Varnarmaður Bryndís Rut Haraldsdóttir er fyrirliði Tindastóls.
Varnarmaður Bryndís Rut Haraldsdóttir er fyrirliði Tindastóls.
Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði og varnarmaður Tindastóls, var besti leikmaðurinn í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Bryndís var í lykilhlutverki í liði Tindastóls þegar það vann góðan sigur á Fylki, 3:0, á…

Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði og varnarmaður Tindastóls, var besti leikmaðurinn í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Bryndís var í lykilhlutverki í liði Tindastóls þegar það vann góðan sigur á Fylki, 3:0, á Akureyri á fimmtudag en þangað þurfti að flytja leikinn vegna vallaraðstæðna á Sauðárkróki.

Hún fékk tvö M fyrir frammistöðu sína í einkunnagjöf Morgunblaðsins en með þessum sigri er Tindastóll kominn í sína bestu stöðu frá upphafi, í fjórða sæti Bestu deildarinnar.

Bryndís er 29 ára gömul og hefur leikið með Tindastóli allan sinn feril en hún spilaði fyrst sextán ára með meistaraflokki félagsins árið 2011 og þetta er því hennar fjórtánda ár með liðinu. Hún lék reyndar ekkert með því árið 2015.

Fyrirliði frá 2018

Hún hefur verið fyrirliði liðsins frá árinu 2018, þegar Tindastóll vann sig upp úr 2. deildinni. Frá þeim tíma hefur Tindastóll komið sér rækilega á kortið í íslenskum kvennafótbolta. Liðið lék í fyrsta sinn í efstu deild árið 2021, eftir sigur í 1. deildinni 2020, og var aftur komið í deildina árið 2023 þar sem það leikur nú í þriðja sinn.

Bryndís er önnur tveggja kvenna í liði Tindastóls sem hafa spilað alla 43 leiki félagsins í efstu deild en hin er Hugrún Pálsdóttir. Þá hefur Bryndís leikið 118 leiki í 1. og 2. deild og skorað í þeim 13 mörk. Hún lék á árunum 2013 og 2014 fimm leiki með U19 ára landsliði Íslands.

Tvær frá Keflavík

Tveir aðrir leikmenn fengu tvö M fyrir frammistöðu sína í fjórðu umferð deildarinnar en það voru Keflvíkingarnir Anita Lind Daníelsdóttir og Saorla Miller sem léku mjög vel í naumum ósigri gegn Val, 2:1.

Þær eru í úrvalsliði 4. umferðar sem sjá má hér fyrir ofan en Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, er í liðinu í þriðja sinn í fyrstu fjórum umferðunum og Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, í annað sinn.