Þegar viðtalið við Einar Stefánsson er lesið vakna spurningar um hvort annað gildi um nýsköpunarsamvinnu um heilbrigðismál milli einkaaðila og hins opinbera en um önnur verkefni.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Einar Stefánsson, fyrrverandi prófessor í augnlækningum og meðstofnandi fyrirtækjanna Oculis og Retinarisk, segir við ViðskiptaMogga 8. maí að heilbrigðiskerfið sé ekki móttækilegt fyrir íslenskum tæknilausnum. Af þessum sökum sé annars vegar dregið úr nýsköpunarárangri hér og hins vegar verði íslenskt heilbrigðiskerfi, og slík kerfi um heim allan, af „alveg stórkostlegum framfaraskrefum“.

Við innleiðingu ýmissa kerfislausna í netheimum á tíunda áratugnum, til dæmis innan stjórnsýslunnar, áttu alþjóðleg fyrirtæki samvinnu við upplýsingatæknimenn í ráðuneytum hér. Lausnir innan lítilla stjórnkerfa urðu til þess að opna leiðir til að leysa sambærileg verkefni í mun stærri kerfum. Á þetta til dæmis við um málaskrá stjórnarráðsins sem gjörbreytti starfsháttum innan ráðuneyta og opinberra stofnana á sínum tíma.

Á þessum árum hefði áhugaleysi eða beinlínis andstaða við samstarf opinberra aðila við einkaaðila getað orðið til þess að samvinna við erlenda þróunaraðila hefði aldrei dafnað. Íslenski sprotinn varð hins vegar tengdur inn í stærri heild og til varð eitthvað nýtt, kerfið GoPro sem lifir enn góðu lífi.

Í nóvember 2022 var skrifað undir samning um kaup íslenskra ráðuneyta á nýju mála- og samskiptakerfi sem reist er á á GoPro Foris frá Hugviti hf. Fyrirtækið hefur komið að þróun þessa kerfis í rúm 30 ár. Þetta nýja kerfi var keypt í framhaldi af viðamiklu útboðsferli á EES-svæðinu með þátttöku innlendra og erlendra aðila.

Í kynningu sagði þá að GoPro Foris-kerfið væri íslenskt og eitt stærsta þróunarverkefni íslensks hugbúnaðarfyrirtækis. Um væri að ræða umfangsmikla lausn sem fæli í sér skjala- og málavinnslu ásamt fundakerfi fyrir ráðuneyti og ríkisstjórnina. Tengingar væru við Microsoft 365-lausnir eins og Office og Teams auk samþættingar við aðra stjórnsýsluþætti. Kerfið er notað víða um lönd og hjá alþjóðastofnunum.

Hér er um að ræða hugbúnað sem snýr að hjarta stjórnsýslunnar og þarf sífellt að standast meiri áraun vegna innbrotstilrauna tölvuþrjóta eða gíslatökumanna. Kaupin sýna að stjórnarráðið eða þeir sem þar ráða eru ekki andvígir samvinnu einkaaðila og opinberra við þróun tæknilausna og nýtingu hugbúnaðar. Sjálfsþurftarbúskapur ríkis eða sveitarfélaga á þessu sviði er dæmdur til að mistakast.

Í fyrrgreindu viðtali við Einar Stefánsson segist hann hafa talað árangurslaust við fjóra heilbrigðisráðherra í röð um lausnir fyrirtækisins Retinarisk sem miða að því að skipuleggja og sinna þjónustu við sykursjúka einstaklinga vegna augnskoðana og blinduvarna.

Tæknin á ekki einungis við um augnsjúkdóm sykursjúkra heldur einnig hjartasjúkdóm og nýrnasjúkdóm auk hjarta- og æðasjúkdóma og mjög stóran hluta af langvinnum sjúkdómum sem mynda tvo þriðju hluta af heilbrigðisþjónustunni. Með tækninni er spáð af ótrúlegri nákvæmni fyrir um þróun sjúkdóma. Læknisþjónustu má sníða að þörfum hvers einstaklings. Með hugbúnaðinum má draga úr fjölda skoðana um 40%.

Segir Einar það ganga „óskaplega seint og illa“ að ýta þessum málum áfram. Það sé „stórkostlega ergilegt að kerfið“, embættismenn, stjórnendur og „allt þetta fólk“, mæti þessum lausnum „af kurteislegu áhugaleysi“.

Þegar viðtalið við Einar Stefánsson er lesið vakna spurningar um hvort annað gildi um nýsköpunarsamvinnu um heilbrigðismál milli einkaaðila og hins opinbera en um önnur verkefni. Hér skulu nefnd nokkur sjónarmið sem koma til álita á heilbrigðissviðinu.

Sé einkaaðilum haldið frá heilbrigðismálum nú á tímum gervigreindar er farið á mis við fjármagn sem þeir hafa til að fjárfesta í bestu tækni og innleiða hana á skömmum tíma. Fjárhagslegar skorður og skriffinnska kann á hinn bóginn að ráða hraða hins opinbera. Þar getur tekið langan tíma að réttlæta nauðsyn þess að forgangsraða útgjöldum í þágu nýrra lausna.

Einkaaðilar verða að fara að opinberum heilbrigðisreglum en vilji þeirra til að láta reyna á þanþol þeirra og breyta þeim í þágu góðra lausna er meiri en hjá opinberum stofnunum sem geta átt hlut að íþyngjandi regluverki sér í hag.

Meginhvatinn að baki sókn af hálfu nýsköpunarfyrirtækja er kynning á góðum eigin lausnum og hagnaðarvon, áherslan er því á skilvirkni og hagkvæmni. Innan opinberra kerfa er áherslan sögð á skjólstæðinginn, gæði umönnunar og árangur heilbrigðisþjónustu án hagnaðarvonar.

Hjá einkaaðilum er almennt meira svigrúm til að taka áhættu en hjá hinu opinbera þegar unnið er að nýsköpun. Einkaaðilar eru oft tilbúnir til að gera tilraunir með nýja tækni til að ná samkeppnisforskoti.

Innan opinberra heilbrigðiskerfa forðast menn almennt að taka áhættu. Þeir velja öryggi og reyndar aðferðir í stað þess að leyfa tækni án mikilla tilrauna.

Þótt Einar Stefánsson beini óskum um umbætur til stjórnmálamanna er réttmætt að spyrja hvort hann glími ekki í raun við tregðu og nýjungaótta meðal lækna og stjórnenda heilbrigðiskerfisins.

Hér er trúin á að allir þræðir heilbrigðisþjónustunnar séu best komnir í höndum ríkisins meiri en í flestum löndum.

Nýsköpun verður að ná inn í heilbrigðiskerfið sjálft á sama hátt og varð í stjórnsýslunni fyrir 30 árum. Nú eins og þá á það við að gervigreindarlausnir sem eru mótaðar af einkaaðila í litlu, lokuðu samfélagi geta síðan orðið að þjónustutæki í miklu stærri og margbrotnari kerfum sem þjóna fjölbreyttum og fjölmennum hópum fólks.

Það er hættulegra að hindra nýsköpun á þessu sviði en leyfa hana.