[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Móðir mín hélt að mér bókum þegar ég var yngri og rétti að mér alls konar meistaraverk sem hún dró fram úr bókahillunum. Meistarinn og Margaríta, Veröld sem var, Ástin á tímum kólerunnar og Grónar götur Knuts Hamsuns sem stjúpafi minn þýddi opnuðu nýja heima

Móðir mín hélt að mér bókum þegar ég var yngri og rétti að mér alls konar meistaraverk sem hún dró fram úr bókahillunum. Meistarinn og Margaríta, Veröld sem var, Ástin á tímum kólerunnar og Grónar götur Knuts Hamsuns sem stjúpafi minn þýddi opnuðu nýja heima. Þegar ég var unglingur datt ég inn í tilveru Agöthu Christie og hafði gaman af. Íslensku glæpasagnahöfundarnir hafa líka oft haldið mér vakandi fram á nótt.

Ég hef lesið allt sem Steinunn Sigurðardóttir hefur skrifað, hún er orðasnillingur og er Hjartastaður einstök. Bækur Ólafs Jóhanns Ólafssonar, allt frá Níu lyklum til nýjustu bókar hans Snjór í paradís, hafa líka glatt mig. Ég hlakka mikið til að sjá Snertingu lifna við á hvíta tjaldinu. Sama með bækur Auðar Övu Ólafsdóttur, ég hef gleypt þær allar í mig. Jónas Ebeneser í Ör er minnisstæður. Saknaðarilmur og Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur eru magnaðar bækur og nú bíð ég eftir að komast í leikhúsið að sjá leikverkið.

Á tímabili sótti ég í kínverskar sögur og eru Jung Chang og Amy Tan í uppáhaldi. A Dream of Red Mansions, samin um miðja 18. öld, sýnir að flækjurnar í lífi fólks eru í grunninn þær sömu þótt árhundruð líði.

Nýjasta skáldsaga Þórdísar Helgadóttur, Armeló, er núna efst í bókabunkanum í lestrarhorninu mínu þar sem ég get horfið inn í töfraheim en litið öðru hvoru upp og séð Esjuna.

Ég nýti tímann í bílnum til að hlusta á bækur og var að ljúka við Ríki óttans eftir Hillary R. Clinton og Louise Penny en þær gefa mjög áhugaverða innsýn í það sem gæti gerst í alþjóðastjórnmálum og Hvíta húsinu.

Í gegnum tíðina hef ég dáðst að rithöfundum sem geta búið til heila veröld í huganum og komið lýsingu á blað fyrir aðra að njóta. Núna glími ég sjálf við að finna fræ og skrifa skáldaðan texta í ritlistarnámi hjá flinku Svikaskáldunum. Ég verð því að mæla með bók sem kemur út 16. maí og nefnist Afsakið þetta lítilræði (tímamótaverk) þar sem mín fyrsta örsaga ratar á prent.