Hagfræðideild Landsbankans spáir áframhaldandi eftirspurnarþrýstingi á fasteignamarkaði á næstu árum. Þetta kemur fram í Hagsjá bankans. Íbúðaverð er á uppleið þrátt fyrir hátt vaxtastig en eftir kröftugar verðhækkanir á faraldursárunum kólnaði…

Hagfræðideild Landsbankans spáir áframhaldandi eftirspurnarþrýstingi á fasteignamarkaði á næstu árum. Þetta kemur fram í Hagsjá bankans.

Íbúðaverð er á uppleið þrátt fyrir hátt vaxtastig en eftir kröftugar verðhækkanir á faraldursárunum kólnaði íbúðamarkaður verulega þegar vaxtastigið tók að hækka og um mitt síðasta ár fór að bera á verðlækkunum á stöku mörkuðum.

Fram kemur í Hagsjánni að veltan á íbúðamarkaði virðist einnig hafa aukist og kaupsamningum hafi fjölgað statt og stöðugt á síðustu mánuðum. Undirritaðir kaupsamningar voru 24% fleiri í mars á þessu ári en í mars í fyrra og 27% fleiri nú í febrúar en í sama mánuði í fyrra.

Þar til í ágúst í fyrra fækkaði kaupsamningum á milli ára í hverjum mánuði í um það bil tvö ár.

„Því er óhætt að segja að markaðurinn hafi lifnað við á seinni helmingi síðasta árs, bæði hvað varðar verð og veltu. Eftir nokkuð stormasamt tímabil á fasteignamarkaði, með hörðum verðhækkunum og í kjölfarið snöggri kólnun, má nú líklega búast við auknu jafnvægi,“ segir í Hagsjánni.