Við störf Atvinnulausum fækkaði á flestum stöðum á landinu í apríl.
Við störf Atvinnulausum fækkaði á flestum stöðum á landinu í apríl. — Morgunblaðið/Eggert
Atvinnuleysi er heldur á niðurleið en skráð atvinnuleysi í apríl var 3,6% og minnkaði úr 3,8% frá mars. Í apríl í fyrra var atvinnuleysið þó heldur minna eða 3,3%. Vinnumálastofnun birtir yfirlit yfir ástandið á vinnumarkaðinum í gær og spáir…

Atvinnuleysi er heldur á niðurleið en skráð atvinnuleysi í apríl var 3,6% og minnkaði úr 3,8% frá mars. Í apríl í fyrra var atvinnuleysið þó heldur minna eða 3,3%.

Vinnumálastofnun birtir yfirlit yfir ástandið á vinnumarkaðinum í gær og spáir stofnunin því að atvinnuleysið í maímánuði gæti orðið á bilinu 3,3% til 3,6%.

„Að meðaltali var 7.291 atvinnulaus í apríl, 4.154 karlar og 3.137 konur. Að meðaltali fækkaði atvinnulausum um 227 frá mars,“ segir í skýrslu VMST.

Fram kemur að atvinnuleysi minnkaði á flestum stöðum á landinu í seinasta mánuði frá mánuðinum á undan, nema á Norðurlandi vestra þar sem það jókst úr 1,5% í 1,6%. „Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í apríl eða 6,2% og minnkaði úr 6,5% frá mars. Næstmest var atvinnuleysið 3,7% á höfuðborgarsvæðinu í apríl. Atvinnuleysi var 3,5% á landsbyggðinni í apríl. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra eða 1,6% og 2,3% á Vesturlandi.“

Þegar atvinnuleysið er greint eftir atvinnugreinum kemur í ljós að atvinnulausum fækkaði í flestum atvinnugreinum í apríl. Mest var fækkunin í verslun og vöruflutningum, listum, tómstundum og í ýmiss konar þjónustustarfsemi. „Atvinnulausum fjölgaði lítillega í lok apríl í þremur atvinnugreinum, mest þó í sorpi og veitum,“ segir VMST. omfr@mbl.is