Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð: Í fæti mínum ónýt er efsta frosið lag í snjó. Lítið svona bátur ber, barnagull hún var úr sjó. Axel Knútsson leysir gátuna: Mín veika hnéskel ónýt er alls staðar á fönnum skel afla lítinn bátsskel ber barnagull er öðuskel

Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Í fæti mínum ónýt er

efsta frosið lag í snjó.

Lítið svona bátur ber,

barnagull hún var úr sjó.

Axel Knútsson leysir gátuna:

Mín veika hnéskel ónýt er

alls staðar á fönnum skel

afla lítinn bátsskel ber

barnagull er öðuskel.

Lausn Sigmars Ingasonar:

Skel á hné síst skemma má.

Skel á snjónum brotnar undan fæti.

Bátskel þessi ber víst skippund fá.

Börnin léku að legg og skel með kæti.

Guðrún B. átti kollgátuna:

Verkur í hnéskel og hæl,

þá harða snjóskel ég brýt

á leið að bátsskel í bræl-

u. Barn með skeljar ég lít.

Lausnarorðið er skel segir Úlfar Guðmundsson:

Styrkja skelin máttug má.

Myndast skelin snjónum á.

Lítil skel lítið tekur.

Leggur og skel hug vekur.

Lausn Helga R. Einarssonar:

Hnéskel stundum skaða ber.

Skel myndast á snjó.

Í skelinni minn afli er.

Aða' er skel í sjó.

Sjálfur skýrir Páll gátuna:

Á fæti mínum hnéskel ónýt er,

efsta lagið frosin skel af snjó.

Kölluð skel sá bátur lítið ber

og barnagull var skelin upp úr snjó.

Þá er ný gáta eftir Pál:

Um litla drengi notað orðið er,

enn í vatnið spenntur þessi fer.

Það heyrist ef í bílnum bilar hann,

og brennivínið oft á gripinn rann.

Lausavísa eftir Símon Dalaskáld:

Norðurárdalur næsta' er svalur fremra.

Engar jómfrúr eru þar.

Allt eru tómar kerlingar.

Limra eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Ég skokka' ekki, skylmist né hjóla

né skálma um brekkur og hóla

né kasta og stekk

en kvöld eitt ég gekk

og komst milli hægindastóla.

Þórhildur Sveinsdóttir frá Hóli í Svartárdal heyrði konu lýsa eiginmanni sínum:

Hrindir löngum drykkjudúr

drattast fram úr latur.

Alltaf fúll og alltaf súr

eins og skemmdur matur.

¶Andans gróður er og var¶í Eyjafirði nógur.¶Sigurhæðir heilla þar,¶Hraun og Fagriskógur.¶Sigurður Jónsson frá Brún kvað:¶Þó að ráð ei náist nein¶nú í bráð í flösku¶fyrr var áð við Staupastein¶stundum gáð í tösku.¶Fuglalimra eftir Pál í Hlíð – Toppís:¶Á ráðstefnu um betri bönd¶og bræðralög víða um lönd¶hélt toppöndin ræðu¶klædd toppandarslæðu¶og toppaði Jóakim Önd.¶Leirulækjar-Fúsi kvað:¶Ég sting mér niður og steypi af dás;¶stattu ei nærri kona:¶Mér er ekki markaður bás¶meira en svona og svona.¶Hjörtur Gíslason kvað:¶Þegar hnígur sól að sæ¶og svanir vorsins kvaka¶lokkar húmið burt frá bæ¶börn, sem þrá að vaka.¶Öfugmælavísan:¶Aldrei sofið er um nótt,¶en um daga svarta;¶þá er allt svo hægt og hljótt,¶hvergi um neitt að kvarta.¶Halldór Blöndal