[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er besta staðsetning á Íslandi. Hérna geturðu gist í 5-6 nætur og gert eitthvað nýtt og spennandi á hverjum degi. Við sjáum gífurleg vaxtartækifæri hér,“ segir Sigurður Sindri Magnússon, forstjóri og eigandi ferðaþjónustunnar Deluxe Iceland. Fyrirtækið rekur hótelið Tindasel Lodge á Rangárvöllum. Þar eru nú átta herbergi sem rúma allt að sextán gesti. Hótelið er í uppgerðu fjósi sem áður tilheyrði jörðinni Stokkalæk. Stór áform eru á teikniborðinu um stækkun hótelsins á næstu árum. Ef þau ganga öll eftir verður hægt að taka á móti allt að 200 gestum þar hverju sinni. Markhópurinn er einkum vel stæðir Bandaríkjamenn.

Fyrsta hluta verkefnisins er nú lokið en það fól í sér kaup á landinu, að koma rekstri átta herbergja hótels í gang og sækja um leyfi fyrir byggingar sem geta rúmað allt að 200 gesti. Annar hluti stendur nú yfir en hann felur í sér að leita fjármögnunar, byggja 10-15 smáhýsi sem eru að hluta til úr gleri auk frekari undirbúnings fyrir þriðja hluta sem á að fara í gang árið 2026.

Þá er stefnt að byggingu 40 herbergja hótels með spa-aðstöðu, líkamsrækt og veitingastað. Þar verði 10 hefðbundin herbergi, 10 stærri herbergi, 16 deluxe-herbergi og fjórar 70 fermetra svítur. Eldra húsnæði hótelsins verður nýtt sem gisting fyrir starfsfólk þess. Til viðbótar eru áform um aðra byggingu, „Private Lodge“, sem hægt verður að leigja í heilu lagi fyrir fjölskyldur eða hópa. Sigurður segir að þar geti fólk verið út af fyrir sig og haft sinn eigin kokk og þjón svo dæmi sé tekið. Mikill kostnaður fylgir þessari uppbyggingu og er áætlað að hann geti orðið allt að 20 milljónir dollara alls, eða um 2,8 milljarðar króna.

Tindasel er á stórri jörð, 123 hektarar. Stærð hótelsvæðisins er allt að fimm hektarar og fyrirhugaðar byggingar gætu verið allt að 4.800 fermetrar að stærð. Sigurður segir að stærð jarðarinnar nýtist vel til að skapa sérstöðu Tindasels. Höfða á til fólks sem sækist eftir afþreyingu og upplifun.

Gestir fái allan pakkann hér

„Sérstaða okkar er að við verðum með afþreyingu á svæðinu en ekki einungis að bjóða upp á lúxusgistingu og mat. Við munum bjóða upp á alla helstu afþreyingu, hjólaferðir, gönguferðir, buggy-ferðir og ferðir upp á hálendið svo dæmi séu tekin. Svo erum við rétt við allar helstu náttúruperlur á Suðurlandinu, Landmannalaugar og Þórsmörk. Þetta er allt í okkar nærumhverfi og því þurfa gestir okkar ekki að eyða miklum tíma í að keyra á milli staða. Hér er tækifæri til að gera þetta allt saman. Fólk kemur hingað til að þess að upplifa ævintýri og tengjast náttúrunni.“

Sigurður hefur rekið Deluxe Iceland síðan 2015 en fyrirtækið herjar á vel stæða ferðamenn. Sigurður og hans fólk bjóðast til að sjá alfarið um heimsókn þeirra hingað til lands, taka á móti þeim og skipuleggja allar ferðir, gistingu, bókanir á veitingastaði og þar fram eftir götunum. Hugmyndin er að sama gildi um Tindasel Lodge, að gestir sem þangað komi fái allan pakkann og þurfi ekki að skipuleggja neitt sjálfir. Mikill vöxtur hefur verið í rekstri Deluxe Iceland síðustu þrjú árin. Á þeim tíma nema tekjur þess yfir 1,3 milljörðum króna.

„Langstærsti markhópurinn eins og staðan er núna er Bandaríkjamenn á aldrinum 25-60 ára. Þeir eru yfir 85% kúnna okkar og því beinum við auglýsingum okkar helst að þeim. Sumarið 2023 náðum við ekki að sinna öllum þeim viðskiptavinum sem við hefðum viljað og þess vegna horfum við til stækkunar næstu árin. Janúar, febrúar og mars voru rosagóðir hjá okkur en sumartíminn er samt vinsælastur þegar flestir okkar viðskiptavina koma.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon