Ég hélt aldrei á lambi en lærði þó að súrheysturn heitir ekki súrefnisturn og að beljur geta ekki sjálfar stýrt spenum sínum.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Hjá forsetaframbjóðendunum tólf er allt komið á fullt og fjölmiðlar eru duglegir að birta af þeim fréttir. Ekki var talað um annað eftir síðustu helgi en kappræðurnar á RÚV og sitt sýnist hverjum. Flestir frambjóðenda stóðu sig með prýði en kannski gustaði ekki af neinum neitt sérstaklega. Ástþór hafði hæst; Ásdís Rán var með öðruvísi yfirlýsingar en aðrir og Viktor tönnlaðist á að hann væri bara með þrjár reglur. Hann vildi lítið svara að öðru leyti en því að hann hans persóna skipti ekki máli. Eigum við þá ekki bara að setja gínu á Bessastaði?

Þetta snýst auðvitað um persónuna og hennar mannkosti. Hvað skiptir máli í þeim efnum? Er það bakgrunnur, menntun, reynsla, heiðarleiki og fagmennska? Að minnsta kosti á kynhneigð ekki að spila rullu, og hvorki útlit né kyn. Að því sögðu vilja allir hafa huggulegan forseta, en þetta er jú allt huggulegasta fólk þannig að ekki þarf að hafa áhyggjur af því að einhver mæti í lörfum á Bessastaði. Mögulega í Gucci eða bikiníi!

Nú keppast frambjóðendur við að kynna sig víða um land og virðist ekki verra ef þeir eiga einhver tengsl við landsbyggðina. Þeir eru iðnir við að birta myndir af sér haldandi á lömbum eða í lopapeysum eða taka fram að þeir hafi verið í sveit sem börn. Halla Hrund gengur skrefinu lengra og tilkynnti í vikunni að hún ætlaði að vera með sauðfjárrækt á Bessastöðum.

Aldrei gæti ég boðið mig fram til forseta, enda væri ég alls ekki góður kandídat þar sem ég hef lítil tengsl við landsbyggðina, og þó, ég var eitt sumar í sveit í Borgarfirði. Ég hélt aldrei á lambi en lærði þó að súrheysturn heitir ekki súrefnisturn og að beljur geta ekki sjálfar stýrt spenum sínum. Það var góður lærdómur fyrir unglinginn.

Að tilheyra alþýðufólki virðist líka vera plús. Ég gæti sagt að ég hafi verið alin upp í blokk á Kleppsvegi sem er að hluta til satt. Það væri þó skammgóður vermir því Stefán Einar yrði fljótur að benda á að ég hefði flutt í einbýlishús á Markarflötinni ellefu ára gömul; það fer ekkert fram hjá honum.

En allt er þetta hluti af því að skapa ímynd; hvað frambjóðendur vilja að almenningur sjái. Ímyndin verður samt að stemma við manneskjuna, mannkosti hennar og bakgrunn. Misjafnt er hvað fólk vill sjá í sínum forseta, en flest viljum við geta samsamað okkur við hann; hann á að vera mannlegur en samt skara fram úr. Þannig viljum við heiðarlegan, huggulegan, kláran, traustan forseta sem kann að koma fyrir sig orði og vera verðugur fulltrúi þjóðar heima og á alþjóðlegum vettvangi.

Eða hvað viljið þið?