Carl Lewis heldur bandaríska fánanum á loft eftir að hafa sigrað í 100 metra hlaupinu á 9,99 sekúndum á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1984.
Carl Lewis heldur bandaríska fánanum á loft eftir að hafa sigrað í 100 metra hlaupinu á 9,99 sekúndum á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1984. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af hverju er langstökk ekki vinsælt? Vegna þess að það stekkur enginn langt.“

Nassau, Bahama-eyjum. AFP. | Carl Lewis er goðsögn í frjálsum íþróttum og var um tíma einn besti ef ekki besti spretthlaupari og langstökkvari heims. Að hans mati er langstökkið erfiðast allra frjálsíþróttagreina og hefur hann efasemdir um andlegan styrk íþróttamanna á uppleið og segir að þeir missi of auðveldlega einbeitinguna.

Lewis vann gull í langstökki á fernum Ólympíuleikum í röð, 1984 til 1996, og tvo heimsmeistaratitla.

Hann var ósigraður í áratug þar til hann tapaði fyrir Mike Powell á heimsmeistaramótinu í Tókýó 1991 í einu magnaðasta einvígi sögunnar í greininni.

Powell dugði ekki minna til sigurs en að stökkva 8,95 metra og bætti hann þar með heimsmet Bobs Beamons upp á 8,90 metra frá Ólympíuleikunum í þunna loftinu í Mexíkó 1968. Stökk Beamons stendur enn sem ólympíumet.

Stökk Powells og síðustu tvö stökk Lewis í Tókýó eru enn þrjú lengstu stökk sögunnar sem nokkru sinni hafa verið skráð á láglendi.

„Af hverju er langstökk ekki vinsælt? Vegna þess að það stekkur enginn langt,“ sagði Lewis, sem vanur er að tala tæpitungulaust, um dvínandi áhuga á greininni.

Miklu styttri stökk

Máli Lewis til stuðnings má benda á að Grikkinn Miltiadis Tentoglou sigraði í langstökki á Ólympíuleikunum í Tókýó með því að stökkva 8,41 metra og vann gull á heimsmeistaramótinu utandyra í fyrra með því að stökkva 8,52 metra.

„Þetta eru ekki geimvísindi,“ sagði Lewis þegar hann hitti útvalda blaðamenn á boðhlaupsmótinu í Nassau á Bahamaeyjum í vikunni. „Þú ert með kynslóð sem var vön því að menn stykkju 8,60 og það var samkeppni og fólk var spennt.“

Nú finnist áhugamönnum um frjálsar að þeir eigi ekkert sérstakt í vændum. „Sú var tíðin í langstökkinu að þig langaði að vera á staðnum vegna þess að þú myndir verða vitni að einhverju sérstöku,“ sagði hann.

Nú væru hins vegar breyttir tímar og fáir nýliðar væru tilbúnir að leggja á sig þær miklu æfingar sem þyrfti til að verða langstökkvari í fremstu röð.

„Ég held líka að það sé ekki lengur í okkar menningu að ala börn upp til að gera slíkt,“ sagði hann. „Það er ekki í okkar menningu að leggja svo hart að sér, að halda einbeitingu. Það er bara ekki fyrir hendi.“

Hann bætti við að hann væri ekki bara að tala um íþróttamenn heldur börn: „Það sem ég þurfti að ganga í gegnum, börn núna? „Æ nei, verð að stoppa, andleg heilsa.“ Í alvöru, ég tala bara af hreinskilni.“

Lewis sagði að Jesse Owens, sem komst í sögubækurnar þegar hann vann til fernra gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Berlín 1936, þar á meðal langstökki, væri sín fyrirmynd og benti á að stökkið hans þar, 8,13, hefði landað honum bronsi á Ólympíuleikunum í London. Það stökk hefði dugað Owens til að komast í úrslit í langstökkinu á öllum Ólympíuleikum sem haldnir hefðu verið síðan hann keppti í Berlín. Það sýndi hvað greinin væri erfið.