Bóndi Karólína með Sela Nikulásson í bandi, forystuhrútinn sinn sem nú er orðinn mikill ættfaðir hjá henni.
Bóndi Karólína með Sela Nikulásson í bandi, forystuhrútinn sinn sem nú er orðinn mikill ættfaðir hjá henni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég læt mínar ær bera frekar seint, en sæðingalömbin eru komin í heiminn hjá mér og hinar ærnar nýfarnar af stað,“ segir Karólína Elísabetardóttir þegar hún er spurð að því hvort sauðburður sé kominn á fullt hjá henni

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég læt mínar ær bera frekar seint, en sæðingalömbin eru komin í heiminn hjá mér og hinar ærnar nýfarnar af stað,“ segir Karólína Elísabetardóttir þegar hún er spurð að því hvort sauðburður sé kominn á fullt hjá henni. Karólína er bóndi í Austur-Húnavatnssýslu og býr með 70 kindur, en þar af eru þó nokkuð margir sauðir.

„Ég hef mikinn áhuga á forystufé og margar af mínum kindum eru forystukindur. Ég þekki hverja og eina kind mjög vel og ég legg mikið upp úr góðu geðslagi þeirra og lit, enda er ég aðallega með ullarframleiðslu. Hjá mér eru aðrar áherslur en á flestum sauðfjárbúum þar sem áhersla er á kjötframleiðslu. Mínar áherslur og búskaparhættir eru að vissu leyti frekar gamaldags, því mínar ær ganga úti allan veturinn en hafa aðgang að fjárhúsum og góðu fóðri. Þær velja alltaf að vera úti, og þetta setur sinn svip á minn búskap,“ segir Karólína sem er landsþekkt fyrir að hafa haft frumkvæði að því að leitað var að verndandi arfgerðum gegn riðu í íslensku sauðfé. Sú leit bar árangur og í framhaldinu hófst innleiðing í ræktun íslensks sauðfjár á erfðabreytileikum sem eru verndandi gegn riðu.

Litadýrðin er öfundsverð

Karólín býr með þremur smalahundum og unir hag sínum vel með litfögru kindunum, en hún sendi í vor frá sér bókina Litadýrð, handbók um liti í íslenska sauðfjárstofninum.

„Ég hef unnið í mörg ár að þessari bók, en ég hef í gegnum tíðina tekið myndir af áhugaverðum litum í sauðfé og fengið sendar frá öðrum. Fyrir fjórum árum fékk ég styrk til að vinna að bókinni, en vorið eftir fór riðurannsóknin í gang og þá lagði ég áherslu á það, svo bókin fór í biðstöðu. Seint í vetur gafst aftur tími til að halda áfram að vinna að bókinni og mér tókst að senda hana frá mér fyrir sauðburð núna, sem var markmiðið. Ég vildi að bændur gætu stuðst við hana til að skilgreina liti á lömbum sem koma í heiminn núna í vor. Mig langaði líka með bókinni að veita innsýn í heillandi heim íslenskra sauðfjárlita, en margar þjóðir öfunda íslenska bændur af litadýrð sauðfjárstofns þeirra. Erfðafræðilegi fjölbreytileikinn sem er í sauðfé hér á landi er sjaldgæft fyrirbæri, þetta er alls ekki sjálfgefin sérstaða og hana ber að meta. Hún er afar dýrmæt,“ segir Karólína sem er með kenningu um að í öðrum löndum hafi herinn þar haft áhrif á menningu og hugsunarhátt, sem tengist hinni hernaðarlegu kröfu um að allir séu eins, steyptir í sama mót.

„Í þeim löndum þar sem er her, hefur þessi hugsunarháttur að einhverju leyti færst yfir í búfjárræktun, þar sem engum er leyft að skera sig úr eða vera öðruvísi og fyrir vikið hefur fjölbreytileikinn tapast niður. Á Íslandi er sem betur fer ekki þessi hugsunarháttur meðal sauðfjárbænda, meira að segja hjá þeim bændum sem vilja helst rækta hvítt sauðfé, þá finnst þeim gaman þegar fæðast óvænt skrautleg lömb, og þau fá oft að lifa fyrir litinn.“

Gul að vori en grá að hausti

Þegar bókin Litadýrð er skoðuð má ljóst vera að litir íslenskra kinda eru ótrúlega fjölbreyttir, og ekki alltaf auðvelt að sjá muninn á einum lit til annars. Eins breytast sumir litir eftir því hvaða árstíð er, kind sem fer að vori á fjall með gult andlit, kemur kannski heim að hausti dökkgrá í framan.

„Ég reyndi að vera með öll litaafbrigði í bókinni en fjöldi þeirra er mikill, og þegar flekkótt bætist þar við, þá tvöfaldast litafjöldinn. Grunnlitirnir eru tveir, mórauður og svartur, en síðan koma litamynstur, botnótt, golsótt og grátt. Hvítt er líka mynstur, en ekki grunnlitur, af því hvítt leggst eins og snjór ofan á hina eiginleikana, sem eru í raun faldir undir hvíta litnum. Fjölbreytileiki tvílita fjárins er líka mjög mikill, en það á við um kindur sem eru hvítar með óreglulega bletti annars litar, til dæmis kápótt, blesótt, baugótt, höfðótt, leistótt, bíldótt og fleiri litaheita. Ég er núna að rannsaka afbrigði í hvítum lit, eftir að ég fann út að enginn veit hvernig kolótt erfist eða gult. Þetta kom mér á óvart, en þegar Stefán Aðalsteinsson rannsakaði litaerfðir fyrir meira en hálfri öld, þá rannsakaði hann ekki kolótta litinn og þann gula. Þessir litir koma aðeins fram hjá hvítum kindum, en eru greinilega samt til staðar í kindum sem eru svartar eða golsóttar. Ég sótti um styrk til að rannsaka þetta og ég er farin af stað við gagnasöfnun. Mörgum spurningum á eftir að svara.“

Kímera er magnað fyrirbæri

Eitt af því forvitnilega sem Karólína útskýrir í nýju bókinni er einstaklingar þar sem tvö frjóvguð egg renna saman í eitt á frumstigi í móðurkviði og mynda eitt fóstur, en þá er talað um kímeru.

„Þetta er sjaldgæft fyrirbæri en þá getur verið áberandi munur á lit hægri og vinstri hluta líkama kindarinnar. Ég er með dæmi í bókinni um hrút þar sem hægri hlið hans er hvít en sú vinstri svört, annað hornið hvítt en hitt svart. Einnig er dæmi um hrút sem var hyrndur öðrum megin en kollóttur hinum megin. Frægur slíkur hrútur er hann Helmingur, sem einmitt hefur verið sagt frá í Morgunblaðinu.“

Í bók Karólínu er Íslandskort þar sem sjá má svæðisbundin litaheiti, en misjafnt er eftir landshlutum hvar talað er um golsótt fé og hvar um goltótt, sem er þó sami liturinn.

„Mér finnst merkilegt að sunnan jökla snýst merking litaheita við á milli Svínafells og Hofs, þá hættir mögótt að merkja botnótt, heldur merkir mögótt að vera golsótt, en golótt merkir þar að vera botnótt. Á suðurfjörðum Vestfjarða er svo talað um gofótt og kofótt, í merkingunni golsótt.“

Vinkonur mínar treysta mér

Karólína segist því miður ekki eiga alla liti í sínu sauðfé.

„Ég á ekki svartgolsubotnótt og ekki kolótt eða gult. Ég á svo gott sem ekkert hvítt fé, annars reyni ég að hafa sem flesta liti. Ég á einn sauð sem er mógolsubotnóttur, en það er mjög sjaldgæfur litur. Hver og einn litur getur verið mjög fallegur, ef kindin er vinkona mín,“ segir Karólína og bætir við að hver einasti litur hafi sinn sjarma.

„Grámórautt finnst mér sérstaklega fallegt og sá litur er líka fjölbreyttur, því hann getur komið mjög misjafnlega út. Mér finnst svartgolsótt líka mjög heillandi litur ef þelið er silfurgrátt, það kemur stundum fyrir, en þá er það eiginlega eins og silfur að innan en gull að utan, ef togið er gulleitt. Slíkt reyfi er flott og glansandi og í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Þegar Karólína er spurð að því hvort allar hennar kindur séu spakar, segir hún svo ekki vera.

„Þær eru mjög misjafnar, og hvort þær vilja klapp eða ekki finnst mér ekki skipta öllu máli. Hjá þeim er þetta misjafnt rétt eins og hjá fólki, sumu fólki finnst gott að faðma alla en öðru ekki, en samt er það góðir vinir. Eins er það hjá kindunum mínum, vinkonur mínar eru þær sem augljóslega treysta mér og vilja vera nálægt mér,“ segir Karólína og tekur fram að í hennar hjörð séu ekki aðeins vinkonur heldur líka margir vinir, því hún eigi marga sauði.

Þeir sem vilja kaupa handbókina Litadýrð geta pantað hana á:
verlag-alpha-umi.de