Þjálfun Eva Katrín segir að leikfimiæfingarnar séu hannaðar til að sporna gegn vöðvarýrnun og beinþynningu og stuðli að betri hæfni og heilsu.
Þjálfun Eva Katrín segir að leikfimiæfingarnar séu hannaðar til að sporna gegn vöðvarýrnun og beinþynningu og stuðli að betri hæfni og heilsu. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verkefnið Virkni og vellíðan stendur fyrir keppni í götugöngu í Kópavogi nk. þriðjudag, 14 maí. Gengið verður frá Fífunni kl. 13 og niður í Kópavogsdalinn. Keppnin er hugsuð fyrir alla sem eru 60 ára og eldri

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Verkefnið Virkni og vellíðan stendur fyrir keppni í götugöngu í Kópavogi nk. þriðjudag, 14 maí. Gengið verður frá Fífunni kl. 13 og niður í Kópavogsdalinn. Keppnin er hugsuð fyrir alla sem eru 60 ára og eldri.

„Markmiðið er að vekja athygli á því hve fjölbreytileg hreyfing er í boði fyrir þá sem eldri eru,“ segir Eva Katrín Friðgeirsdóttir íþróttafræðingur. Í götugöngunni eru þrír flokkar; fyrir 60-69 ára, 70-79 ára og 80 ára og eldri.

„Við vorum með svona göngu í fyrra sem var mjög gaman. Þó þetta sé ganga er fyrirkomulagið eins og í götuhlaupi. Svo getur fólk líka komið og hvatt sitt fólk áfram á hliðarlínunni.“

Virkni og vellíðan er heilsueflandi verkefni fyrir eldri íbúa í Kópavogi. Eru íþróttamannvirki bæjarins notuð þegar þau eru í minni notkun fyrri hluta dags.

„Við bjóðum upp á hreyfingu sem miðar að því að auka styrk, þol, liðleika og jafnvægi, og erum í HK, Breiðabliki og Gerplu. Erum með 17 mismunandi hópa sem æfa undir stjórn menntaðra íþróttafræðinga,“ segir Eva Katrín, en hún og Fríða Karen Gunnarsdóttir eru báðar íþróttafræðingar og verkefnastjórar hjá Virkni og vellíðan.

Regluleg hreyfing og samvera

„Virkni og vellíðan fór af stað árið 2020 í Kópavogi og verður fjögurra ára núna í haust,“ segir Eva Katrín. Vegna covid hafi það byrjað svolítið hægt en vaxið hratt þegar faraldrinum sleppti. „Á þessari önn eru 406 þátttakendur sem æfa flestir tvisvar í viku í vöðva- og styrkþjálfun og síðan geta þau valið sér þriðja tímann eftir áhuga. Boðið er upp á mismunandi tíma, eins og golfþjálfun með GKG, súmbakennslu, bandvefslosun, teygjur og slökun og fleira. Þetta er ekki hefðbundin leikfimi fyrir eldri borgara, enda viljum við vera með fyrirbyggjandi leikfimi sem styrkir þennan hóp svo heilsan verði betri þegar árin færast yfir,“ segir Eva Katrín. Að hennar sögn er meðalaldur þátttakenda 73 ár. „Við erum líka innan félagsmiðstöðva eldri borgara þar sem 100 manns fá þjálfun, en þar er meðalaldurinn 83 ár og öðruvísi nálgun.“

Allir ætla að halda áfram

Hugmyndin að Virkni og vellíðan kviknaði þegar Eva Katrín og Fríða Karen voru í námi og kynntust verkefninu Vítamín í Val hjá Reykjavíkurborg. „Það var alveg frábær andi þar, jákvætt viðmót, gleði og stuðningur. Við vildum móta verkefni í þeim anda en samt fá meiri hreyfingu. Þar litum við til rannsókna Janusar Guðlaugssonar, okkar helsta sérfræðings um heilsueflingu eldra fólks.“

Eva Katrín segir mikinn vinskap myndast milli fólks í hópunum. Í nýlegri könnun, sem gerð var með HR, kom í ljós að þátttakendur hafa bætt líkamlega hreysti og velsæld umtalsvert. Í nýrri viðhorfskönnun sögðust 100% þátttakenda ætla að halda áfram næsta haust, 94% mátu heilsu sína betri og 78% sögðu andlega heilsu betri. „Alltaf eftir æfingarnar kemur hópurinn saman og fær sér kaffi og spjallar. Margir segja að félagsskapurinn sé það sem standi upp úr,“ segir Eva Katrín við Morgunblaðið.