— AFP/Angela Weiss
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haldið var upp á hinn árlega viðburð Met Gala mánudaginn 6. maí. Veislan er hluti af opnun vorsýningar í Metropolitan-listasafninu í New York-borg, þar sem einstakar og óviðjafnanlegar flíkur verða til sýnis fyrir almenning þetta árið

Haldið var upp á hinn árlega viðburð Met Gala mánudaginn 6. maí. Veislan er hluti af opnun vorsýningar í Metropolitan-listasafninu í New York-borg, þar sem einstakar og óviðjafnanlegar flíkur verða til sýnis fyrir almenning þetta árið. Sýningargripirnir eru um það bil 250 talsins og þeir elstu allt að fjögurra alda gamlir.

Þema sýningarinnar í ár er „Sleeping Beauties: Reawakening Fashion“ – eða „Þyrnirósir: Tískan endurvakin“.

Það er þó ekki sýningin sjálf sem fólk bíður eftir, heldur er það Met Gala, opnunarhátíðin, þar sem stjörnurnar keppast við að stela senunni með ótrúlegum klæðaburði í takt við þema veislunnar.

Met Gala hefur alltaf verið fjáröflunarviðburður fyrir sýninguna sjálfa, en undanfarin ár hefur tilgangurinn fallið í skuggann í huga almennings og Met Gala er nú orðið að einum stærsta tískuviðburði stjarnanna. Þær keppast við að klæða sig í sem eftirminnilegastan klæðnað og vekja athygli á rauða dreglinum.

Ár hvert er sérstakt þema fyrir opnunarhátíðina, þótt það sé ávallt eitthvað sem tengist þema sýningarinnar á einhvern hátt. Þema Met Gala þetta árið var „The Garden of Time“, sem mætti þýða sem Garður tímans.

Það skemmtilega við þema Met Gala er að það má alltaf skilgreina það á mismunandi vegu, og er tilgangurinn sá að stjörnunar fái sjálfar að nota ímyndunaraflið til þess að velja föt sem þær klæðast á rauða dreglinum. Það er oftast góð skemmtun að fylgjast með klæðaburði fólks, en í sumum tilvikum getur fatavalið orðið í besta falli áhugavert.

Viðburðurinn Met Gala var fyrst haldinn árið 1948 af Eleanor Lambert, einum þekktasta tískuhönnuði Bandaríkjanna. Hún er enn þann dag í dag vel þekkt sem einn fremsti hönnuður þeirra, og kom hún þjóðinni á kortið í alþjóðlega tískuheiminum. Lambert starfaði hjá auglýsingaskrifstofu Manhattan þar sem hún sá um kynningarmál og hafði ótrúleg áhrif á tískuiðnaðinn. Lambert vann mikið í samstarfi við Vogue og á þeim tíma voru einungis tvö tískublöð sem vert var að nefna starfandi á landinu. Þau söfnuðu fréttum og efni frá Evrópu og kynntu það bandarískum almenningi. Blöðin fjölluðu sjaldan um bandarískar fréttir í tískublöðunum, aðallega vegna þess að það var ekkert sem var þess virði að skrifa um. En þegar síðari heimsstyrjöldin skall á var lögð mikil áhersla á að styrkja bandaríska hagkerfið og voru þau því tilneydd að einbeita sér frekar að innlendri tísku. Lambert stofnaði því Met Gala í þeim megintilgangi að hvetja stjörnur til þess að kaupa og klæðast flíkum eftir bandaríska hönnuði, og var þetta aðeins einn af mörgum viðburðum sem hún stofnaði sem hafa mótað bandarískan tískuiðnað.

Á þeim tíma var viðburðurinn nokkuð einfaldur – hann samanstóð af kvöldverði og miðinn kostaði um það bil 50 bandaríska dollara. Töluverð breyting hefur orðið á Met Gala frá þessum fyrstu árum. Mikil leynd og spenna fylgir viðburðinum, sem er auðvitað ein ástæða þess að hann er svo einstakur. Hver einasta stjarna sem birtist á rauða dreglinum á Metropolitan-safninu í New York hefur fengið boðskort frá Vogue, og það eru fáir útvaldir sem verða svo heppnir. Miðinn kostar líka sitt, eða 75.000 bandaríkjadali, um það bil 10 milljónir íslenskra króna.

Árið 1972 var Diana Vreeland gerð að sérstökum ráðgjafa Met Gala, og gerði veisluna að þeim gríðarlega viðburði sem hún er í dag. Vreeland hefur átt glæstan tískuferil, og var um tíma ritstjóri tískublaðsins Vogue. Áratugum saman var hún ein af þeim konum sem voru mest áberandi í atvinnulífi New York-borgar, og er enn þann dag í dag ákveðin táknmynd fyrir bandaríska tísku. Það var Vreeland sem kom með þá hugmynd að úthluta sérstöku þema ár hvert, viðbót sem er hálfgert einkenni Met Gala nú til dags. Fyrsta þemað var kynnt árið 1973, og var það „heimur Balenciaga“, tískumerkisins. Á hverju ári leggja skipuleggjendur sig alla fram um að finna viðeigandi, en jafnframt spennandi og einstakt þema, sem gefur stjörnunum færi á að túlka það á ákveðinn hátt og klæðast sínu fínasta pússi með þemað í huga. Í gegnum árin hafa þau hafa verið jafn mismunandi og þau eru mörg. Vert er að nefna þemað „tíska og kaþólskt ímyndunarafl“, þema sem var kynnt fyrir Met Gala árið 2018, þar sem átti að taka sérstakt tillit til kaþólskrar trúar. Það ár voru dýrmætir hlutir úr Vatíkaninu til sýnis á Metropolitan. Árið 2016 var þemað kynnt sem „maður og maskína – tíska á öld tækninnar“, þar sem lögð var áhersla á nútímatækni. Stjörnurnar klæddu sig í flíkur sem minntu á vélar, sem og látlausan og einfaldan klæðnað. Oft er rætt um klæðnað stjarnanna löngu eftir að Met Gala á sér stað, og því leggja þær sig allar fram um að vera sem eftirminnilegastar á rauða dreglinum. Þegar klæðnaður þykir einkar vel heppnaður má sú stjarna búast við mikilli umfjöllun sem og auknum vinsældum.

Annað sem eykur sérstöðu viðburðarins og leynd hans er síma- og fréttamiðlabannið sem fylgir honum. Almenningur fær því einungis að fylgjast með því sem fer fram á rauða dreglinum, en engin viðtöl eru veitt og símar eru bannaðir þegar dyrnar að Metropolitan-safninu lokast. Það er því engin furða að það sé eftirsótt og þyki gríðarlegur heiður að labba rauða dregilinn á Met Gala.