Spurt og svarað Jón situr fyrir svörum í Spursmálum þar sem hann ræðir viðhorf sitt til forsetaembættisins. Hann ræðir einnig feril sinn fram til þessa.
Spurt og svarað Jón situr fyrir svörum í Spursmálum þar sem hann ræðir viðhorf sitt til forsetaembættisins. Hann ræðir einnig feril sinn fram til þessa. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Gnarr grátbiður fólk að kjósa sig. Hann segir raunar að það sé skemmtileg leið til að ná til fólks. Þetta sé aðferð sem hann hefur áður beitt í útvarpi. „Ég hef verið að grátbiðja fólk að hlusta á þáttinn

Spursmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Jón Gnarr grátbiður fólk að kjósa sig. Hann segir raunar að það sé skemmtileg leið til að ná til fólks. Þetta sé aðferð sem hann hefur áður beitt í útvarpi.

„Ég hef verið að grátbiðja fólk að hlusta á þáttinn. Ég bara grátbið ykkur að hlusta á þáttinn, ef þið eruð ekki að hlusta. Sem er svo gaman því þú ert bara að tala við fólk sem er að hlusta á þáttinn.“ Þetta segir hann í nýjasta viðtali Spursmála sem aðgengilegt er á mbl.is og á Spotify.

Hann er reyndar bjartsýnn á rísandi gengi í könnunum, en þar hefur hann mælst með sífellt minna fylgi síðustu vikurnar.

„Fall er fararheill skal ég segja þér. Við tökum svona litla dýfu, svo skjótumst við upp, svona eins og á skíðastökkpalli, þetta er þannig sko.“

Nú fylgjandi NATO

Jón er m.a. spurður út í ummæli sem hann lét falla á forsetafundi með Morgunblaðinu á Ísafirði fyrir tæpum tveimur vikum. Þar sagðist hann taka rökum en svo gæti hann snarsnúist í afstöðu sinni ef hann hitti fyrir sérfræðing sem varpaði nýju ljósi á málið sem undir væri.

„Þetta er bara almenn skynsemi. Að vera opinn fyrir einhverjum rökum og upplýsingum sem þú hafðir ekki áður. Það kemur alltaf að því að þú þarft að taka ákvörðun og þig langar til að vera með meiri upplýsingar eða ítarlegri en það er kannski ekki kostur á því. Þannig að þú tekur ákvörðun byggða á þeim upplýsingum sem þú hefur á hverri stundu. Síðan hefðir þú kannski tekið aðra ákvörðun ef þú hefðir haft meiri upplýsingar eða fengið upplýsingar sem þú fékkst eftir að þú tókst ákvörðunina. Ég vil bara vera manneskja sem er opin fyrir rökum.“

En er þetta ekki bara lýsing á veifiskata sem snýst bara eins og vindhani?

„Nei alls ekki. Mér finnst þetta bara eðlileg og heilbrigð skynsemi, að taka rökum.“

Bendir hann á að hann hafi verið alinn upp í mikill andstöðu við herstöð Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli og einnig veru Íslands í NATO. Eftir innrás Rússa í Úkraínu hafi hann skipt um skoðun. Nú styðji hann þátttöku Íslands í varnarbandalaginu.

50.000 undirskriftir

Jón segist myndu beita málskotsrétti forseta ef „stór hluti“ þjóðarinnar væri andsnúinn löggjöf sem samþykkt væri af þingheimi. Það fari hins vegar eftir því hvernig sú andstaða komi fram hvernig hann myndi bregðast við.

Ef það væri undirskriftasöfnun á Ísland.is þar sem rafræn skilríki eru í notkun. Myndu 50.000 undirskriftir duga?

„Ég myndi telja það já.“

En 40.000?

„Ég veit það ekki. Ef ég fengi svona undirskriftalista afhentan myndi ég skoða það mjög vandlega og ég myndi gera það sem ég hef gert. Ég myndi ekki fara inn í eitthvert herbergi á Bessastöðum og loka mig þar inni og hugsa málið og koma svo út og tilkynna hvaða ákvörðun ég hefði tekið heldur myndi ég bera þetta undir fólk hvers dómgreind ég virði. Og taka síðan ákvörðun í framhaldi af því og ég er ekkert hræddur við að taka erfiðar ákvarðanir.“

Er hann þá spurður út í hina alræmdu Icesave-deilu þar sem nær allir sérfræðingar landsins lögðust á eitt við að telja þjóðina á að samþykkja samningana sem gerðir voru við stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi. Hann segir að sem forseti hefði hann vísað samningunum til þjóðarinnar. Hann segist ekki eins viss þegar kemur að fjölmiðlalögunum sem Ólafur Ragnar Grímsson synjaði staðfestingar árið 2004.

Hafði rangt fyrir sér

Þú varst borgarstjóri á þessum tíma. Tókstu þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni?

„Ég kaus semsagt með því að samþykkja þetta.“

Í bæði skiptin?

„Ég man það nú ekki. Bæði skiptin?“

Þetta voru tvær þjóðaratkvæðagreiðslur.

„Ég held það alveg pottþétt. Ég var alveg fullviss um að það væri það rétta að gera.“

Ertu á þeirri skoðun að það hafi verið rétt ákvörðun eða hafði þjóðin á réttu að standa?

„Ég hafði rangt fyrir mér þarna.“

En hefðir þú vísað samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu? Fyrst þú samþykktir samningana, hefðir þú þá ekki bara sagt heyrðu, þingheimur ræður þessu. Þetta er bara fjármálagjörningur, samningur milli tveggja eða þriggja fullvalda ríkja, menn verða bara að samþykkja það.

„Nei, þarna var náttúrlega undirskriftalisti sem Indefence-hópurinn var búinn að skila til forsetans.“

Þannig að það er alveg klárt að þú hefðir vísað þessu í þjóðaratkvæði.

„Já ég held það bara. Ég held að ég geti fullyrt það já.“

Grín er grín

Í viðtalinu eru rifjaðar upp tvær senur af ferli Jóns þar sem hann ásamt kollega sínum, Sigurjóni Kjartanssyni, hendir gaman að kynferðisofbeldi á þjóðhátíð annars vegar og hins vegar þar sem gantast er með þroskaskertan einstakling. Verst Jón fimlega og segir að hann hafi allan sinn feril notað húmor til þess að fást við samfélagsmál. Það sé ekki gert á kostnað þeirra sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi, svo dæmi sé tekið. Hafnar hann því að fólk í þeirri stöðu gæti ekki leitað ásjár forsetaembættisins, yrði hann kjörinn.

Mun koma fram sem dragdrottning í embætti

Mun sem forseti koma fram sem dragdrottning

Forsetavagn í gleðigöngunni

Í Spursmálum er Jón spurður út í hvort til greina komi, nái hann kjöri til embættis forseta, að hann endurtaki leikinn frá því að hann var borgarstjóri, og komi fram sem dragdrottning í Gleðigöngunni árlegu. Hugsar hann sig nokkuð um en svarar svo afdráttarlaust já.

„Ég sé ekkert að því. Sem forseti langar mig ekki bara að vera áhorfandi á hliðarlínunni að lífi þjóðarinnar heldur fullur þátttakandi í svona viðburðum.“

En mun fólk þá bera virðingu fyrir forsetaembættinu og þeirri upphafningu sem því óhjákvæmilega fylgir?

„Af hverju ætti það ekki að gera það? Ég sé enga ástæðu fyrir því að fólk ætti ekki að bera virðingu fyrir embættinu þótt forsetinn klæði sig í drag. Og mér finnst þetta vera kjarninn í íslenskri þjóðarsál. Að við erum einstakar og óvenjulegar manneskjur og erum óhrædd við að sýna það og það er ástæðan fyrir því að við vekjum sem fólk svo mikla aðdáun út um allan heim, því við erum svo einstakar manneskjur.“