[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við erum í miklum ólgusjó varðandi streymisveitur, minnkandi lestur og fleira, auk þess sem stór hluti íbúa landsins hefur ekki íslensku að móðurmáli.

Rithöfundasamband Íslands fagnar 50 ára afmæli í dag, sunnudaginn 12. maí. Sambandið var stofnað eftir að tvö félög rithöfunda, Rithöfundafélag Íslands og Félag íslenskra rithöfunda, voru lögð niður, en þau félög höfðu skipst eftir pólitískum átakalínum.

„Stóran hluta 20. aldarinnar vörðu rithöfundar og aðrir listamenn tíma sínum í að berjast innbyrðis um listastefnur og stjórnmál. Það var ekki fyrr en árið 1974 að ákveðið var að leggja niður þessi tvö félög rithöfunda og stofna nýtt félag,“ segir Margrét Tryggvadóttir formaður Rithöfundasambands Íslands. „Í samþykktum félagsins stóð að ekki ætti að deila um stjórnmál eða listastefnur. Það er enn í lögum félagsins og flestar stjórnir félagsins hafa haft þetta í heiðri.“

Spurð hvort ekki sé nokkuð snúið að viðhalda þessari reglu í veröld sem horfir upp á Úkraínustríð og blóðsúthellingar á Gasa segir Margrét að svo sé vissulega. „Það hefur verið þrýst á félagið að taka afstöðu í þessum málum, en stjórnin lítur svo á að hún hafi ekki umboð til að skipta sér af þjóðmálum almennt, öðrum en þeim sem lúta að tjáningarfrelsi og framgangi ritlistar og menningar.

Síðast þegar mikill þrýstingur var á að Rithöfundasambandið gæfi út stuðningsyfirlýsingu við Palestínu og flaggaði palestínska fánanum þá heyrðist mest opinberlega í þeim sem studdu slíkar aðgerðir en skrifstofunni bárust jafnmörg skilaboð þar sem var þakkað fyrir að Rithöfundasambandið tæki ekki pólitíska afstöðu. Sjálf tek ég skýra afstöðu í þessum málum en það geri ég sem einstaklingur í samfélagi en ekki formaður RSÍ. Mínar pólitísku skoðanir eiga ekki að stýra för þar nema þegar kemur að kjörum höfunda og menningarpólitík. Mér finnst sjálfsagt að það séu skiptar skoðanir um þessi mál og tek gagnrýni á þessu stefnu sambandsins því ekki inn á mig.“

Stærsta breytingin

Margrét segir gríðarlega margt hafa áunnist á þeirri hálfu öld sem félagið hefur starfað. „Á stofnárinu samdi Rithöfundasambandið við Ríkisútvarpið, en þar var bókmenntaefni gríðarlega mikilvægur og vinsæll hluti af dagskrárgerð, og hækkaði taxtana um 100 prósent á einu bretti. Í kjölfarið var samið við bókaútgefendur í fyrsta sinn árið 1975 og árið eftir við leikhúsin í Reykjavík um greiðslur fyrir flutning á íslenskum leikverkum og þannig mætti lengi telja. Það sýndi sig að með samstöðu var hægt að ná árangri.

Stærsta breytingin á þessum árum voru starfslaun listamanna sem voru frumforsenda þess að hér varð til nokkuð sæmilega stór stétt atvinnurithöfunda sem skrifa fyrir íslenska lesendur en bækur þeirra eru jafnframt útflutningsvara. Það er hins vegar galli að rithöfundar og aðrir listamenn vita ekki fyrr en í ársbyrjun hvort þeir eru á launum það árið og alltof fáir fá starfslaun og að sjálfsögðu þarf að sýna árangur af vinnunni. Sumt ráða höfundar svo ekki við, bók getur til dæmis verið seinkað um eitt ár af einhverjum ástæðum, sem þýðir að rithöfundurinn getur ekki sannað afköst sín og fær ekki áframhaldandi starfslaun.“

Dæmi eru um að virtir verðlaunarithöfundar hafi ekki fengið starfslaun vegna þess að einhver galli þótti vera á umsókninni. Margrét er spurð hvort reglurnar séu ekki óþarflega stífar.

„Í nýju frumvarpi er gert ráð fyrir tveimur nýjum sjóðum fyrir listamenn sem heita Vegsemd og Virðing, annars vegar ungliðasjóður og hins vegar sjóður fyrir þá sem eru að ljúka sinni starfsævi. Í þeim seinni á að vera meira svigrúm, ekki þarf að skila lokaskýrslu og ekki vera með stranga vinnuáætlun. Nú er að sjá hvort þetta frumvarp verður samþykkt,“ segir Margrét.

Verðum að borga meira

Um brýnustu baráttumál Rithöfundasambandsins segir hún: „Umhverfi höfunda er að breytast svo gríðarlega því þeir eru í mikilli samkeppni við ókeypis efni á netinu. Unglingar eru sagðir vera tvo til þrjá tíma á TikTok á dag og það er ljóst að þeir eru ekki að lesa bækur á íslensku á meðan.

Tungumálið skiptir þjóðina mestu máli, enginn bjargar því nema við sem notum það. Þar hljóta rithöfundarnir að gegna lykilhlutverki. En höfundar nú eru ekki bara að skrifa fyrir bókarformið. Þeir sinna til dæmis einnig handritaskrifum sem er flóknara umhverfi því fleiri koma að verkefninu og samningar geta verið í skötulíki. Það fer mikið púður hjá okkur í Rithöfundasambandinu í að vinna fyrir handritshöfunda, veita þeim lögfræðiaðstoð og ráðleggja þeim.

Streymisveitur og hljóðbækur eru komnar til sögunnar. Notkunin eykst og allir höfundar gleðjast yfir því að bækur þeirra fari víðar og rati til fleiri. Hins vegar er þetta viðskiptamódel sem er knúið áfram af sífelldum vexti eins og fyrirtæki hér á landi fyrir hrun – og við vitum hvernig það endaði. Við verðum að borga meira fyrir bækurnar sem við hlustum á. Það gengur ekki að bjóða allt á hlaðborði án þess að greiðslur taki tillit til notkunar hvers og eins. Höfundar fá margfalt minna fyrir streymið en fyrir selt eintak af bók og í mörgum tilvikum minna en fyrir hvert útlán á bókasafni.“

Krefjandi verkefni

Spurð hvort hún telji að hægt sé að breyta þessu segir hún: „Ég held að það sé leið til þess. Í tillögu að nýrri bókmenntastefnu er lagt til að skoða að koma á föstu bókaverði. Það myndi þýða að ekki mætti selja bók á afslætti fyrr en ári frá útgáfu og hún færi þá aldrei fyrr á streymisveitur. Núna fara margar bækur strax inn á streymisveitur og þá veltir maður fyrir sér af hverju í ósköpunum einhver ætti að fara út í búð og kaupa þær ef hann hefur aðgang að þeim í símanum.“

Margrét bætir við: „Hagsmunir ólíkra höfunda fara ekki alltaf saman og það flækir málin. Þeir hagsmunir sem ég er þarna að tala fyrir eru hagsmunir höfunda sem hafa komið sér á framfæri og skrifa vinsælar bækur. Helstu hagsmunir höfunda sem eru að reyna að koma sér á framfæri eru að fólk viti af þeim og bókum þeirra. Fyrir þá er streymisveita sem dælir út ódýru efni kannski gott tæki.

Þá höfum við töluverðar áhyggjur af gervigreind og notkun hennar hefur þegar haft mikil áhrif á þýðendur og myndhöfunda innan okkar vébanda.

Við erum í miklum ólgusjó varðandi streymisveitur, minnkandi lestur og fleira, auk þess sem stór hluti íbúa landsins hefur ekki íslensku að móðurmáli. Allt er þetta krefjandi en við eigum ekki að leggja árar í bát heldur bretta upp ermar og gera enn betur.“