólki út æfingu eftir æfingu bara til að stefna að einhverju frábæru prógrammi á tónleikum. Við erum samt ekki metnaðarlaus, en það er mikilvægt að fólki líði vel og vilji koma á æfingar, að enginn sé með svipuna á lofti. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að fólk vill koma í kórinn og núna er rosalega mikil eftirspurn, margir vilja koma. Ég held að fólk sem kemur á tónleika hjá okkur finni fyrir því að okkur í kórnum líður vel saman, að þetta er góður hópur þar sem andrúmsloftið er gott.“

Við spinnum saman hljóð

Kliður hefur gert ýmislegt skemmtilegt í gegnum tíðina, fór m.a. til Belgíu fyrir nokkrum árum og söng á tónlistarhátíð þar.

„Svo kom covid og skemmdi svolítið fyrir, en núna erum við að ná okkur aftur almennilega á strik. Vinnuaðferðir kórsins miðast við að nýta ólíka sérþekkingu kórmeðlima. Danshöfundar og jógakennarar meðal okkar leiða gjarnan upphitun og hreyfispuna. Spuninn og að spila eftir eyranu hefur alltaf verið stór partur af okkar starfi. Við tökum líka hljóðspuna fyrir æfingar, lokum augunum og spinnum saman hljóð. Við höfum stundum líka gert það á tónleikum og við ætlum klárlega að gera það í Rafstöðinni því þar er svo skemmtilegt rými til að gera eitthvað slíkt. Við höfum verið á höttunum eftir að syngja í óhefðbundnari rýmum, gera eitthvað öðruvísi, fara inn í falleg rými, bæði hljóðrænt og myndrænt séð. Gamla rafstöðin er ótrúlega fallegt rými með aldargömlum nostalgískum risavélbúnaði, fallegt hús og hátt til lofts með viðarbitum. Þar hljómar yndislega, löng endurómun er inni í þessu húsi og það er áskorun fyrir okkur að leika okkur með rýmið. Við förum úr okkar hefðbundnu kórpalla-uppstillingu og ætlum að vera meira meðal áhorfenda.“

Þarf ekki að vera fullklárað

Snorri segir að þeim í Klið finnist gaman að fá eitthvað óklárað frá því fólki innan kórsins sem semur tónlist, því þá geta tónskáld og lagahöfundar mætt með eitthvað sem þau vinna áfram í sameiningu.

„Söngvaskáldin okkar hafa til dæmis komið með lög sem þau hafa verið að vinna í og athuga hvort þau virki með kórnum. Við pródúserum það þá í sameiningu sem hópur. Hugmyndin er alltaf sú að þó það sé einhver sem stjórnar kórnum hverju sinni, þá er engin ein rödd sem ræður meira en önnur. Þetta er samvinna og við höfum viljandi skipt oft um stjórnanda, til að halda þeirri orku gangandi. Þetta minnkar líka pressuna og tekur burt klassíska snobbið sem loðir oft við tónsmíðar, að allt þurfi að vera fullkomlega útskrifað. Við erum til dæmis með frábært tónlistarfólk í okkar röðum sem kann misvel að lesa eða skrifa nótur en getur samt komið með frábæra tónlist til okkar. Við nýtum styrkleika hvert annars til að klára verkin í sameiningu. Fullkomnunarárátta hamlar mörgum sem setja eigin verk ofan í skúffu þótt þau séu kannski nánast tilbúin. Segi ég, sjálfur með klassískan bakgrunn, en ég er með þetta tráma á bakinu. Ég veit hversu hamlandi það getur verið að þurfa að vera með allt á hreinu áður en maður sýnir nokkrum öðrum.“ Tónleikarnir í Rafstöðinni 16. maí eru kl. 20 og er aðgangur ókeypis.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir