„Ég upplifði sjálfur alla mína skólagöngu að það vantaði að hafa einhvern sem væri til staðar í skólaumhverfinu, einhvern til að tala við og fá leiðsögn,“ segir Davíð Samúelsson.
„Ég upplifði sjálfur alla mína skólagöngu að það vantaði að hafa einhvern sem væri til staðar í skólaumhverfinu, einhvern til að tala við og fá leiðsögn,“ segir Davíð Samúelsson.
Hinsegin börn eru alltaf leynt og ljóst jaðarsett; það er bara þannig. Alveg sama hvað við höfum náð langt.

Nýtt verkefni er í burðarliðnum fyrir hinsegin nemendur á landsbyggðinni. Hópur fólks tekur þátt í verkefninu en í forsvari eru þau Davíð Samúelsson og Fanney Kristjánsdóttir, sem bæði eru menntaðir kennarar. Davíð segir verkefnið þarft, en því er ætlað að stuðla að meiri vellíðan hinsegin nemenda úti á landi sem margir hverjir upplifa nú fordóma og útskúfun.

Öryggi hinsegin barna

Upphafið að verkefninu Öruggt hinsegin skólaumhverfi má rekja til meistararitgerðar Davíðs um hvað hefði verið gert til að bæta líðan hinsegin barna og ungmenna í skólum á landsbyggðinni. Í kjölfarið bað mennta- og barnamálaráðherra Davíð að gera á þessu könnun sem lögð var fyrir kennara og starfsfólk í skólum á landsbyggðinni.

„Til þess að gera þetta almennilega stofnaði ég, ásamt fleirum, áhugafélag skólafólks um verkefnið. Við höfum notið stuðnings við nánari útfærslu þess frá dr. Bergljótu Þrastardóttur lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Þessi hópur vann að gerð spurninga sem við lögðum fyrir starfsfólk og kennara í grunnskólum fyrir austan, á Suðurlandi, í Ísafjarðarbæ og á Akureyri,“ segir Davíð og segir könnunina hafi verið gerða til þess að skoða hvort þörf væri á að bæta öryggi og líðan hinsegin barna í skólaumhverfinu.

„Okkur finnst að öryggið ætti að koma innan frá og vera til staðar í skólunum,“ segir Davíð og segist vilja hafa fólk innan hvers skóla sem geti veitt ráðgjöf og stuðning.

„Það er alltaf verið að tala um einelti og stuðningur er ekki nægilegur í skólum. Og hinsegin börnin eða trans börnin eru ekki bara í Reykjavík.“

Aðstoð innan frá

„Hinsegin börn eru alltaf leynt og ljóst jaðarsett; það er bara þannig. Alveg sama hvað við höfum náð langt. Mín hugsun er sú að aðstoðin eigi að koma innan frá en ekki bíða eftir „sérfræðingi að sunnan“, eins og sagt er,“ segir Davíð.

„Við erum núna að kynna þessa hugmynd fyrir skólastjórnendum. Við leggjum til að þeir finni einstaklinga hjá sér sem eru tilbúnir að vera eins konar hinsegin stuðningsfulltrúar hver í sínum skóla en þeir hafi svo stuðning hver af öðrum með því að mynda með sér óformlegt tengslanet eða félag sem væri þá ekkert ólíkt öðrum fagfélögum innan skólanna, eins og til dæmis félag dönskukennara eða stærðfræðikennara. Við getum kallað það hinsegin lífsgæði,“ segir Davíð og nefnir að þessir fulltrúar geti þá gripið inn í ef þeir heyra eða verða vitni að fordómum í garð hinsegin nemenda, til dæmis með aukinni fræðslu og stuðningi.

Davíð segist hafa fengið afar jákvæð viðbrögð þar sem hann hefur kynnt verkefnið skólastjórnendum.

„Heimsóknir okkar í skóla í Fjarðabyggð og á Akureyri voru alveg meiriháttar, en þetta er mikið undir skólastjórnendum komið. Síðasta miðvikudag vorum við með sextíu manna málþing fyrir stjórnendur í Háskólanum á Akureyri og gekk afar vel. Niðurstaða fundarins var að mikil þörf væri fyrir aukinn stuðning í skólaumhverfinu við hinsegin nemendur. Nemendur þurfa að finna til öryggis, að þau geti speglað sig í námsefninu og skólaumhverfinu. Í því skyni er mikilvægt að brjóta upp staðalímyndir kynjanna, að hinseginleikinn sé sýnilegur í kennsluefni og skólaumhverfinu. Til að vinna að þessu marki þarf að auka þekkingu og greiða fyrir aðgangi að upplýsingum þar sem fólk getur líka miðlað reynslu sinni og skipst á upplýsingum.“

Ný verkfæri í kistuna

Tvö ár hafa farið í þróunarvinnu verkefnisins og vonast Davíð eftir að hægt verði að hefja vinnuna í haust. Verkefnið mun einnig teygja sig út fyrir landsteinana, en styrkur hefur verið veittur frá norrænu ráðherranefndinni til þess að fara með verkefnið til Færeyja og Svíþjóðar en þar verða ráðstefnur á næsta ári, auk ráðstefnu á Akureyri í haust.

„Ég er hálfur Færeyringur og gekk í skóla þar. Það er land sem er mjög nauðsynlegt að koma á samstarfi við því fordómar eru þar miklir,“ segir Davíð.

„Á þessum ráðstefnum fáum við fyrirlesara og skólafólk, söfnum upplýsingum og fáum ný verkfæri í verkfærakistuna okkar sem verður á netinu,“ segir Davíð.

„Sjálfur fór ég í átta barnaskóla og er nánast alinn upp í pappakössum,“ segir Davíð og hlær.

„Eftir skólagöngu í Færeyjum og í Þorlákshöfn kláraði ég fullnaðarpróf með toppeinkunn við Digranesskóla. Það var var góður skóli, sérstaklega að því leyti að þar var mikill stuðningur og hvatning. Svo lauk ég minni grunnskólagöngu í Neskaupstað. Þar harðnaði aftur á dalnum og má segja að ég hafi upplifað jaðarsetningu á eigin skinni. Skólayfirvöld höfðu fá úrræði og gátu litla hjálp veitt. Ég upplifði sjálfur alla mína skólagöngu að það vantaði að hafa einhvern sem væri til staðar í skólaumhverfinu, einhvern til að tala við og fá leiðsögn,“ segir Davíð sem er samkynhneigður og þekkir því fordóma af eigin raun.

Jaðarsetning það versta

Davíð telur að margt í nútímanum geri það að verkum að hinsegin unglingar í dag upplifa enn meiri erfiðleika en áður því aðgengið í gegnum netið er víðtækt og alltumlykjandi.

„Árásirnar eru öðruvísi í dag og fara jafnvel fram í gegnum netið,“ segir Davíð, sem var unglingur fyrir tíma netsins.

„Ég gat flúið út í hesthús og farið á hestbak eða í útivist. En ég hefði gjarnan viljað vita af góðum kennara sem ég hefði getað leitað til. Skólaforðun og að detta úr námi er algengara hjá hinsegin börnum, auk sjálfskaðandi hegðunar og sjálfsvíga,“ segir Davíð og segist jafnvel vilja útvíkka verkefnið svo það geti hjálpað öllum jaðarsettum börnum, ekki einungis hinsegin börnum. Í þeim hópi gætu þá verið börn flóttamanna, erlendra íbúa, fíkla eða fátækra, svo dæmi séu tekin.

„Það besta sem foreldrar geta gefið börnum sínum er góð sjálfsmynd. Við samferðamennirnir getum hjálpað til við að valdefla börnin okkar. Kærleikur og umburðarlyndi skiptir mestu máli og að leyfa fólki að vera eins og það er. Jaðarsetningin er það versta.“