— Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Egill var svolítill hani í gamla daga, og ég sjálfsagt líka. Svolítill sperringur. En það var allt farið og eftir stóð sálin og hreinleikinn. Það er það sem er svo fallegt og þess vegna sá ég Egil fyrir mér í hlutverkið.

Eftir að hafa barist í gegnum vorslydduna fann blaðamaður réttan inngang í RVK Studios í Gufunesi þar sem hans beið leikstjórinn Baltasar Kormákur. Tilefnið var að ræða um Snertingu, nýjustu kvikmynd Baltasars sem frumsýnd verður hér á landi 29. maí. Sagan er hugarfóstur Ólafs Jóhanns Ólafssonar en saman unnu þeir Baltasar að kvikmyndahandritinu eftir samnefndri bók. Aðalhlutverk eru meðal annars í höndum Egils Ólafssonar og Pálma Kormáks, sonar Baltasars, en Pálmi átti þar frumraun sína í leiklist. Baltasar getur ekki beðið eftir að sýna Snertingu sem hann segir dramatíska ástarsögu með dassi af húmor.

Ástin er sterkasta aflið

„Það er alltaf áskorun að gera kvikmynd og þessi mynd var óvenjuflókin en fyrir vikið var þetta óvenjuánægjulegt og gefandi ferðalag,“ segir Baltasar.

„Við fórum á milli heimsálfa og í myndinni eru töluð mörg tungumál. Við þurftum að huga að menningu annarra þjóða og til dæmis að skapa japanskan veitingastað í London árið 1969. Hvar finnur maður dótið í það?“ segir hann og brosir.

„Þetta var flækjustig sem ég hef aldrei áður kynnst,“ segir Baltasar og segir að þrátt fyrir að hafa gert stórmyndir á borð við Everest hafi þessi jafnvel verið sú flóknasta.

Upphafið að ævintýrinu má rekja til þess þegar Baltasar fékk Snertingu, bók Ólafs Jóhanns, í jólagjöf og sá strax fyrir sér kvikmynd.

„Ég las bókina og þegar ég sá hvert sagan var að fara fékk ég bara gæsahúð. Ég hafði samband við Ólaf daginn eftir. Hann tók vel í þetta og við ákváðum að skrifa handritið saman,“ segir Baltasar og er afar ánægður með samstarfið.

„Styrkleikar okkar nýttust mjög vel saman og myndin er trú bókinni,“ segir Baltasar.

„Það er mikil ást í myndinni og sársauki líka, en þetta er ekki vonleysisferð. Mér finnst svona sögur flottar. Ástin er sterkasta aflið í lífinu, við vitum það, og henni eru oft gerð léttvæg skil í sjónvarpi og bíómyndum. En svo eru til stórar sögur sem hafa ástina í forgrunni í sögunni en hafa svo miklu miklu meira, og það finnst mér svo vel fléttað hjá Ólafi.“

Þarna skildi ég karakterinn

Einn af fjórum aðalleikurum Snertingar er söngvarinn og leikarinn Egill Ólafsson, en hann glímir nú við sjúkdóminn parkinson. Aðspurður segir Baltasar hann ekki hafa verið með Egil í huga í upphafi.

„Aldrei kom nafn Egils upp. Hann lék hjá mér í Ófærð 3 og upp úr því vissi ég að hann væri að glíma við veikindi, þótt það hafi ekki verið opinbert þá,“ segir Baltasar.

„En mér fannst það ekki vera ástæða til að skoða hann ekki. Það er mér líka persónulegt, því pabbi minn er kominn með alzheimer og er illa farinn. Hann hefur verið að glíma við sjúkdóminn frá 2016 og árið 2020 fór þetta að verða alvarlegt. Það var eitthvað við Egil sem minnti mig á pabba. Þegar maður les bók setur maður í karakterana sína eigin reynslu. Ég sá pabba fyrir mér; hann er alltaf snyrtilegur og rómantískur og konum finnst hann sætur eldri karl,“ segir hann og brosir.

„Og þá kom Egill; þessi fallegi eldri maður, fágaður maður sem lætur ekki mikið fyrir sér fara. Þarna skildi ég karakterinn. Mig langaði að áhorfandinn myndi verða „skotinn“ í honum. Mér fannst svo mikilvægt að hann væri rómantískur og að áhorfandann myndi langa til að hann fengi að ljúka þessu máli sínu. Og þrátt fyrir að Egill sé kominn á efri ár, þá hefur hann þetta.“

Eftir stóð sálin og hreinleikinn

„Orkan hans hefur breyst svo mikið, sem gerist við veikindi. Ég man einmitt að eitt sinn fór ég í prufu með hitavellu og hef aldrei leikið betur, vegna þess að maður hefur ekki orku fyrir neitt annað en það sem akkúrat skiptir máli. Egill var svolítill hani í gamla daga, og ég sjálfsagt líka. Svolítill sperringur. En það var allt farið og eftir stóð sálin og hreinleikinn. Það er það sem er svo fallegt og þess vegna sá ég Egil fyrir mér í hlutverkið. Ég hefði aldrei séð gamla Egil fyrir mér. Það er eitthvað fallegt við það að geta jafnvel nýtt sér erfiðleika til að skapa listaverk. Listamenn eru hvort sem er alltaf að nýta sér sína reynslu, af veikindum eða öðru, í list sína og ég vissi að Egill myndi leggja þetta inn í myndina,“ segir Baltasar og nefnir að karakterinn sem Egill leikur, Kristófer, sé að glíma við alzheimer.

Baltasar segist hafa þurft að haga tökum eftir getu Egils, því ekki gæti hann látið mann með parkinson leika tólf tíma á dag.

„Hann var til í þetta en gerði mér strax grein fyrir sínum takmörkunum. Við fórum alveg að mörkunum, og hann spurði mig í gríni eitt sinn hvort ég ætlaði að drepa sig,“ segir hann og brosir.

Baltasar hrósar Agli í hástert fyrir leik sinn og hvað hann hafi staðið sig vel, þrátt fyrir sjúkdóminn sem hann segir að fylgi gjarnan minnistap. Ekki var að merkja á Agli að slíkt væri að hrjá hann í tökunum.

„Eitt sinn þegar við vorum í Japan þá lék hann senu á þremur tungumálum; íslensku, ensku og japönsku, sem Egill auðvitað kann ekki og þurfti að læra utanbókar. Ekki nóg með það, heldur þurfti hann að borða með prjónum á sama tíma. Og eins og þetta væri ekki nógu erfitt, þá þurfti hann að borða með vinstri hendi, því Pálmi Kormákur, sem leikur hann ungan, er örvhentur. Pálmi þarf svo mikið að skera mat í myndinni að við vorum ekki búin að sjá þetta fyrir. En þarna fer Egill létt með að tala á þremur tungumálum og borða með prjónum í vinstri hendi á sama tíma! Hvernig er hægt að gera leikara með parkinson þetta?“ segir Baltasar og hlær.

„Og aldrei kvartaði Egill!“

Eins og fiskur í vatni

Sonur Baltasars, Pálmi Kormákur, er í Snertingu með frumraun sína á sviði leiklistar.

„Pálmi hefur aðeins einu sinni leikið í mynd eftir mig, í Djúpinu þegar hann var tíu ára. Hann var í einu atriði þar sem hann opnar dyr,“ segir Baltasar en Pálmi stundar listnám í Amsterdam og hefur ekki haft áhuga á leiklist, ólíkt bræðrum sínum, Baltasar Breka og Stormi Jóni.

„Það var eiginlega Selma sem stakk upp á þessu,“ segir Baltasar og á við Selmu Björnsdóttur, sem vinnur gjarnan við að finna fólk í hlutverk.

„Hún stakk upp á að prófa Storm en ég vissi að hann passaði ekki í hlutverkið. Þá stakk hún upp á Pálma og mér fannst hann alveg passa í týpuna, en sagði henni að hann hefði aldrei sóst eftir að leika. Við fórum í gegnum marga mjög góða leikara en fundum ekki þann rétta. Ég sagði henni þá að heyra í strákunum og fá þá í prufu, sem hún gerði,“ segir Baltasar og bjóst við að Pálmi myndi strax afþakka.

„Svo bara hitti ég hann uppi á skrifstofu að bíða eftir að fara í prufu. Hann sagðist vilja fara út fyrir þægindarammann en hann væri ekki með neinar væntingar. En svo voru allir á einu máli um að hann væri réttur í hlutverkið, en ég sýndi mörgum prufuna sem vissu ekki að hann væri sonur minn,“ segir Baltasar.

„Ég hef oft leikstýrt Breka og Stormi, en ekki í svona viðamiklu hlutverki. Það er eitt sem ég vil ekki gera, og það er að setja barnið mitt í stöðu sem það ræður ekki við. Þess vegna var mér mikið í mun að vita hvort mín tilfinning væri rétt,“ segir hann og segir son sinn aðeins hafa þurft að hugsa sig um þegar honum var boðið hlutverkið. Pálmi sló til og Baltasar er afar sáttur við frammistöðu sonarins.

„Um leið og við byrjuðum að taka var hann algjörlega eins og fiskur í vatni og allir voru himinglaðir með hann. Þetta kom mér jafn mikið á óvart og öllum öðrum, en ég fór eftir mínu innsæi. Það var dásamleg reynsla að vinna með honum og við munum muna þetta út lífið.“

Ekkert lýðræði á setti

Fleiri úr fjölskyldu Baltasars komu að myndinni því kona hans, Sunneva Ása Weisshappel, sá um leikmyndina.

„Sunneva kemur úr leikhúsinu og hefur gert leikmyndir og búninga og er reyndur leikmyndahönnuður. Það er ótrúlega gaman að vinna náið með ástvinum sínum og við Sunneva höfum mjög líkan smekk. Það gekk ótrúlega vel að innrétta húsið okkar,“ segir hann og hlær.

Er leikstjórinn með puttana í öllu, líka leikmyndinni? „Já. Það er brandari í þessum bransa sem er þannig að ef leikstjóri fer á klósettið koma rauðir og bláir skór undir hurðina og hann spurður hvora eigi að velja. Allar ákvarðanir eru bornar undir leikstjóra að einhverju leyti. Fólk áttar sig oft ekki á þessu,“ segir Baltasar og segir þau Sunnevu aldrei hafa lent í ósætti á setti.

„Fólk verður að átta sig á því að leikstjórinn ræður og skiptir þá engu hvort hann er að vinna með konu sinni eða syni. Á endanum er bara einn skipstjóri í brúnni. Þegar ég kem svo heim, ræð ég engu,“ segir hann og hlær.

„Það er ekkert lýðræði á setti en auðvitað vel ég fólk sem ég vil fá að heyra skoðanir frá.“

Mútuðu japanskri mafíu

Baltasar segir tökur hafa gengið vel, en þær fóru fram í Japan, á Englandi og Íslandi.

Spurður hvort eitthvað hafi komið á óvart eða farið úrskeiðis byrjar Baltasar á að segja frá því hvað það hafi komið tökuliðinu á óvart að sjá viðbrögð Japana á Íslandi við Kōki, japönsku leikkonunni sem leikur eitt aðalhlutverkanna. Kōki, sem heitir fullu nafni Mitsuki Kimura, er stjarna í heimalandi sínu þar sem hún er ofurfyrirsæta, en hún er nú að hasla sér völl sem leikkona.

„Pabbi Kōki er Egill Ólafsson þeirra Japana og mamma hennar er líka fræg. Við vorum með alla Japana á landinu sem statista og þegar hún gekk inn á sett þá misstu þau sig. Hún er svo mikil stjarna í Japan. Við áttuðum okkur ekki á því hvað hún er mikið númer.“

Annað sem kom á óvart segir Baltasar hafa verið hversu erfitt var að taka upp í Tókýó. Hann segir þau hafa verið búin að skipuleggja fjölda tökustaða en þegar til kom gekk ekkert upp.

„Við þurftum að byrja alveg upp á nýtt. Þetta er ein erfiðasta borg sem ég hef skotið í. Það má hvergi setja þarna niður þrífót. Við vorum að taka upp í einhverju mafíósahverfi og þurftum að díla við mafíuna,“ segir hann og hlær.

Þurftuð þið að múta þeim?

„Já, já, þeir eiga þessi hverfi. Við þurftum að borga,“ segir hann kíminn.

„Svo voru þessi inniskóamál; maður þurfti nýja inniskó til að fara á klósett og aðra til að fara eitthvað annað. Inniskóareglurnar þeirra eru eitthvað það flóknasta sem ég hef lent í á ævinni,“ segir Baltasar.

„Það þýðir ekkert að brussast inn á parketið á Timberlandinu,“ segir hann og hlær.

Fleiri hindranir urðu á vegi Baltasars og tökuliðsins í Japan, en ein sena gerist um borð í hraðlest; svokallaðri Bullet train sem þeysist á milli Tókýó og Hírósíma á ofsahraða.

„Við þurftum að stelast til að taka upp í „Bullet train“ því það var vonlaust að fá leyfi. Við tókum upp í einum klefanum með verði sitt hvorum megin til að vakta. Svo var bara allt rifið upp úr töskum; vélar, batterí og ljós, og svo skotið. Þetta var eina leiðin,“ segir hann og segir þau hafa æft allt vel fyrir fram.

„Birtan er svo erfið í lestinni en þar eru halógenljós í loftinu. Við þurftum líka að hylja þau með svörtu teppi, fleiri metra langt,“ segir Baltasar og segir hafa verið mikinn hasar að ná þessu skoti.

Áttu von á lögsókn frá Japan?

„Nei, ég held ekki. Nema þeir lesi Moggann,“ segir hann og hlær.

Baltasar segir hafa verið frábært að vinna með Japönunum bæði erlendis og ekki síður á Íslandi.

„Ég vil þá sérstaklega nefna japanska sendiráðið á Íslandi sem var okkur innan handar og reyndist okkur ómetanlegt; þau lánuðu okkur meira að segja kokkinn sinn yfir tökutímabilið.“

Fæ handrit í bunkum

Ferill Baltasars er langur og farsæll og er hann í dag eftirsóttur leikstjóri og framleiðandi. Hann segist fá fleiri tilboð en hann hefur tíma til að sinna.

„Ég er með endalaust af verkefnum að utan og fæ handrit í bunkum. Ég kemst ekki yfir þetta allt,“ segir Baltasar en hann er um þessar myndir að framleiða seríu um orrustuna við Hastings.

„Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu erfitt það er að komast yfir Atlantshafið sem leikstjóri. Kannski er Snerting að fara á „stóra sviðið“ en henni verður dreift í Bandaríkjunum og stiklan hefur fengið feikilega mikla spilun. Kannski eru þessi mörk á milli landa að mást út; þessi kvikmyndalandamæri, því tungumál listarinnar er svo miklu stærra.“

Er Snerting þín besta mynd?

„Ég er mjög sáttur en aðrir verða að dæma um það.“

Ástríðuverk Baltasars

Milli jóla og nýárs árið 2020 hringdi Baltasar í Ólaf Jóhann og bar upp þá hugmynd að gera bíómynd úr skáldsögu hans Snertingu.

„Hann sagði að ég hefði haldið fyrir sér vöku alla nóttina því hann hefði byrjað á bókinni og ekki getað hætt,“ segir Ólafur og segir þá í kjölfarið hafa hist og ákveðið að skrifa saman handritið.

„Baltasar sagðist alltaf hafa viljað gera mynd um ástarsögu en ekki áður fundið efni sem heillaði hann. Hann fór yfir sína sýn og við tókumst í hendur þarna yfir kaffibollanum,“ segir Ólafur.

„Við hófum svo samstarf fljótlega á eftir sem gekk mjög vel. Handritið er þar sem þeir koma saman, höfundur bókarinar og leikstjórinn. Samstarfið gat ekki verið betra enda erum við Baltasar líkir að því leyti að við gerum ekki greinarmun á sunnudegi eða mánudegi, kvöldi eða morgni; það er bara unnið. Hann er ástríðufullur og mjög klár,“ segir Ólafur.

„Ég heimsótti þau í tökur í Englandi, í Japan og í stúdíóið hér í Reykjavík. Ég var ekkert að skipta mér af og var bara túristi, enda öll vinnan á hans herðum og samstarfsfólks hans,“ segir Ólafur.

„Ég er búinn að sjá myndina og finnst hún frábær og ég vona að hún fái þær viðtökur sem hún á skilið. Myndin er mikið ástríðuverk hjá honum og hann lagði sig allan í þetta, og það sést.“

Ævintýri líkast í Japan

Egill Ólafsson segist í byrjun ekki hafa verið viss um hvort hann treysti sér í að taka að sér hlutverkið.

„Baltasar sannfærði mig um að þetta myndi takast. Undir niðri blunduðu samt sem áður efasemdir allan tíman. Ég fann til ábyrgðar, en þegar upp er staðið gengur þetta bara út á það að gera sitt besta, meira er ekki hægt að bjóða upp á. Ég verð þó að viðurkenna að það fylgdi því ákveðinn feginleiki þegar tökutímabilinu lauk og minn þáttur var kominn á ræmur. Auðvitað voru þetta oft langir tökudagar sem tóku á, en ég held að við Balti eigum það sammerkt að vilja gera betur en vel og vorum því áfram um að hætta ekki fyrr en allir voru sáttir. Nú er ég bara spenntur að sjá afraksturinn,“ segir Egill og segist í raun ekki hafa með neinum hætti notfært sér veikindi sín.

„En auðvitað höfðu þau áhrif á leik minn, og voru því með einhverjum hætti þáttur í túlkun minn,“ segir Egill.

„Balti er fyrirtaks leikstjóri, hann kann þetta og skynjar og skilur út á hvað þessi miðill gengur. Að auki er hann með sterka listræna sýn og áræði til að fylgja þeirri sýn eftir. Ég er honum ákaflega þakklátur fyrir að hafa treyst mér fyrir þessu hlutverki og vona að ég hafi staðið undir væntingum,“ segir hann.

„Það var gaman að koma til Japans og fá að vinna örlítið með japönsku kvikmyndagerðarfólki og þá ekki síst japönsku mótleikonu minni, Yoko Narahashi. Það voru líka allir svo elskulegir og kurteisir og tilbúnir að aðstoða með allt og ekkert. Það kom skemmtilega á óvart þegar japanska deildin, sem taldi held ég hátt í sextíu manns, efndi til stórveislu í tilefni af sjötugsafmæli mínu, mér algerlega að óvörum. Það var gaman og ég er ekki frá því að Íslandsdeildin hafi líka átt þar stóran hlut að máli. Auðvitað var líka áhugavert að koma á staði eins og Hiroshima, fyrir utan auðvitað höfuðborgina Tókýó. Það var á stundum ævintýri líkast að vera þarna.“