Dýpt „Tónn Geirþrúðar Önnu [Guðmundsdóttur sellóleikara] einkenndist þannig af dýpt og samspilið við píanóleik Antoines Préats var prýðilegur,“ segir í rýni um tónleikana sem þau héldu undir merkjum Sígildra sunnudaga.
Dýpt „Tónn Geirþrúðar Önnu [Guðmundsdóttur sellóleikara] einkenndist þannig af dýpt og samspilið við píanóleik Antoines Préats var prýðilegur,“ segir í rýni um tónleikana sem þau héldu undir merkjum Sígildra sunnudaga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Á reisu um Evrópu ★★★★½ Tónlist: Luigi Boccherini, Robert Schumann, Claude Debussy, Witold Lutosławski, Sergej Prokofíev og Frédéric Chopin. Flytjendur: Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir (selló), Steiney Sigurðardóttir (selló í Boccherini) og Antoine Préat (píanó). Tónleikar á Sígildum sunnudögum í Norðurljósum Hörpu sunnudaginn 28. apríl 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Það var boðið upp á skemmtilegt ferðalag í tíma og rúmi í tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar í Norðurljósasal Hörpu á dögunum. Það voru þau Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari og Antoine Préat píanóleikari sem voru fararstjórar, en Steiney Sigurðardóttir sellóleikari fylgdi þeim úr hlaði.

Luigi Boccherini (1743-1805) var eitt vinsælasta tónskáld sinnar tíðar en hann var jafnframt afburðasellóleikari. Kemur því ekki á óvart að eftir hann liggja ókjör af verkum fyrir hljóðfærið. Eitt af þeim er sónata í G-dúr (G. 15), ein af fjölmörgum slíkra tónsmíða sem liggja eftir tónskáldið. Þetta er líflegt æskuverk sem þær Geirþrúður Anna og Steiney fluttu vel. Samhæfingin var góð og það var greinilegt allt frá fyrstu innkomu að flutningurinn markaðist af öryggi. Túlkunin var bæði dýnamísk og fallega mótuð (með hæfilega skömmtuðu víbratói) og þó svo að kannski sé ekki um tímamótatónsmíð að ræða var verkið mjög áheyrilegt.

Frá Ítalíu lá leiðin til Þýskalands. Robert Schumann (1810-1856) er í hópi helstu tónskálda rómantíska tímabilsins. Tiltölulega seint á ferlinum (1849) samdi Schumann stutt kammerverk, Adagio og allegro (op. 70), fyrir horn og píanó en í prentaðri gerð raddskrárinnar kemur fram að skipta megi horninu út fyrir annaðhvort selló eða fiðlu. Hér hljómaði því sellóútgáfa verksins. Það mátti heyra frá upphafstónunum að hér myndi rómantíkin ráða ríkjum. Tónn Geirþrúðar Önnu einkenndist þannig af dýpt og samspilið við píanóleik Antoines Préats var prýðilegur. Hér notaði Geirþrúður Anna miklu meira víbrató og mótaði langar hendingar, það er að segja teiknaði upp langar línur. Inngangskaflinn (Adagio) var þannig frábærlega fluttur og var fullur af blæbrigðum. Raunar má segja það sama um Allegro-ið og með leik sínum sýndi Geirþrúður Anna rækilega fram á að sellóið, sem kannski stendur næst mannsröddinni allra hljóðfæra, býr yfir svo að segja endalausum litbrigðum.

Síðasta verkið fyrir hlé kom frá Frakklandi. Claude Debussy (1862-1918) samdi sónötu fyrir selló og píanó nr. 1 í d-moll (L. 144/135) árið 1915, þá farinn að heilsu. Um er að ræða stutt en draumkennt verk í þremur þáttum. Hér bar helst á því að jafnvægið milli sellósins og píanósins hefði mátt vera ívið betra, það er að segja píanóleikurinn var fullsterkur á köflum. En túlkunin var afar músíkölsk og tónmyndun Geirþrúðar Önnu var ljómandi góð, hvort sem um var að ræða mjög viðkvæmar innkomur eða ákafari leik.

Eftir hlé var haldið austur á bóginn. Fyrst var staldrað við í Póllandi. Witold Lutosławski (1913-1994) er eitt áhrifamesta tónskáld 20. aldarinnar (hann var líka framúrskarandi hljómsveitarstjóri). Grave (eða Metamorphoses) fyrir selló var samið árið 1981 og er í einum þætti. Það hefst á djúpum tónum sellósins (fyrst án undirleiks) og upphafsstefið skýtur aftur upp kollinum í blálokin. Verkinu vex smám saman ásmegin og nær dramatísku hámarki um miðbikið, bæði hvað ákefð og tilfinningar varðar. Aftur bar örlítið á því að píanóleikurinn væri of sterkur á stöku stað en Geirþrúður Anna vann upp á móti því að nokkru leyti með kraftmiklum boga. Hér, sem annars staðar á tónleikunum, var hins vegar samspilið afar gott og hendingar mótaðar með góðri öndun.

Lokaverk tónleikanna kom svo frá Sovétríkjunum. Sónata fyrir selló og píanó í C-dúr (op. 119) eftir Sergej Prokofíev (1891-1953) er verk uppfullt af andstæðum en hana samdi tónskáldið mjög seint á ferlinum, eða árið 1949. Skömmu áður hafði tónlist Prokofíevs raunar verið bönnuð eystra, enda hafði einn skósveina Stalíns, Andrej Zhdanov, verið gerður út af örkinni til höfuðs formalisma í tónlist. Prokofíev hélt þó áfram að semja en sónötuna samdi hann sértaklega fyrir Mstislav Rostropovitsj, sem frumflutti hana í Moskvu ásamt Sviatoslav Richter. Dramatískur upphafskaflinn (Andante grave – Moderato animato) myndar nokkurs konar andstæðu við gáskafullan annan þáttinn (Moderato) og húmorinn skilaði sér líka yfir í lokaþáttinn (Allegro man on troppo). Flutningur þeirra Geirþrúðar Önnu og Antoines Préats var bæði á breidd og dýpt. Þau drógu þannig vel fram andstæður verksins, hvort heldur sem var í styrk eða hrynjandi og tónmyndunin var alltaf góð. Túlkunin var enn fremur dýnamísk og hendingar skýrar og skemmtilega afmarkaðar, þó aldrei á kostnað heildarmyndar.

Eftir alla dramatíkina var svo kærkomið að heyra Chopin sem aukalag, en hann er það tónskáld sem sennilega hefur samið hvað flestar „óperuaríur“ án söngs sem um getur. Það var því vel að bæði selló og píanó „sungu“ í Largo-i tónskáldsins.

Reisan um Evrópu var hins mesta skemmtun og Geirþrúður Anna og Antoine Préat (í félagi við Steineyju Sigurðardóttur) komu víða við. Þeim tókst að draga upp sjálfstæðar myndir á hverjum áfangastað og er það ekki lítið afrek. Ég vona að við eigum eftir að heyra meira frá þeim í framtíðinni, enda um afar músíkalskan flutning að ræða sem geislaði af öryggi.