Rebekka og Örn Hermann framan við gamla spítalann. Húsið skartar nú nýrri tvöfaldri og hárauðri hurð sem er mikil prýði á húsinu.
Rebekka og Örn Hermann framan við gamla spítalann. Húsið skartar nú nýrri tvöfaldri og hárauðri hurð sem er mikil prýði á húsinu. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við höfum stundum gert grín að því að við þurftum að fara alla leið til Reykjavíkur til þess að hittast því samgöngurnar hérna á milli eru svo lélegar.

Það er stafalogn á Patreksfirðinum þegar blaðamenn Morgunblaðsins koma niður í Botn, beint af Kleifaheiðinni. Stefnan er tekin á þorpið og raunar miðju þess. Á Geirseyrinni stendur reisulegt timburhús á steyptum grunni. Það er Aðalstræti 69 og hefur lengi tengst sögu staðarins. Það var reist 1901 sem sjúkrahús og því var ekki síst ætlað að þjónusta þá fjölmörgu frönsku skútusjómenn sem sóttu á Íslandsmið á öndverðri 19. öld og í byrjun þeirrar 20.

Það var útgerðarfélag sem lagðist í þessa miklu framkvæmd, eftir talsvert japl, jaml og fuður. Og er það því í raun minnisvarði um einkaframkvæmd í heilbrigðisþjónustu.

En þarna er ekki sjúkrahús í dag og hefur raunar ekki verið síðan á fimmta áratug síðustu aldar.

Á móti okkur taka húsráðendur, þau Rebekka og Örn Hermann. Við gefum henni orðið en lengri útgáfu þessa viðtals má finna á mbl.is og Spotify (Hringferðin).

Sveitarstjóri í fjögur ár

„Ég var sveitarstjóri hérna 2018 til 2022. Gegndi því mjög svo skemmtilega starfi og flutti hingað til baka í rauninni í tilefni af því að ég tók við þessu starfi.“

Hvernig kom það til?

„Ég sótti bara um. Hugur minn hafði leitað svolítið heim aftur þannig að ég prófaði bara að sækja um og fékk það og gegndi því í eitt kjörtímabil.“

Þú ert ættuð úr Kollsvík?

„Já. Ég er fædd og uppalin við utanverðan Patreksfjörð í Kollsvík og bjó þar þar til ég þurfti að sækja mér framhaldsskólamenntun í Reykjavík. Og svo kom ég hingað til baka 2018.“

Og með eiginmanninn í eftirdragi?

„Já, hann er fæddur og uppalinn á norðurfjörðunum, í Hnífsdal, og við höfum stundum gert grín að því að við þurftum að fara alla leið til Reykjavíkur til þess að hittast því samgöngurnar hérna á milli eru svo lélegar.“

En er ekki dálítð heilbrigður rígur á milli svæðanna?

„Jú það hefur verið það, í árhundruð líklega,“ svarar Rebekka.

Hvað dregur þig þá hingað á suðurfirðina?

„Ég var nú bara dreginn í sveitina til Rebekku. Og þegar fór að vora þá ákvað hún að taka mig með og einhvern tíma kom ég hingað og ég var í fríi frá vinnu í Kanada og hún plataði mig til þess að koma og skoða þetta hús. Og það endaði með því að við keyptum það,“ svarar Örn.

Í Kanada starfaði hann sem smiður og hann hefur aflað sér haldgóðrar reynslu af uppgerð gamalla húsa. Það var því ekki sérlega langsótt að leggjast í þetta mikla verkefni árið 2015 þótt húsið hafi sannarlega mátt muna fífil sinn fegurri þegar þau komu að málum. Kannski var það einmitt það sem freistaði.

Verkefni sem óx og óx

En hversu mjög sem þau hefðu getað miklað verkefnið fyrir sér, þá er ljóst að það hefur vaxið svo að umfangi að þau segjast óviss með að því ljúki nokkurn tíma. Blaðamenn skilja þá fullyrðingu betur þegar þeir fá leiðsögn um húsið, ekki síst kjallarann. Þar eru ummerki um það mikla verk sem nú þegar er að baki. Bendir húsbóndinn m.a. á að hæðarmunur á gólfi fyrstu hæðarinnar hafi verið um sjö sentímetrar og nauðsynlegt hafi verið að rétta húsið af.

Og þau vilja nýta það sem nýtilegt er í húsinu. Að hluta til er upprunalegt bárujárn á því, þ.e. ríflega 120 ára. Það er til marks um gæði að efni þetta hafi staðið af sér allt það veður og alla þá vinda sem geisað hafa í firðinum í á aðra öld.

Þau færðu einnig gluggasetningu hússins til upprunalegs horfs, þ.e. í franskan stíl en húsið hafði verið „augnstungið“ fyrir áratugum. Skal það fullyrt að gluggarnir nýju eru listasmíð þar sem ekkert var til sparað.

En það er ekki aðeins húsið sem hlotið hefur yfirhalningu. Búið er að grafa meira og minna upp allan garðinn í kringum það, steypa veggi og tröppur og í sumar verður farið í frágang í þeim efnum. Í austurhluta garðsins er svo búið að reisa forláta skúr sem geymir búnaðinn sem hýsir varmadæluna fyrir húsið. Með þeirri mögnuðu tækni hafa þau Rebekka og Örn lækkað húshitunarkostnað sinn um hundruð þúsunda á ársgrundvelli.

Hægt er að fylgjast með framkvæmdagleðinni í Aðalstræti 69 á facebook (Gamli Spítalinn) og blaðamenn eru fullvissaðir um að það verði handagangur í öskjunni á komandi sumri. Eitt er víst að það er alltaf tilhlökkun að koma til Patreksfjarðar, ekki síst til að fylgjast með framgangi þessa uppbyggingarverkefnis þeirra hjóna. Það er til varðveislu, en einnig prýði.