Reyndar held ég að Sigrún í safninu sé bók sem sé ekkert síður fyrir fullorðna.
Reyndar held ég að Sigrún í safninu sé bók sem sé ekkert síður fyrir fullorðna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er alls ekki nein ævisaga heldur freka endurminningar og myndbrot úr æsku minni.

Sigrún Eldjárn hefur skrifað nýja bók sem heitir Sigrún í safninu og fjallar um æskuár hennar í Þjóðminjasafninu. Þar bjó hún ásamt foreldrum og systkinum fyrstu 14 ár ævinnar. Í bókinni er texti og teikningar eftir Sigrúnu og ljósmyndir úr fjölskyldualbúminu.

Spurð hvort hún hafi lengi gengið með hugmyndina að bókinni segir Sigrún: „Vinkona mín stakk þessari hugmynd að mér fyrir þó nokkuð löngu og benti á að það væri fremur óvenjulegt að alast upp á safni. Mér fannst þetta ekkert góð hugmynd, fannst af og frá að vera að skrifa um sjálfa mig. En einhvern veginn festist hugmyndin í kollinum á mér og hefur kraumað þar í allmörg ár. Ég fór að nótera hitt og þetta hjá mér og svo endaði þetta á að vera þó nokkur nostalgíubók. Þetta er alls ekki nein ævisaga heldur frekar endurminningar og myndbrot úr æsku minni.

Þetta er persónulegasta bókin mín til þessa og ég veit að ég mun ekki skrifa neina aðra bók um sjálfa mig. Alla vega er það alls ekki planið. Mér hefur alltaf þótt skemmtilegast að búa til ævintýralegar fígúrur og skrifa um þær og ekki fundist nein ástæða til að skrifa um mig.

Minn raunveruleiki

Þegar þú lítur til baka, hvernig sérðu þennan heim í Þjóðminjasafninu þar sem þú bjóst?

„Þegar ég bjó þarna, sem voru fyrstu 14 ár ævi minnar, þá fannst mér þetta ekkert skrýtið. Þetta var bara minn raunveruleiki, ég þekkti ekkert annað. En eftir á sé ég að þetta var svona heldur óvenjulegt. Við fjölskyldan vorum með íbúð á jarðhæðinni í húsinu og safnsalirnir voru bæði á sömu hæð og hæðunum fyrir ofan. Þetta var reyndar ekki bara fornminjasafn heldur var þar líka sjóminjasafn og Listasafn Íslands var á efstu hæðinni ásamt Vaxmyndasafninu.“

Hvað fannst þér skemmtilegast við safnið?

„Skemmtilegast fannst mér nú eiginlega að heilsa upp á gæslukonurnar sem sátu þarna ábúðarmiklar og gættu þess að enginn snerti safngripina. Mér fannst þær allar vera mjög aldraðar en sennilega voru þær ekkert svo gamlar. Líklega þó nokkuð yngri en ég er núna. Margar þeirra klæddust peysufötum og sátu þarna ein í hverjum sal og prjónuðu og hekluðu villt og galið. Þær vinsælustu voru með brjóstsykur í veskjum sínum.

Mér þótti líka mjög gaman að skoða forngripi af ýmsu tagi en hélt alveg sérstaklega mikið upp á beinagrindina. Þetta var beinagrind af konu sem fannst í kumli á Hafurbjarnarstöðum. Hún varð snemma vinkona mín og hefur verið það alla tíð síðan.“

Heldurðu að það hafi á einhvern hátt mótað þig sem rithöfund að hafa alist upp í nánu sambandi við safn?

„Tja, það er ekki gott að segja hvað mótar mann mest. Það eru auðvitað alls konar þættir. En það má segja að það sé stundum viss forneskja í sögum mínum en hún er algjörlega í bland við nýjustu tækni og vísindi. Þar koma til dæmis alloft fyrir beinagrindur og líka gamlar kerlingar með skotthúfur en þær eru yfirleitt ungar í anda. Svo hef ég skrifað trílógíu um dreng sem flytur með pabba sínum í stórt hús úti á landi þar sem eru þrjú söfn, eitt á hverri hæð. Það er sennilega innblásið af minni eigin æsku.“

Pabbi þinn var fornleifafræðingur og þjóðminjavörður. Erfðir þú þann áhuga?

„Ég hef alveg áhuga á fornminjum en það hvarflaði aldrei að mér að læra neitt í þeim dúr, kannski vegna þess að ég varð svo snemma ákveðin í að verða myndlistarmaður. Ég rápaði heilmikið um listasafnið og skoðaði verkin vel og vandlega. Á unglingsárunum var ég strax orðin viss um að ég myndi á einhvern hátt leggja fyrir mig myndlist. Það lá einhvern veginn fyrir. En þetta, að skrifa sögur fyrir börn, kom sem aukaafurð. Ég byrjaði á að gera myndir í bækur annarra höfunda en datt svo í hug að prófa að gera sögu ég sjálf. Það var árið 1980 og ég hef enn ekki hætt.“

Saknaði safnsins

Faðir Sigrúnar, Kristján Eldjárn, varð forseti Íslands árið 1968. Spurð hvernig tilfinning það hafi verið að kveðja Þjóðminjasafnið 14 ára og flytja á Bessastaði segir Sigrún: „Það var dálítið skrýtið og ég saknaði safnsins. Umhverfið á Bessastöðum er auðvitað mjög fallegt og skemmtilegt en ég var unglingur og mig langaði ekkert sérstaklega til að flytja langt upp í sveit, eins og mér fannst þetta vera. Ég skipti ekki heldur um skóla en hélt áfram að vera í Hagaskólanum. Auðvitað var það sérstakt að vera allt í einu orðin forsetadóttir en pabbi var bara pabbi og mamma var mamma og þau breyttust ekkert gagnvart okkur. Ég bjó þarna í fimm ár, var 19 ára þegar ég flutti í bæinn. Eftir það kom ég auðvitað í heimsókn oft í viku.“

Hún segir að ekki standi til að skrifa bók um árin á Bessastöðum. „Það væri frekar að Ingólfur, yngri bróðir minn, gerði það því hann var ekki nema átta ára þegar við fluttum þangað, fór í skóla á Álftanesinu og bjó þar allan tímann með foreldrum okkar.“

Sigrún fagnaði nýlega sjötugsafmæli sínu. Hún er afkastamikill rithöfundur og hefur skrifað og teiknað marga tugi bóka. „Það er alltaf eitthvað á leiðinni. Nú er ég að gera þriðju bók í seríu. Fyrst kom Ófreskjan í mýrinni, svo Fjaðrafok í mýrinni og ég hef nýlokið við Fjársjóð í mýrinni sem kemur út í haust. Eftir það byrja ég vonandi á einhverju nýju og fersku.“

Hún hefur aldrei skrifað fullorðinsbók en er stundum spurð hvort hún ætli sér að skrifa alvörubækur. „Það hef ég alltaf gert því mér finnst barnabækur vera miklar alvörubækur og það skiptir verulegu máli að krakkar hafi nóg af góðum bókum til að lesa. Það er sem betur fer fullt af fínum rithöfundum hér á landi sem skrifa fyrir börn, sem er frábært. Við erum öll í sama liðinu! Reyndar held ég að Sigrún í safninu sé bók sem sé ekkert síður fyrir fullorðna sem vilja rifja upp hvernig var að fara í Þjóðminjasafnið í gamla daga því það eru mjög margir sem muna eftir því.“

Sigrún gerir myndir í allar sínar bækur en heldur sjaldnar myndlistarsýningar en hún gerði áður fyrr. „Það hefur dregið úr því en ég er þó alltaf af og til með litlar sýningar hér og þar. Bækurnar hafa smám saman tekið yfir en ég er alls ekki hætt að mála og teikna fyrir sýningar. Ég er sko ekki hætt neinu!“