Anna Sigríður Grímsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 14. júlí 1928. Hún lést á bráðadeild Landspítalans 27. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Grímur Gíslason, f. 20. apríl 1898, d. 31. mars 1980, og Guðbjörg Magnúsdóttir, f. 20. apríl 1901, d. 5. maí 1982.

Bræður Önnu voru: Magnús, f. 1921, Anton, f. 1924, Gísli, f. 1931, og Guðni, f. 1934, og eru þeir allir látnir.

Anna giftist 10. júní 1950 Guðjóni Magnússyni netagerðarmanni, f. 4. apríl 1921, d. 4. janúar 2001.

Börn Önnu og Guðjóns eru: 1) Magnús Birgir, f. 13. júlí 1949, hans kona var Jóna Kristín Ágústsdóttir, en hún lést 18. október 2016. Börn þeirra eru Guðjón, f. 20. september 1983, Anna Kristín, f. 6. mars 1987, og Ólafur Vignir, f. 12. febrúar 1992. Eiga þau fimm barnabörn. 2) Þuríður, f. 19. nóvember 1952, gift Ólafi Friðrikssyni og sonur þeirra er Andri, f. 26. júní 1985. Fyrir átti Ólafur Söru Margréti, f. 11. júlí 1974, sem ólst upp hjá þeim, og Davíð Björn, f. 30. júní 1973. Eiga þau átta barnabörn. Vinkona Birgis er Auður Dóra.

Anna ólst upp í Vestmannaeyjum og bjó þar alla sína tíð að frátöldum nokkrum mánuðum meðan á Vestmannaeyjagosinu stóð.

Í Eyjum stundaði hún barna- og unglinganám þess tíma ásamt iðnskóla og Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði.

Á yngri árum var Anna húsmóðir með stórt heimili. Árið 1980, þegar hægjast fór um í heimilisstörfum, hóf hún störf í fiskvinnslu hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og vann þar fram að sjötugu.

Anna stundaði íþróttir hjá Tý á sínum yngri árum og síðar vann hún mikið starf í þágu íþróttahreyfingarinnar og hlotnuðust henni margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín á þeim vettvangi.

Útför Önnu fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 11. maí 2024, klukkan 10.30. Streymt verður frá útförinni.

Þau voru þung skilaboðin um að þú hefðir veikst skyndilega og værir farin frá okkur rétt rúmum hálfum sólarhring síðar. Þó svo að búast mætti við þessu hvenær sem er þá er áfallið og söknuðurinn alltaf mikill, því þú varst svo eldhress miðað við aldur.

Amma Gríms eins og við barnabörnin kölluðum þig, þökk sé Guðjóni því hann hélt að allir segðu Amma Gríms í staðinn fyrir Anna Gríms, var með svo yndislega fallegt og gott hjartalag, hvers manns hugljúfi eins og við Eyjamenn segjum. Það var á allra vörum hversu dásamleg og glaðlynd þú alltaf varst og urðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að upplifa það í öll þessi ár. Þinn smitandi hlátur, jákvæðni og góðmennsku geymum við í hjörtum okkar að eilífu og komum áfram til afkomenda þinna.

Snemma fór amma að kenna okkur barnabörnunum vandað handverk í formi jólagjafa til foreldra okkar. Vorum við Guðjón, Andri, Anna og seinna Ólafur sótt til að föndra jólagjafir sem var auðvitað hernaðarleyndarmál. Amma gætti þess að þetta myndi nú líta sómasamlega út þannig að hægt væri að stilla þessu upp. Þarna kenndi amma okkur þolinmæðisvinnu og fallegt handverk sem hún svo sannarlega hafði að leiðarljósi. Seinna þegar barnabarnabörnin mættu á svæðið var garnið aldeilis ekki sparað, allar fallegu og vel vönduðu flíkurnar sem börnin okkar nutu góðs af verða varðveittar um ókomna tíð. Það sem mætti okkur fyrst heima hjá þér eftir að þú varst farin var ókláraður þumall á ullarvettlingi, þú ætlaðir þér sennilega að koma aftur heim frá Reykjavík og klára hann þannig að litlum fingrum yrði ekki kalt. Þú hugsaðir vel um okkur öll og fyrir það erum við óendanlega þakklát.

Amma kenndi okkur mörg húsverkin, enda húsmæðraskólalærð. Það sást langar leiðir á heimili hennar sem og á kræsingunum sem hún töfraði fram í hvert skipti sem hún var heimsótt. Ekkert var til sparað þegar kom að veisluföngum á borðið, það sem lagt var á borð fyrir tvo hefði leikandi dugað tíu manns, svo vel var það útilátið.

Þegar við barnabörnin vorum að leika okkur í garðinum vantaði ekki upp á þjónustuhlutverkið hjá ömmu. Þá voru framreiddar hvers lags kræsingar gegnum gluggann. Það eina sem þurfti að gera var að banka á gluggann og þá var hún mætt að taka á móti pöntunum, djús, kex og ristabrauð – því ekki mátti börnin skorta næringu fyrir leiki dagsins.

Hlýi og mjúki faðmurinn hennar stóð alltaf opinn og það eru ófá skiptin sem maður minnist hennar með barnabarnabarn í faðminum syngjandi „Klappa saman lófunum“ eða „Afi minn fór á honum Rauð“. Það er yndislegt að hlýja sér við allar góðu minningarnar og við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa átt þig að í öll þessi ár; hress, skemmtileg og þakklát alveg fram að síðasta andardrætti.

Ljúfa Anna, láttu mig vissu fá.

Þú ein getur læknað mín hjartasár.

Í kvöld er ég sigli á sænum

í svala ljúfa blænum,

æ, komdu þá svo blíð á brá

út í bátinn mér einum hjá.

(Höf. Harry Dacre, þýð. ók.)

Takk fyrir allt, elsku besta Amma Gríms okkar, við elskum þig.

Guðjón, Andri, Anna Kristín, Ólafur Vignir og fjölskyldur.

Við eigum mikið af góðum og fallegum minningum um elsku Önnu Gríms frænku. Frá því að við munum eftir hefur okkur alltaf þótt gaman að koma á Heiðó enda alltaf gleði og gaman og móttökurnar góðar. Þangað fórum við alltaf í heimsókn með pabba á Þorláksmessukvöld í hákarl og harðfisk. Jafnframt í þrettándakaffi eftir fjörið uppi á velli, þar var Anna frænka búin að búa til heitt súkkulaði og fylla borðið af alls konar kræsingum, bestu skóbót í heimi og dýrindis brúntertu. Hún passaði síðan líka að Grýla og Leppi kæmu ekki of nálægt.

Anna var alveg einstök kona og mikil fyrirmynd okkar systra. Hún var með eindæmum jákvæð, alltaf kát og glöð, brosandi sínu breiða brosi og með sinn dillandi hlátur. Svona var hún alveg fram á síðasta dag.

Mikill vinskapur er á milli fjölskyldna okkar, Anna og afi Gísli voru systkini en jafnframt alltaf bestu vinir frá því þau voru lítil, eins og hún sagði okkur frá þegar við hittum hana fyrir stuttu. Við hittum hana hjá ömmu Baddý sem þá var orðin lasin. Anna sagði okkur skemmtilegar sögur frá gömlum tímum og brast jafnframt í grát yfir að amma ætti stutt eftir, því hún væri að missa svo mikið, þær væru búnar að vera bestu vinkonur í meira en 70 ár. Anna lést þremur dögum á eftir ömmu.

Takk fyrir samfylgdina, elsku Anna, okkur þykir afar vænt um þig.

Þínar frænkur,

Kristín Inga og Erna Ósk.

Um það leyti sem vorskýin tóku að sigla til okkar úr suðurátt sigldi elsku Anna frænka inn á nýtt tilverustig eilífðarinnar. Í hennar stíl var lítill fyrirvari á ferðalaginu og eins og vorvindurinn sveif hún nær fyrirvaralaust á braut. Þó að það eigi ef til vill ekki að koma á óvart að kona á 96. aldursári kveðji jarðvistina þá kom það á óvart að Anna skyldi kveðja nú. Þó að vitað sé að enginn verður eilífur hér á jörð þá fannst okkur alltaf að Anna myndi komast næst því af öllum.

Anna var með okkur að morgni miðvikudags 24. apríl við dánarbeð mömmu, Baddýjar mágkonu sinnar, en þær höfðu verið samferða í gegnum 70 ára skeið og alltaf nánar og góðar vinkonur. Ekki síst síðustu árin þegar þær bjuggu í nágrenni hvor við aðra. Þremur dögum síðar sigldi Anna sömu leið og Baddý vinkona hennar. Sorg og söknuður hjá Önnu hefur því trúlega breyst í fögnuð og sælu við endurfundi á eilífðarbrautinni.

Anna frænka var mér alla tíð afar kær og náin. Hún var eiginlega önnur mamma mín. Nýfæddur bjó ég nánast á heimili hennar með foreldrum mínum og frá þeim tíma elskaði ég alla samveru með Önnu.

Anna var einstök persóna. Traust eins klettur, blíð eins og engill, brosmild eins og sólin og hlýja og góðvild streymdu frá henni. Hún var alltaf glöð og kát og kvartaði helst ekki. Að eigin sögn var hún alltaf góð, jafnvel þó að allir vissu að eitthvað plagaði hana eða að einhver kvilli væri að hrjá hana. Hún kvartaði aldrei.

Ótal minningar hrannast upp í hugann við fráfall Önnu og það er birta, bros og gleði yfir öllum þeim minningum. Ótal dvalir á Heiðarveginum hjá henni og Gauja, heimsóknir á Þorláksmessu sem mörkuðu upphaf jólanna, skriftarkennsla, leiksýningar á stofugólfinu á Heiðarveginum og margt fleira. Allt minningar sveipaðar ljóma og fegurð lífsins.

Eftir að Anna flutti í Kleifahraunið var gott að droppa inn hjá henni í stutt spjall. Það var svo mikil hlýja á heimilinu. Alltaf sama lyktin, sem fylgdi heimili hennar, og fyllti mann ró, friði og innri gleði. Þeirri ró og þeim friði sem alltaf stafaði af Önnu.

Anna var alla tíð glæsileg kona, teinrétt, vel tilhöfð og með hárið tilhaft alla daga. Í mínum augum algjör drottning og mikil fyrirmynd. Anna hélt glæsileika sínum og reisn fram á síðustu stundu og fór á þann hátt sem henni var líkt, ekkert tvínón, heldur haldið af stað með nánast engum fyrirvara. Þannig hafði hún sjálf óskað að síðasta ferðlag hennar yrði og henni varð nokkurn veginn að ósk sinni.

Við Guðrún kveðjum elsku Önnu frænku með söknuði en um leið þakklæti fyrir alla þá velvild, góðmennsku og yndislegheit sem hún gaf af sér.

Við trúum því og treystum að hún sé nú komin á braut eilífðarinnar og hitti þar fyrir Gauja sinn, Baddý, Gísla og aðra gengna og víst er að það verða hlátrasköll og gleði á þeim stað. Líklega verður slegið í vist og þær vinkonur munu sjá um flatkökur, randalínur og annað góðmeti þar.

Við sendum Bigga, Þuru og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Takk fyrir allt, elsku Anna frænka. Guð og góðar vættir gæti þín á nýjum slóðum.

Grímur og Guðrún.

Það er komið að kveðjustund. Í dag kveðjum við elsku hjartans frænku mína hana Önnu Gríms sem hefði orðið 96 ára í sumar. Aldur er afstæður, það sannaði hún frænka mín svo sannarlega með glaðværð sinni og léttleika alla tíð.

Þessir síðustu dagar hafa verið svo óraunverulegir, hvernig má það vera að þið mamma hafið ákveðið að kveðja okkur öll með þriggja daga millibili. Eftir stöndum við og horfum yfir farinn veg og trúum því að þið hafið ákveðið að fylgjast að áfram veginn inn í sumarlandið, enda voruð þið mágkonurnar miklar vinkonur alla tíð.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að alast upp í návist frænku minnar og hennar fjölskyldu á Heiðarveginum þar sem alltaf var líf og fjör. Þegar ég hugsa til baka finnst mér ég alltaf hafa átt heima þar í æsku, þó svo við flyttum af loftinu þegar ég var sex ára yfir í austurbæinn.

Eftir þessa veru á Heiðarveginum mynduðust sterk og órjúfanleg bönd á milli fjölskyldna okkar og höfum við átt margar og ógleymanlegar gleðistundir saman. Margs er að minnast á svo langri tíð; Þjóðhátíð, þrettándann, tjald- ferðalögin og margt fleira mun ég geyma í mínu hjarta.

Anna var einstök kona og það var einhver sérstök ára yfir henni, hún lagði alltaf upp með það góða í farteskinu og vandamál voru ekki til í hennar orðabók.

Ég hringdi oft í hana og byrjaði á að spyrja um veðrið, það var alltaf gott þótt blési hressilega á Höfðanum.

Hún sagðist hafa sól í sinni og sól í hjarta, þá væri veðrið alltaf gott, ég vona að ég geti tileinkað mér þessi orð frænku minnar.

Anna flutti í Kleifarhraunið eftir andlát eiginmanns síns og undi þar hag sínum vel, hugsaði um sig sjálf að mestu leyti fram í andlátið, var alltaf vel tilhöfð og glæsileg.

Við Kiddi kvöddum hana á sumardaginn fyrsta með þeim orðum að við hittumst aftur í Eyjum eftir nokkra daga, en þetta var síðasta kveðjustundin með elsku Önnu.

Minninguna um einstaka konu munum við geyma í hjörtum okkar.

Guð geymi þig, elsku frænka.

Erla Ólafía og fjölskylda.

Anna okkar, ljúfa Anna, er látin, tæplega 96 ára að aldri. Hún bar ekki aldurinn með sér, var með allt á hreinu, fylgdist vel með og alltaf með sitt fallega bros. Það kom okkur því mjög á óvart, sem segir mikið, þegar við fengum upphringingu um snögg veikindi hennar sem leiddu til andláts skömmu síðar. Fallegar og einlægar minningar koma upp í hugann á tímamótum sem þessum, minningar sem oft voru rifjaðar upp þegar við ræddum við Önnu. Seinasta heimsóknin okkar til hennar, tæpum tveimur dögum fyrir andlát hennar, er okkur dýrmæt sem og önnur samvera. Anna, ásamt látnum eiginmanni hennar Guðjóni Magnússyni, Gauja Manga, og fjölskylda, eru okkur mjög kær. Í gegnum tíðina hafa gleðistundirnar verið miklar, hvort heldur í sumarbústaðnum okkar sem við áttum saman forðum í Vaðnesi eða á öðrum stundum. Þau Anna og Gaui voru einstök og það er með miklum söknuði sem við kveðjum nú Önnu. Elsku Anna, nú hefur þú hitt hann Gauja þinn og alla hina, það hlýtur að ganga eitthvað á, Ljúfa Anna sungið og eitt eða tvö „Tigga Ligga“ tekin, það heyrist okkur. Með þessum fátæklegu orðum viljum við fjölskyldan kveðja Önnu, Önnu sem gaf okkur svo mikið. Megi góður Guð blessa minningu Önnu sem og annarra sem gengnir eru. Aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur öll.

Þuríður Kristín
Kristleifsdóttir,
Guðmundur Þorlákur Bjarni Ólafsson
og fjölskylda.

hinsta kveðja

Í dag verður jarðsungin frá Landakirkju í Vestmannaeyjum yndislega föðursystir mín með brosið sitt blíða, Anna Gríms. Ég kveð þig elsku frænka mín með þessu ljóði:

Ljúfar voru stundir

er áttum við saman.

Þakka ber Drottni

allt það gaman.

Skiljast nú leiðir

og farin ert þú.

Við hittast munum aftur,

það er mín trú.

Hvíl þú í friði

í ljósinu bjarta.

Ég kveð þig að sinni

af öllu mínu hjarta.

(Maren Jakobsdóttir)

Innilegt þakklæti til þín fyrir allt sem þú varst mér og mínum, ljúfa Anna.

Þín bróðurdóttir,

Hafdís.