Meyvant Þórólfsson
Meyvant Þórólfsson
Undirritaður tekur undir áhyggjur Arnars Þórs Jónssonar … Ögurstund er runnin upp.

Meyvant Þórólfsson

Vindhaninn á kirkjuturni Bessastaða heldur áfram að snúast eftir vindum en ekkert bólar á krossinum sem þar var.

Naprir vindar, sem næða um samfélagið, eiga sér þó fleiri rætur en guðsafneitun og fagurgala siðmenntar. Í raun er ögurstund runnin upp í lýðveldissögu Íslands, eins og Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi hefur bent á. Áskoranir og álitamál dynja linnulaust á þjóðinni; hriplek landamæri, umdeildur samgöngusáttmáli, verðbólga, hvalveiðar, sjókvíaeldi og þannig mætti lengi telja.

Alvarlegri mál, er geta haft skelfilegri afleiðingar en margan grunar, eru annars vegar glórulaus ákvörðun íslenskra stjórnvalda að taka beinan þátt í stríðsrekstri stórvelda, uppátæki sem minnir svolítið á sögu þeirra félaga Don Kíkóta og Sansjó Pansa. Og hins vegar átökin um orku og aðrar auðlindir landsins. Þjóðin þarf því sannarlega á þeim öryggisventli að halda, sem sjöundi forseti lýðveldisins verður.

Áhugaverðar kappræður

Kappræðufundur forsetaframbjóðenda föstudagskvöldið 3. maí sl. var um margt áhugaverður, þökk sé stjórnendum RÚV. Þau náðu þó ekki sama slagkrafti og Stefán Einar Stefánsson við að kreista fram mikilvæg svör og „sannindi“, er annars hefðu grasserað fram að kosningum í maðkaholum samfélagsmiðlanna. Kjaftasögur og alls kyns óþverri hafa jú gjarnan verið fylgifiskur endaspretts forsetakosninga, eins og Sigmundur Ernir orðaði það í viðtali á Sprengisandi nýverið. Það er því heppilegast fyrir alla, sér í lagi frambjóðendur sjálfa, að fá opin og krefjandi viðtöl strax frekar en síðar. Enn standa þó eftir stórar og mikilvægar spurningar eins og meint tengsl tiltekinna frambjóðenda við auðhringasamtökin World Economic Forum og hina miklu Endurstillingu (Great Reset).

Spurningar og svör viðmælenda á þessum fyrsta kappræðufundi voru um margt grípandi og fyndin eins og um ísbjörninn og kyntáknið, að ógleymdri handauppréttingarspurningu Viktors Traustasonar. Forsetinn á að vera hlýr og góður stemningsmaður, sem berst gegn leiðindum, lyftir upp því góða og upphefur gildin góðu frá þjóðfundinum árið 2009, eins og heiðarleika, jafnrétti, réttlæti og ábyrgð. Á erlendri grundu gegnir forsetinn mikilvægu hlutverki við að kynna land og þjóð, fræða umheiminn um auðlindir landsins, menningu og skapandi listir, ásamt því að markaðssetja landið og fá erlenda aðila til að búa hér til tækifæri.

Við fyrstu skoðun fólu kappræðurnar sem sagt í sér björt fyrirheit, þótt vissulega mætti staldra við ýmislegt sem sagt var, t.d. hvað það þýði að hlutverk forseta eigi að fela í sér „kynningu landsins erlendis“, „markaðssetningu þess“ og „búa hér til tækifæri fyrir erlenda aðila“.

Ögurstund er runnin upp

Svör Arnars Þórs Jónssonar í kappræðunum voru verð allrar athygli og ígrundunar. Að hans mati eru válegir tímar og ýmislegt sem stendur upp á forsetann að standa vörð um, meðal annars vegna þess að fulltrúalýðræðið reynist ekki standa traustum fótum gagnvart þeirri vá sem vofir yfir landi og þjóð.

Frumskylda forsetans snýr þar af leiðandi inn á við frekar en út á við, eins og Arnar komst að orði. Erlend áhrif væru áhyggjuefni, Evrópusambandið seildist til áhrifa hér með kröfu um forgang ESB/EES-reglna umfram íslenskan rétt, alþjóðlegar stofnanir gerðu sig líklegar til áhrifa hér og erlend stórfyrirtæki sæktust eftir afnotum af íslenskum þjóðarauðlindum, auk þess sem erlendir auðmenn ættu þegar orðið tugi bújarða hér og aðrar eignir.

Ögurstund er runnin upp. Undirritaður tekur undir áhyggjur Arnars Þórs og vill benda á eftirfarandi því til áréttingar:

1. Vatn er ein verðmætasta auðlind jarðar, en ferskvatn er einungis um 3% alls vatns á jörðinni. Stór hluti þess er bundinn í jöklum eða jarðlögum auk þess sem sífellt erfiðara er að finna drykkjarhæft vatn vegna mengunar af mannavöldum, m.a. vegna framleiðslu kóbalts og liþíums fyrir rafhlöður rafmagnsbíla. Neysluvatn telst því varla endurnýjanleg auðlind í þess orðs merkingu.

2. Vatnið á flöskum Icelandic Glacial kemur frá vatnsverksmiðju í Ölfusi og er dreift um víða veröld. Erlendur drykkjarvörurisi keypti verksmiðjuna og fjárfesti þar með í landi og auðlindum hér, en erfitt hefur reynst að fá nánari svör um þessi kaup.

3. Stjórn orkumála hér er komin í ógöngur. Eftirspurn eftir raforku og varmaorku er mun meiri en spár höfðu gert ráð fyrir. Engin lagaákvæði er að finna, sem tryggja heimilum orku umfram aðra notendur, ef til skömmtunar eða skorts kemur.

4. Evrópusambandið hefur þróað safn af reglum, svokallaða „pakka“, tengda umsýslan orku innan ESB og EES. Þriðji pakkinn olli áhyggjum sérfræðinga hér af því að við misstum forræði yfir orkuauðlindum okkar, yrði hann samþykktur á Alþingi. Allir ættu að kynna sér skýrsluna Orkan okkar um það mál. Fjórði pakkinn er að líta dagsins ljós, ætlað að tryggja enn betur markaðsvæðingu orkunnar og ýmis undur honum samhliða.

5. Er fótur fyrir orðrómi um sölu á hlut ríkisins í Landsvirkjun og Landsneti? Hvaða öfl stjórna þeirri þróun?

Eftir sem áður heldur vindhaninn á kirkjuturni Bessastaða áfram að snúast eftir vindum.

Höfundur er háskólakennari á eftirlaunum.