Friðlýsing Guðlaugur Þór undirritaði friðlýsinguna og vottar voru Magnús Guðmundsson (f.v.) og dr. Rúnar Leifsson forstöðumaður Minjastofnunar.
Friðlýsing Guðlaugur Þór undirritaði friðlýsinguna og vottar voru Magnús Guðmundsson (f.v.) og dr. Rúnar Leifsson forstöðumaður Minjastofnunar. — Morgunblaðið/Theodór Kr. Þórðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er akkúrat svona sem kirkjan á að vera, hlátur og skvaldur í þeim sem hafa ekki sést um skeið,“ sagði séra Heiðrún Helga Bjarnadóttir sóknarprestur hressilega er hún ávarpaði fólk og bauð gesti hjartanlega velkomna til hátíðar í…

Theodór Kr. Þórðarson

Borgarnesi

„Það er akkúrat svona sem kirkjan á að vera, hlátur og skvaldur í þeim sem hafa ekki sést um skeið,“ sagði séra Heiðrún Helga Bjarnadóttir sóknarprestur hressilega er hún ávarpaði fólk og bauð gesti hjartanlega velkomna til hátíðar í Borgarneskirkju á uppstigningardegi þegar kirkjan var friðlýst með formlegum hætti.

„Það er heiður að fá að vera hérna í dag og þetta er stór stund því þetta er fyrsta byggingin í Borgarnesi sem verður friðlýst með þessum hætti.“ Hún sagði kirkjuna í Borgarnesi vera stolt allra og það væri ekki bara fyrir hvað hún væri mikið kennileiti, heldur héldi hún svo vel utan um fólk, jafnt í gleði og sorg, og hefði gert kynslóðum saman.

„Fallegasta kirkjan á landinu“

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flutti ávarp og sagði það ánægju og heiður að fá að vera við þessa friðlýsingu.

„Ég var alinn upp við það að Borgarneskirkja væri sú fallegasta á landinu,“ sagði hann og rakti í nokkrum orðum hvað fór fram er kirkjan var vígð árið 1959. „Bygging Borgarneskirkju var samfélagsverkefni í sinni tærustu mynd sem langflestir bæjarbúar komu að á einn eða annan hátt á sínum tíma.“

Ákvörðunin um að byggja kirkju hefði verið tekin áratugum áður en hún var svo endanlega byggð. Safnað hefði verið peningum í sjóð, konur hefðu staðið að fjáröflun og haldið m.a. ítrekað basar í þeim tilgangi. En mikið hefði munað um það er Halldór H. Jónsson arkitekt gaf söfnuðinum hönnun og teikningar að kirkjunni sem hefði verið höfðinglegt af honum gagnvart sínum gamla heimabæ.

Kirkjubyggingin mikið afrek

„Það var mikið afrek að koma upp þessari kirkju,“ sagði séra Þorbjörn Hlynur Árnason fv. sóknarprestur er hann rifjaði upp sögu kirkjunnar. „Það tók líka langan tíma. Sex ár frá fyrstu skóflustungu. Mörg voru dagsverkin sem sóknarmenn lögðu til kirkju sinnar. Endalausar kirkjutombólur til að afla fjár. Það er magnað að sjá og handleika listana sem fóru um plássið og fólk skráði loforð um dagsverk, sem voru þá unnin á kvöldin og um helgar. Það var erfiðisfólk sem vann langan vinnudag og vildi leggja kirkjubyggingu lið sitt. Kynslóðir unnu saman. Erfitt en gaman. Verkefni sem styrkir samfélag. Það má segja að ungir sem eldri hafi sameinast í miklum hug og dugnaði að reisa þennan helgidóm. Þetta er kirkja byggð á bjargi, hús, helgidómur sem setur sterkan svip á Borgarnes og mörgum þykir líkt og tákn staðarins,“ sagði Þorbjörn Hlynur en kirkjan var vígð á uppstigningardegi þann 8. maí 1959.

Litla systir Háteigskirkju

Kirkjan í Borgarnesi hefur stundum verið kölluð „litla systir Háteigskirkju“ enda kirkjurnar sviðaðar á margan hátt og teiknaðar af sama arkitektinum, Halldóri H. Jónssyni. Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri Minjastofnunar, flutti erindi um Halldór og hans höfundarverk og sagði m.a.: „Arkitektinn Halldór H. Jónsson er í senn kunnur sem höfundur þjóðþekktra bygginga og var mikils metinn áhrifamaður í íslensku athafnalífi á 20. öld. Hann var fyrsti arkitektinn sem hóf störf hér á landi eftir að hafa lokið prófi í byggingarlist frá sænskum tækniháskóla árið 1938. Á fyrstu starfsárunum teiknaði Halldór íbúðarhús í Reykjavík og víðar sem vöktu og vekja enn athygli fyrir fágun og virðuleik.“

Stjórnarformaður Íslands.

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og annar höfunda bókar um Halldór H. Jónsson, sagði að án efa hefði Halldór verið einn valdamesti maður í íslensku viðskiptalífi á níunda áratug síðustu aldar. Hann hefði um árabil verið stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands, ÍSAL og Sameinaðra verktaka, auk fjölda annarra félaga og því stundum nefndur „stjórnarformaður Íslands“.

Björn sagði Halldór Borgfirðing í báðar ættir, fæddur í Borgarnesi 3. október 1912. Ólst Halldór þar upp hjá foreldrum sínum, Jóni Björnssyni kaupmanni og konu hans, Helgu Maríu Björnsdóttur. Jón var fæddur í Bæ í Bæjarsveit 11. júní 1878, „kominn í beinan karllegg af séra Snorra á Húsafelli“, sagði Björn.

„Meðal þeirra þátta sem gerðu Halldór eftirsóttan til forystustarfa í atvinnulífinu var að hann hélt sig við stóru línurnar og lagði traust sitt á stjórnendur fyrirtækjanna. Í krafti góðrar menntunar og óvenju margbrotinnar reynslu gat hann auðveldlega glöggvað sig á aðalatriðum máls og fundið hyggilegar lausnir á þeim viðfangsefnum sem uppi voru hverju sinni, hér skipti sköpum sú margháttaða reynsla sem hann öðlaðist á æskuárum í hinu sívaxandi kauptúni,“ sagði Björn Jón.

Ljósmyndir í Safnahúsinu

Að athöfn í kirkjunni lokinni var gengið í sal Safnahússins við Bjarnarbraut þar sem gestir þáðu léttar veitingar og Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri flutti ávarp. Í safnahúsinu var varpað upp ljósmyndum frá byggingu Borgarneskirkju á ýmsum stigum, ásamt myndum frá ýmsum athöfnum í kirkjunni.

Höf.: Theodór Kr. Þórðarson