Sigurður T. Garðarsson
Sigurður T. Garðarsson
Meðan lífeyrissjóðstekjur, sem eru lögskipuð laun, fylgja almennu frítekjumarki ellilauna verða aðrar tekjur en frá lífeyrissjóðum í raun marklausar.

Sigurdur T. Garðarsson

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata skrifaði nýlega grein hér í blaðið í tilefni lögfræðiálits frá skrifstofu Alþingis. Um var að ræða erindi til velferðarnefndar þingsins, um skerðingar á ellilífeyri almannatrygginga vegna launatekna frá lífeyrissjóðum.

Í samantekt um málefnið er vísað til niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis (mál nr. 11366/2021) um að framkvæmd Tryggingastofnunar eigi sér „stoð í lögum“, með vísan til orðalags þeirra og lögskýringargagna. Lögfræðingar Alþingis álykta hins vegar, að sé horft til orðalags orðskýringa í 2. gr. laga um almannatryggingar, þá sé réttara að fara með frítekjumark lífeyrissjóðstekna eins og þær væru atvinnutekjur. Niðurstaðan byggist á orðskýringum laganna með tilvísun í lög um tekjuskatt. Þar eru lífeyrissjóðstekjur skilgreindar sem endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu og greiðslur sem koma í stað slíks endurgjalds.

Björn Leví reiknar út að með því að fara eftir ritaðri lagasetningu, í stað lagastoðar geðþóttans í stjórnkerfinu, nær Tryggingastofnun allt að 71.000 kr. á mánuði af sumum ellilífeyrisþegum (rúmlega 850.000 kr. á ári). Ef lífeyrissjóðsgreiðslur flokkuðust sem atvinnutekjur og féllu í samræmi við lagabókstafinn undir sérstakt frítekjumark atvinnutekna héldi ellilífeyrisþeginn í útreiknaða frítekjumarksupphæð. Niðurstaða er fengin samkvæmt reiknivél TR, að gefnum forsendum um einstæðan einstakling, sem getur verið mismunandi eftir stöðu og tekjumynstri hvers og eins. Ellilífeyrisþegar eru u.þ.b. 40 þúsund. Ef reiknað meðaltal lífeyrissjóðs-/atvinnutekna þeirra er t.d. 100 þúsund á mánuði hefur stjórnsýslan, með því að sniðganga skýr fyrirmæli almannatryggingalaga, um 12,5 milljarða króna af ellilífeyrisþegum í ár. Til gamans má reikna sér til að frá 2018, þegar orðskýringar í lögunum tóku gildi, er ekki fráleitt að samansöfnuð frítekjumarksupphæð sem höfð hefur verið af ellilífeyrisþegum til síðustu áramóta geti verið 20-30 milljarðar.

Önnur hlið á þessu máli er að hið almenna frítekjumark, sem er 25 þúsund krónur á mánuði, er í raun gert upptækt hjá nánast öllum ellilífeyrisþegum með tilfærslunni frá hinu sérstaka frítekjumarki atvinnutekna og missir marks sem almennt frítekjumark annarra tekna en lífeyrissjóðstekna. Á meðan lífeyrissjóðstekjur, sem eru lögskipuð laun, fylgja almennu frítekjumarki ellilauna verða aðrar tekjur en frá lífeyrissjóðum í raun marklausar. Lagaleg barbabrella eins og einn komst að orði.

Mín tillaga um leiðréttingu barbabrellunnar til samræmis við tekjuskattslög ætti að vera auðveld úrlausnar með nútímatölvutækni. Skattlagning lífeyrissjóðstekna verði tvískipt. Annars vegar verði greiddur skattur af upprunalegu framlagi launþegans og vinnuveitandans í samræmi við skattlagningu launatekna. Af þeirri upphæð munu ellilífeyrisþegar njóta frítekjumarks atvinnutekna. Hins vegar verði greiddur skattur af vaxta- og verðbótatekjum í samræmi við C-lið 7. gr. laganna. Af þeirri upphæð njóti ellilífeyrisþegarnir frítekjumarks svokallaðra fjármagnstekna.

Höfundur er á eftirlaunaaldri.