Við innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn.
Við innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Það höfðu ýmsir bent á undarlega viðskiptahætti þáverandi borgarstjóra varðandi það að afhenda olíufélögum, sem höfðu ákveðið að láta þau af hendi, stór svæði, sem þau höfðu haft undir bensínstöðvar, þar sem sú starfsemi hefði gjörbreyst.

Það höfðu ýmsir bent á undarlega viðskiptahætti þáverandi borgarstjóra varðandi það að afhenda olíufélögum, sem höfðu ákveðið að láta þau af hendi, stór svæði, sem þau höfðu haft undir bensínstöðvar, þar sem sú starfsemi hefði gjörbreyst.

Reykjavíkurborg hafði á sínum tíma gefið olíufélögunum kost á lóðum undir slíka starfsemi, enda var það í þágu borgarbúa og borgarinnar að tryggja með því heppilega afhendingarstaði á eldsneyti í hratt vaxandi bílaborg. En samningarnir við þessi félög byggðust allir á því, að myndu olíufélögin láta af þeim rekstri gengju lóðirnar til borgarinnar á ný og hún gæti skipulagt þær að sínum hentugleikum og úthlutað eftir eðlilega samkeppni. Í Morgunblaðinu hefur margoft verið á það bent, að þessi mál hefðu þróast illa og bragðarefir beggja vegna borðs ákveðið að koma málinu í farveg, sem algjörlega væri sniðinn að persónulegum hagsmunum þeirra félaga sem bar að skila lóðunum til borgarinnar á ný þegar eldsneytisstarfsemi þeirra væri úr sögunni. Stórundarleg væri sú framganga Dags B. Eggertssonar að koma þessu vonda máli „í gegn“, og troða því niður kok borgarbúa, í fullkomnu heimildarleysi.

Óbrúklegar aðferðir

Búin var til algjörlega óþekkt aðferð í borgarkerfinu, sem bundnar voru vonir við að myndi auðvelda þrjótunum beggja vegna borðs að koma þessu skemmda máli í gegnum kerfið, þannig að borgarbúum yrði í raun haldið í algjöru myrkri. Í raun fékk enginn í stjórnarandstöðunni að kynna sér þetta mál þannig að gagn væri að. Það var svo endanlega ákveðið þegar borgarstjórn Reykjavíkur var í fríi!

Kerfið, sem þáverandi borgarstjóri lét klambra saman í kringum tilbúning þessa máls, er algjörlega óþekkt í borgarkerfinu, þótt einstök dæmi séu til um slíka aðgerð í þinginu, en þau mál lúta öðrum lögmálum. Hér var allt byggt á því, að koma þyrfti tugum milljarða frá borgarbúum til gæðinga og með hinni skrítnu aðferð. Sett var upp lokað herbergi, sem borgarfulltrúar gátu farið inn í einir(!) og án þess að neinar upplýsingar væru veittar eða þeir fengju að bera sig saman við sína samstarfsmenn. Minnihlutinn átti þannig ekki nokkur tök á því að ræða þetta mikla mál í sínum ranni. Og engin rök lágu til þessara undarlegheita. Það sárgrætilega var svo til viðbótar að leiðtogi stærsta minnihlutaflokksins í borgarstjórn tók þátt í því að leiða málið hjá sér, en greiða atkvæði sitt með því á lokapunkti. Ekki verður séð að nein önnur skýring sé á svo óábyrgri hegðun en að eiginmaður leiðtogans sé sérstakur sendiboði og hlaupastrákur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, eins af stóru þiggjendunum í þessu sóðalega svindli. Öllum öðrum borgarfulltrúum var vorkunn, þótt þeim fipaðist, enda refirnir til þess skornir, að hver og einn þeirra gæti ekki rætt þetta mikla mál í sínum hópi, nema eftir minni úr stuttu stoppi í „leyniherberginu“.

Þessi aðferð er algjörlega óþekkt hjá borginni við afgreiðslu almennra mála. Það er ekkert sérstakt við þetta mál annað en það, sem menn máttu ekki átta sig á og gert var eins ómögulegt sem verða mátti. Einungis eru sambærileg vinnubrögð viðhöfð í sveitarstjórn varðandi viðkvæmustu barnaverndarmál eða annað sambærilegt. Þessi vinnubrögð í núverandi dæmi eru ekki viðhöfð af tillitssemi við þá sem viðkvæmastir eru og iðulega ófærir um að verja sig og borginni því skylt að sýna mestu tillitssemi og gætni. Þetta brölt með lokað leyniherbergi var eingöngu tilraun til að komast upp með í samvinnu við auðmenn úti í bæ, að hafa af borginni og borgarbúum óhemju fé sem þeir áttu engan rétt til. Innri endurskoðun borgarinnar er ófær um að „rannsaka“ þetta mál, enda hefðu þeir þá gert harkalegar athugasemdir löngu fyrr.

Lögregla og saksóknarar

Þeim sem sátu í borgarstjórn á árum áður er vel kunnugt um samninga af þessu tagi, þótt þeir hafi ekki verið barðir augum um langa hríð. En þeir, sem fengu lóðir undir bensín- eða olíuafgreiðslur á sínum tíma, þekktu öll skilyrði þeirrar úthlutunar. Leyfið var til bensínstöðva. Ef viðkomandi félög tækju þá ákvörðun að hætta slíkri starfsemi þá féllu lóðirnar, með öllu sem fylgdi, á ný til borgarinnar. Það var ekkert tilefni og engar heimildir til glæpsamlegra gjafagerninga á þeim tímamótum. Og allra síst að gefa einkavinum borgarstjórans fleiri milljarða af því tilefni einu, að þeir væru hættir að reka bensínstöðvar, sem þeir höfðu haft ágætan arð af í áratugi, og því enn fáránlegra og með enn meiri blæ spillingar.

Þá var ævintýralegt hvernig „RÚV“, „öryggisventill þjóðarinnar“, brást við, þegar málið kom inn á þess borð. Þá höfðu aðrir fjölmiðlar, þar á meðal þetta blað, bent á hversu óvenjuleg mál væru þarna á ferðinni, sem þyldu ekki einu sinni dagsljósið, heldur yrðu afhjúpuð við minnsta geislabrot. Stórundarlegt var, þegar starfsmenn útvarpsins, svokallaðir „fréttamenn“, gerðu allt sem þeir gátu til að setja fótinn fyrir að almenningur fengi einhverjar upplýsingar um málið. Útvarpsstjórinn hefur ekki upplýst hvort hann hafi beint eða óbeint tekið þátt í þessum óhreinindum öllum. Því má ekki gleyma, að hann var sem borgarritari nánasti samstarfsmaður Dags B. Eggertssonar, sem virðist vera einn siðlausasti embættismaður sem menn hafa lengi barið augum og er þó sennilega langt til jafnað.

Glöggur Páll:

„Í viðtengdri frétt segir af lítilsvirtri fréttakonu á RÚV. María Sigrún fréttamaður fékk þá umsögn frá yfirmanni að hún væri skjáfríð en kynni ekki „rannsóknafréttamennsku“ eins og það heitir á Efstaleiti. Hugtakið nær einnig til byrlunar og stuldar, samkvæmt viðurkenndu verklagi ríkisfjölmiðilsins. Fréttir án rannsóknar eru trúlega réttum megin við lögin. En þær má ekki segja.

María Sigrún vann frétt sem kom við kaunin á Degi, fyrrum borgarstjóra og vinstrimeirihlutanum í ráðhúsinu við Tjörnina. Stefán útvarpsstjóri hefur ekki tjáð sig um meðferðina sem María Sigrún sætir. Áður en Stefán varð útvarpsstjóri fyrir fjórum árum, var hann staðgengill Dags borgarstjóra, og bar titilinn borgarritari.“

Páll Vilhjálmsson, sem hefur ekki látið öflug og óbilgjörn öfl buga sig með því að heimta af dómstólum að hafa frá honum fé fyrir sig, minnir á: „Dagur gaf Stefáni bestu meðmæli fyrir fjórum árum, enda kærleikar miklir millum þeirra félaga. „Til hamingju Rúv og gangi þér allt að sólu, kæri Stebbi!“ skrifaði Dagur. Nú endurgeldur „kæri Stebbi“ fyrrum yfirmanni sínum greiðann með þegjandi stuðningi við millistjórnendur RÚV sem úthúða Maríu Sigrúnu er vogaði sér að afhjúpa spillingu í ráðhúsinu.“

Páll segir tilvitnunina tekna úr umfjöllun Kjarnans fyrir fjórum árum, og segir svo: „Þar segir að fulltrúar minnihlutans í Reykjavík, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir, guldu varhug við að Stefán yrði útvarpsstjóri. Þær stöllur höfðu staðið Stefán að undirferli, hann baktalaði kjörna fulltrúa er höfðu gert aðfinnslur við stjórnsýsluna í ráðhúsinu.

Stefán líkti kjörnum borgarfulltrúum við „tudda á skólalóðinni“ vegna gagnrýni þeirra á embættismenn og kallaði eftir að siðanefnd tæki á málinu. Sem útvarpsstjóri lagði Stefán niður siðanefnd sem úrskurðaði ekki rétt að hans mati – með úrskurði yfir Helga Seljan.“!

Tómas og Ásgrímur

Það þarf ekki að nefna að kvæði Tómasar Guðmundssonar eldist vel. En sama má segja um ritverkin sem fylgdu ljóðasafninu í útgáfu Almenna bókafélagsins árið 1981. Þær frásagnir eru fjölbreyttar, upplýsandi, ólíkar og skemmtilegar. Er óþarft að stilla sig um að birta kafla úr endurminningum Ásgríms Jónssonar listmálara, sem hafði beðið Tómas um að færa þær í letur. Ásgrímur fór mjög víða og dvaldist m.a. á merkilegum heimilum og eftirminnilegum. Hann dvaldi um hríð á Stóra-Núpi, hjá séra Valdimar Briem sálmaskáldi, afa Jóhanns, listmálarans góða.

Gefum Ásgrími orðið:

„Á stóra-Núpi málaði ég líka mynd af séra Valdimar. Var það árið 1910. Er mér minnisstætt að bónda einn í sveitinni bar þá að og varð honum að orði: „Í flest má nú nota hann, blessaðan!“ Hló séra Valdimar að þessu. Séra Valdimar var yfirhöfuð geysimikill húmoristi og oft léku honum spaugsyrði á vörum. Það leiddi af kímnigáfu séra Valdimars, að honum þótti ákaflega gaman að skrýtnu fólki og einkennilegu og sat sig sjaldan úr færi að ræða við það. Í þeim hópi var kona nokkur úr Hreppunum, Imba frá Hamarsheiði. Var hún tíður gestur að Stóra-Núpi, og eitt sinn, er ég kom heim síðla dags frá því að mála, var Imba þar fyrir. Var séra Valdimar að sýna henni myndir mínar, sem héngu í þinghúsinu, og segir við hana, um leið og hann kom auga á mig: „Þarna kemur nú málarinn. Hann er hérna neðan úr Flóa.“ Þá segir Imba og slær á lærið: „Og ég sem hélt að þetta væri einhver háherra úr Reykjavík.“ Séra Valdimar fór þá að segja Imbu frá því, að ég hefði verið mörg ár erlendis og ætlaði að rétta hlut minn. En ekkert virtist það stoða og leyndi sér ekki, að ég var gersamlega fallinn í áliti hjá Imbu. Annars var ekki laust við að mér fyndust fleiri þarna upp frá hafa svipað álit á Flóanum svona undir niðri. Munurinn var sá einn, að Imba var opinskárri, enda þóttist hún talsvert af gáfum sínum og var m.a. eitt helzta sveitarskáldið. Ég kann enn eitthvað af vísum hennar og hef sennilega lært þær af séra Valdimar, en ekki er ég viss um, að mönnum þætti ástæða til að halda mörgum þeirra til haga.

Þegar Grímur Thomsen andaðist var sendimaður gerður á fund séra Valdimars til að bera honum tíðindin og biðja hann að yrkja eftir skáldið. Þá kvað Imba:

Grímur Thomsen dauður var,

sendimaður sendur var

upp í séra Valdimar

til að yrkja ljóðin þar.

Öðru sinni bar svo til, að Imba mætti á förnum vegi þeim feðgum, séra Valdimar og séra Ólafi. Varð henni þá enn vísa af munni:

Þarna ríða prestar tveir,

heilalausir eru þeir,

Hringla í höfðum kvarnir – heyr!