Einar Jónsson fæddist 11. maí 1874 á Galtafelli í Hrunamannahreppi, Árnessýslu og ólst þar upp. Foreldrar hans voru hjónin Jón Bjarnason, f. 1836, d. 1908, og Gróa Einarsdóttir, f. 1837, d. 1921. Einar hélt til Kaupmannahafnar 1893 að læra höggmyndalist

Einar Jónsson fæddist 11. maí 1874 á Galtafelli í Hrunamannahreppi, Árnessýslu og ólst þar upp. Foreldrar hans voru hjónin Jón Bjarnason, f. 1836, d. 1908, og Gróa Einarsdóttir, f. 1837, d. 1921.

Einar hélt til Kaupmannahafnar 1893 að læra höggmyndalist. Í fyrstu lærði hann útskurð hjá tréskurðarmeistara, en hóf síðar nám í höggmyndalist hjá norska myndhöggvaranum Stephan Sinding sem hann var hjá næstu þrjú ár og síðan í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn og lauk þar námi 1899.

Eitt frægasta verk Einars, Útlaginn, var sýnt á vorsýningu í Charlottenburg 1901. Markaði það upphaf listferils hans og þar með íslenskrar höggmyndalistar. Einar varð síðan fyrir áhrifum frá symbólisma sem var andsvar við raunsæisstefnunni og má nefna verk eins og Deigluna og Dögun af þeim toga.

Íslenska ríkið lét byggja á Skólavörðuhæð safn helgað verkum Einars. Hnitbjörg heitir það og er fyrsta listasafnsbyggingin sem reist var hér á landi.

Einar gaf út sjálfsævisögu sína Minningar – skoðanir árið 1944.

Kona Einars var Anna María Mathilde Jónsson, fædd Jörgensen og var frá Danmörku, f. 14.4. 1885, d. 2.10. 1975.

Einar lést 18. október 1954.