Garðabær Guðmundur Baldvin Nökkvason og Guðmundur Magnússon í skallaeinvígi í gærkvöld en sá síðarnefndi skoraði fallegt mark.
Garðabær Guðmundur Baldvin Nökkvason og Guðmundur Magnússon í skallaeinvígi í gærkvöld en sá síðarnefndi skoraði fallegt mark. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjarnan og Fram áttu bæði möguleika á að komast í efsta sæti Bestu deildar karla í fótbolta í gærkvöld með sigri í viðureign liðanna í Garðabæ. Stjarnan hefði reyndar þurft stórsigur sem var aldrei í kortunum en Framarar hefðu komist í efsta sætið í fyrsta skipti í fjórtán ár með sigri

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Stjarnan og Fram áttu bæði möguleika á að komast í efsta sæti Bestu deildar karla í fótbolta í gærkvöld með sigri í viðureign liðanna í Garðabæ.

Stjarnan hefði reyndar þurft stórsigur sem var aldrei í kortunum en Framarar hefðu komist í efsta sætið í fyrsta skipti í fjórtán ár með sigri.

Jafntefli var hins vegar niðurstaðan, 1:1, eftir atvikum sanngjarnt en Stjörnumenn teljast þó hafa verið öllu nær sigri eftir nokkra yfirburði í fyrri hálfleik.

Óli Valur Ómarsson skoraði þá fallegt skallamark eftir sendingu Hilmars Árna Halldórssonar.

En Framarar tóku sig verulega á í seinni hálfleik og jöfnuðu með gullfallegu marki á 66. mínútu. Eftir afskaplega vel útfærða sókn skallaði Haraldur Einar Ásgrímsson boltann á Guðmund Magnússon sem afgreiddi hann meistaralega og viðstöðulaust upp í vinstri samskeytin, 1:1.

Stjörnumenn náðu því ekki að vinna sinn fjórða leik í röð en geta þó ekki kvartað mikið yfir því að hafa náð í 10 stig í síðustu fjórum leikjunum eftir tvo ósigra í byrjun móts.

Viðsnúningur Rúnars

Framarar halda áfram í því nýja hlutverki að vera lið sem afar erfitt er að sigra. Það er magnað hvernig Rúnar Kristinsson hefur snúið hlutunum við í Úlfarsárdalnum. Fram hefur fengið á sig fjögur mörk í fyrstu sex leikjunum en hafði á sama tíma í fyrra fengið á sig 13 mörk. Hafði reyndar líka skorað 13 en færri mörk gefa liðinu fleiri stig í ár.

Þetta var fyrsti leikurinn í sjöttu umferðinni sem fer öll fram um helgina. Tveir leikir eru í dag og þrír á morgun.