Hera Björk hafði styrk til að láta gagnrýnisraddir ekki slá sig út af laginu og gerði það sem hún gerir best, sem er að syngja, að þessu sinni í Eurovision.
Hera Björk hafði styrk til að láta gagnrýnisraddir ekki slá sig út af laginu og gerði það sem hún gerir best, sem er að syngja, að þessu sinni í Eurovision. — Morgunblaðið/Eggert
Hera Björk lét ekki haggast heldur stóð með sjálfri sér í aðstæðum sem hljóta að hafa reynt mjög á hana.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Endalaust má furða sig á ofsanum sem opinberast of oft í tali og gjörðum fólks sem þreytist ekki á að segjast þrá frið. Það er eins og það trúi því staðfastlega að eina leiðin að friði sé leiðin sem það sjálft fylgir. Allir aðrir séu hræsnarar og jafnvel vondar manneskjur.

Blessunarlega er þessi hópur ekki ýkja stór en hann er því háværari. Það eru lætin og fyrirferðin sem gera að verkum að margir flokka skoðanir þessa hóps sem meirihlutaskoðun og halla sér því að þeim. Flestir vilja alls ekki vera röngum megin í lífinu og því er afar þægilegt og fyrirhafnarminnst að fylgja meirihlutanum og láta hann hugsa fyrir sig.

Við sjáum alls konar birtingarmyndir þessa. Þær sáust til dæmis mjög greinilega í umræðum um það hvort Íslendingar ættu að taka þátt í Eurovision vegna þátttöku Ísraela í keppninni. Þar var sú skoðun að Ísland ætti að taka þátt í keppninni auðveldlega fordæmd, stimpluð röng og talin byggjast á stuðningi við skelfilegt athæfi Ísraela á Gasa.

Nú má auðveldlega deila um það hvort leyfa hefði átt Ísrael að taka þátt í keppninni, en það ætti að vera hægt að gera það án stöðugra upphrópana. Sú sem þetta skrifar er á þeirri skoðun að rétt sé að gera mikinn mun á ríkisstjórnum landa og almenningi í viðkomandi löndum, og því mikilvægara því verri sem ríkisstjórnir eru og má þá vísa í ríkisstjórn Ísraels og stjórnvöld í Rússlandi. Hún er líka á þeirri skoðun að listin sameini þjóðir og sé falleg leið til að skapa skilning og tengingu manna á milli. Þar skila slaufun og útskúfun engu, auka einungis á óeiningu og hatur.

Fulltrúi Íslands á Eurovision, Hera Björk Þórhallsdóttir, virðist vera þessarar skoðunar. Hún var harðákveðin í að taka þátt í keppninni og hlakkaði beinlínis til. Það fannst háværa liðinu frekt og tillitslaust af henni og lét hana heyra það. Hera Björk fékk yfir sig alls kyns svívirðingar og hatursorð frá fólki sem fylgir slaufun og útskúfun og hefur hátt eins oft og það getur. Í hávaðanum finnur það til yfirburða sinna.

Það er erfitt fyrir einstakling, og reyndar mikil raun, að standa frammi fyrir hópi sem fordæmir hann, gerir honum upp skoðanir og afgreiðir jafnvel sem illa innrætta manneskju. Hera Björk lét ekki haggast heldur stóð með sjálfri sér í aðstæðum sem hljóta að hafa reynt mjög á hana. Þar var hún frábær fyrirmynd.

„Mér líður stórkostlega,“ sagði Hera Björk eftir flutning sinn í keppninni. Hún endurtók þau orð daginn eftir þegar ljóst var að hún kæmist ekki í úrslitakeppnina. Hún er listamaður sem naut þess að vera á staðnum í hópi annarra listamanna. Hún veit að stundum gengur vel og stundum ekki en hún nýtur þess að syngja. Það er mikil blessun fyrir hvern einstakling að hafa unun af starfi sínu. Hera Björk er greinilega í hópi þeirra heppnu.

Það fór óstjórnlega í taugarnar á einhverjum þegar Hera Björk leyfði sér að hrósa framlagi Ísraela í keppninni. Eins og það sé lögmál að allt sem frá Ísrael kemur sé vont og eitrað. Það viðhorf endurspeglaðist reyndar á sláandi hátt í sjónvarpsþættinum Alla leið á RÚV þar sem farið var yfir lögin sem keppa í Eurovision í ár, þau vegin og metin og gefin stig. Þegar kom að lagi Ísraels tilkynntu álitsgjafar að lagið yrði afgreitt hratt. Allir gáfu þeir laginu eitt stig, án nokkurs rökstuðnings. Ekkert mat var lagt á lagið sjálft heldur var það sjálfkrafa talið óhæft til flutnings og þátttöku í keppninni vegna stefnu Netanyahus og kóna hans. Ekki lýsti þetta mikilli fagmennsku enda blöskraði ýmsum. Til hvers er þáttur eins og þessi ef ekki er hægt að leggja faglegt mat á lag af því að það kemur frá ákveðnu landi?

Sú sem þetta skrifar hefur nákvæmlega engan áhuga á Eurovision. Hún hefur hins vegar áhuga á mannlegu eðli, hefur andstyggð á hjarðhegðun og dáist að einstaklingum sem hafa styrk til að vera þeir sjálfir og standa staðfastlega á sínu í mótbyr. Þannig er rík ástæða til að bera virðingu fyrir Heru Björk. Hún er kona sem kann að standa með sjálfri sér og gerir það afskaplega vel.