Líkhús Líklegt er að Kirkjugarðar Akureyrar loki líkhúsinu þar í bæ vegna fjárskorts, en ekki er heimilt að innheimta gjald vegna þjónustunnar.
Líkhús Líklegt er að Kirkjugarðar Akureyrar loki líkhúsinu þar í bæ vegna fjárskorts, en ekki er heimilt að innheimta gjald vegna þjónustunnar. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Allt stefnir í að líkhúsinu á Akureyri verði lokað í sumarbyrjun. Þetta staðfestir Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar í samtali við Morgunblaðið. Fari svo verður einungis eitt líkhús starfandi í landinu, þ.e. Kirkjugarða Reykjavíkur.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Allt stefnir í að líkhúsinu á Akureyri verði lokað í sumarbyrjun. Þetta staðfestir Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar í samtali við Morgunblaðið. Fari svo verður einungis eitt líkhús starfandi í landinu, þ.e. Kirkjugarða Reykjavíkur.

Smári segir að líkíhúsið hafi verið auglýst til sölu í fyrra, en engir kaupendur sem halda vildu starfseminni áfram, hafi gefið sig fram, hins vegar hefðu gefið sig fram kaupendur sem nýta vildu húsið til annarrar starfsemi.

Segir hann að ekki sé heimild til þess að innheimta þjónustugjald vegna starfseminnar eins og reynt var á sínum tíma og engin teikn á lofti um að lögum verði breytt á þann veg að slíkt verði heimilað.

„Við erum búnir að vera í samskiptum við dómsmálaráðuneytið út af málinu og höfum verið það allt frá árinu 2011,“ segir Smári og nefnir að fundað hafi verið með öllum dómsmálaráðherrum frá þeim tíma. „Það verður að segjast eins og er að stjórnsýslan í þessu máli gengur hægar en snigillinn,“ segir hann, en viðbrögð ráðuneytisins séu þau ein að verið sé að vinna í málinu.

„Við spyrjum ráðuneytið í hverri viku, en ekkert virðist vera að frétta þaðan. Það stefnir allt í að líkhúsið á Akureyri loki, því ég finn ekkert fjármagn til að reka það. Þetta væri efni í farsa hvernig fyrir okkur er komið, ef þetta væri ekki svona sorglegt mál,“ segir Smári.

„Við hefðum átt að vera búnir að loka fyrir löngu, en höfum haldið í vonina. Við áttum reyndar góðan fund með núverandi dómsmálaráðherra sem kveikti algerlega á perunni og sagðist ætla að drífa í því að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum til að gefa okkur heimild til að innheimta þjónustugjöld, en það hefur ekki gerst enn og við sjáum ekki að slíkt frumvarp sé inni á þingmálaskrá þessa þings. Við lifum í voninni, en komumst ekki lengra fjárhagslega en fram á vorið. Ef málið fer ekki í gegn á vorþingi, þá geri ég fastlega ráð fyrir því að Kirkjugarðar Akureyrar hætti að reka líkhús á Akureyri í byrjun sumars. Það er með ólíkindum eftir allan þennan tíma að það skuli ekkert gerast í ráðuneytinu sem ber ábyrgð á málinu,“ segir Smári.