Laufey Lín Jónsdóttir söngkona sómdi sér vel á myntugræna dreglinum í kjól eftir Prabal Gurung á söfnunarkvöldi Metropolitan-safnsins í New York, Met Gala, þar sem markmiðið var að vekja tískuna af þyrnirósarsvefni.
Laufey Lín Jónsdóttir söngkona sómdi sér vel á myntugræna dreglinum í kjól eftir Prabal Gurung á söfnunarkvöldi Metropolitan-safnsins í New York, Met Gala, þar sem markmiðið var að vekja tískuna af þyrnirósarsvefni. — AFP/Dia Dipasupil
Söngkonan Laufey Lín vakti athygli á söfnunarviðburði Metropolitan-safnsins í New York, Met Gala, í kjól eftir Prabal Gurung og var mynduð ásamt nepalsk-bandaríska hönnuðinum

4.5.-10.5.

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Söngkonan Laufey Lín vakti athygli á söfnunarviðburði Metropolitan-safnsins í New York, Met Gala, í kjól eftir Prabal Gurung og var mynduð ásamt nepalsk-bandaríska hönnuðinum.

Halla Hrund Logadóttir hélt forustu í baráttunni um Bessastaði í könnun, sem Prósent gerði 30. apríl til 5. maí. Katrín Jakobsdóttir var í öðru sæti og Baldur Þórhallsson í því þriðja.

Borgarneskirkja eftir Halldór H. Jónsson var friðlýst formlega í vikunni. Hún er fyrsta friðlýsta byggingin í Borgarnesi.

Stjórnendur Ríkisútvarpsins telja rekstur TikTok-rásar samræmast lögbundnu hlutverki þess.

KA varð Íslandsmeistari kvenna í blaki þriðja árið í röð.

Karlmaður um þrítugt fannst látinn í fangaklefa á Litla-Hrauni á mánudag. Ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Fréttaskýring Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um samninga olíufélaga við borgina um lóðir undir bensínstöðvar sem urðu að byggingarlóðum var sýnd á mánudagskvöld í Kastljósi og var mörgum brugðið. Skýringin þótti ekki boðleg til að vera sýnd í þættinum Kveik án þess að nánari skýring væri gefin á því.

Daginn eftir samþykkti meirihluti borgarráðs að innri endurskoðun kannaði samningana.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir var kjörin biskup Íslands í síðari umferð biskupskosninga, sem lauk á þriðjudag. Hún hlaut 52,19% atkvæða, en sr. Guðmundur Karl Brynjarsson 46,97%.

Frambjóðendur til forseta hafa heimild til að verja tæpum 79 milljónum króna hver til framboðs síns.

Vínbúð var opnuð við Álfabakka í Reykjavík í vikunni. Nú eru þrjár vínbúðir þar í hnapp. 2,5 km eru í vínbúðina í Smáralind og þar á milli er vínbúð við Dalveg.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, yrðu því áfram 9,25%.

Píratar hafa verið duglegir að leggja fram fyrirspurnir á þingi, nú síðast fyrirspurn um fyrirspurnir, sem lagðar eru fram á þingi.

Framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í flutningi Heru Bjarkar Þórhallsdóttur komst ekki upp úr undankeppninni á þriðjudagskvöld í Malmö í Svíþjóð og er því ekki með á úrslitakvöldinu nú um helgina.

Boðuðu verkfalli á Keflavíkurflugvelli var aflýst þegar samningar náðust milli SA, Isavia, Félags flugmálastarfsmanna ríkisins og Sameykis um það leyti sem Ísland datt úr úr Eurovision.

Frá áramótum hefur 120 Venesúelabúum verið veitt aðstoð til að fljúga til Venesúela og 470 umsóknum fólks frá Venesúela um vernd verið hafnað.

Tilkynnt var að 150 manns yrði sagt upp störfum hjá Grindavíkurbæ. Þegar höfðu nokkrir sagt upp að fyrra bragði. Í fyrra voru yfir 300 manns á launaskrá bæjarins, en að sögn Fannars Jónssonar bæjarstjóra má búast við að brátt verði starfsmenn bæjarins innan við 100.

Nokkur dæmi munu um að konur kjósi að fæða börn án aðkomu fagfólks. Ekkert verklag er um slíkar fæðingar og eru áhyggjur af að þetta gæti opnað leið fyrir staðgöngumæðrun án eftirlits.

Í könnun Maskínu, sem gerð var 30. apríl til 8. maí, mældist Halla Hrund Logadóttir með 29,7% fylgi, Katrín Jakobsdóttir með 26,7% fylgi, Baldur Þórhallsson með 18,9% fylgi og Jón Gnarr 11,2% fylgi. Halla Tómasdóttir tók við sér og fór upp í 5,2% fylgi, samvæmt könnuninni.

Malasíski athafnamaðurinn Loo Eng Wah hefur keypt Hótel Vos í Þykkvabæ og hyggst tífalda stærð hótelsins.

Varptími fugla er hafinn og hefur sumarlokun og ferðabann um friðlandið við Gróttu á Seltjarnarnesi tekið gildi.

Bóklegu ökuprófi verður nú breytt. Um helmingur þeirra, sem þreyttu prófið í sinni gömlu mynd, féll og þurfti að taka það aftur. Þuríður B. Ægisdóttir, formaður Ökukennarafélags Íslands, segir að prófa eigi skilning á umferðarreglum, ekki lesskilning.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra lagði fram í samráðsgátt landsáætlun um riðuveikilaust Ísland.

Villikötturinn Púkarófa fór í sumarlandið í byrjun maí. Púkarófa varð 17 ára og var villiköttur í 15 ár. Hún var á sínum tíma valin samfélagsmiðlastjarna dýranna og sjóður til styrktar villiköttum í Hafnarfirði er kenndur við hana.

Ekkert varðskip var við landið þegar dráttarbáturinn Grettir sterki fékk á sig sjó fyrir viku og þurfti aðstoð. Allt fór þó vel.

Söluturninn Skalli í Árbænum varð fertugur og bauð Árbæingum upp á ókeypis ís á uppstigningardag til hátíðabrigða.

Eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina lauk formlega á uppstigningardag. Veðurstofan tilkynnti goslok, en Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði að næsta lota væri yfirvofandi. Gosið hófst 16. mars og stóð yfir í 54 daga.

Víðir Reynisson sviðsstjóri almannavarna hvatti þá sem dveldu í Grindavík til að gera allt sitt dót klárt þar sem miklar líkur væru á rýmingu á næstu dögum.

Breiðablik er með flesta uppalda leikmenn innan eigin raða og í öðrum félögum í efstu deild karla í knattspyrnu í sumar, 22 alls, en Valur fæsta, einn leikmann.

Vegna breytts fyrirkomulags er útlit fyrir að nýbakaðir lyfjafræðingar fái ekki að hefja störf fyrr en í júlí, en þeir hafa getað byrjað að vinna strax að námi loknu í maí. Fyrir vikið gæti þurft að loka apótekum eða banna starfsfólki í apótekum að fara í frí.

Reisa á nýja þjónustubyggingu við Listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti og á að taka fyrstu skóflustunguna nú um helgina. Einar Jónsson fæddist 11. maí 1874, fyrir 150 árum.

35 manns hafa greinst með staðfestan kíghósta frá því að fyrsta tilfellið greindist í apríl og 20 að auki fengið svokallaða klíníska greiningu. Tveir hafa verið lagðir á sjúkrahús vegna sjúkdómsins. Mikilvægt er að vernda börn undir sex mánaða aldri fyrir kíghósta.

Manni sem var handtekinn fyrir aðild að Hamraborgarráninu hefur verið sleppt úr haldi. 20-30 milljónum var stolið úr öryggisbíl í ráninu. Maðurinn var með hluta þýfisins í sínum fórum og var handtekinn við að reyna að koma því í umferð, en ekki þótti ástæða til að halda honum.

Eysteinn Pétur Lárusson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ.

Útflutningsverðmæti ferskra sjávarafurða var í apríl 38% hærra en í sama mánuði í fyrra og nam 27% af útflutningsverðmætum sjávarafurða í heild. Það hlutfall hefur aldrei verið hærra og útflutningsverðmæti ferskra afurða aldrei verið meira á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

Einar Viggó Viggósson og Eva Björg Halldórsdóttir létust í umferðarslysinu á Eyjafarðarbraut eystri skammt norðan við Laugaland 24. apríl.