[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óskar Hrafn Þorvaldsson er hættur störfum sem þjálfari karlaliðs Haugesund í knattspyrnu, aðeins tæplega sjö mánuðum eftir að hann var ráðinn til félagsins og gerði samning til þriggja ára, eða til loka keppnistímabilsins 2026

Fréttaskýring

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Óskar Hrafn Þorvaldsson er hættur störfum sem þjálfari karlaliðs Haugesund í knattspyrnu, aðeins tæplega sjö mánuðum eftir að hann var ráðinn til félagsins og gerði samning til þriggja ára, eða til loka keppnistímabilsins 2026.

Félagið skýrði frá þessu í gærmorgun og í tilkynningu á heimasíðunni kom fram að Óskar hefði óskað eftir því á fimmtudaginn að láta af störfum.

Engar frekari skýringar hafa verið gefnar á þessu skyndilega brotthvarfi Óskars og hvorki hann né félagið hafa viljað ræða það við fjölmiðla.

Christoffer Falkeid formaður Haugesund sagði við TV 2 í Noregi að ákvörðunin hefði verið Óskars og félagið hafi ekki verið undir hana búið.

Tvær kenningar

Tvær kenningar eru uppi í norskum fjölmiðlum um ástæður uppsagnarinnar.

Annars vegar að heimþrá og fjarvera frá fjölskyldunni hafi orðið til þess að Óskar vildi hætta. Þar var m.a. vísað til viðtals við hann frá því skömmu áður en tímabilið hófst í Noregi en þar sagði hann að það væri erfiðara en sig hefði grunað að vera fjarri fjölskyldunni.

Hins vegar hefur TV 2 fjallað um meinta árekstra milli Óskars og stjórnar félagsins. Hann hafi verið óánægður með að fá ekki að velja sér aðstoðarþjálfara þegar hann tók við liðinu. Óskar hafi verið með aðra sýn á fótboltann en aðstoðarmenn hans og hafi tilkynnt félaginu að annaðhvort myndi félagið reka aðstoðarþjálfarann Sancheev Manoharan eða hann myndi sjálfur segja upp störfum. Haugesund hafi ekki viljað ganga að því og þar með hafi Óskar sagt af sér.

Manoharan neitaði því við TV 2 að um árekstra hefði verið að ræða milli hans og Óskars en vildi ekki ræða málið að öðru leyti.

Við vorum orðlausir

Markvörðurinn Egil Selvik sagði við TV 2 að ef atburðarásin hafi verið á þann veg þá hafi félaginu tekist mjög vel að halda öllu slíku frá leikmönnunum.

„Við fengum á tilfinninguna að það hafi ekki verið eitthvert eitt atriði sem þetta snerist um, og ekki bara viðkomandi fótboltanum,“ sagði Selvik, sem skýrði frá því að Óskar hefði sagt leikmönnum frá ákvörðun sinni þegar þeir mættu í morgunmat hjá félaginu í gærmorgun. „Það voru allir orðlausir í nokkrar mínútur. Þetta var áfall,“ sagði markvörðurinn.

Sjö leikir með liðinu

Óskar tók formlega við liði Haugesund í byrjun desember, þegar tímabilinu 2023 lauk í Noregi en hann hafði þá verið þjálfari Breiðabliks í fjögur ár. Kópavogsliðið varð Íslandsmeistari undir hans stjórn árið 2022, og komst síðan í riðlakeppni Sambandsdeildar, fyrst íslenskra liða, síðasta haust.

Óskar stýrði Haugesund aðeins í sjö leikjum. Sex þeirra voru í úrvalsdeildinni og fjórir þeirra töpuðust, þar af þrír síðustu sem hann stjórnaði liðinu. Hann kveður félagið í 13. sæti af 16 liðum.

Þá féll Haugesund mjög óvænt út úr norsku bikarkeppninni strax í fyrstu umferð gegn Torvastad, liði úr fimmtu efstu deild.

Fékk tvo Íslendinga

Óskar fékk tvo íslenska leikmenn til liðs við Haugesund eftir að hann tók við liðinu. Miðjumaðurinn Anton Logi Lúðvíksson, sem áður lék undir hans stjórn með Breiðabliki, hefur verið í byrjunarliði í öllum deildarleikjum tímabilsins og Hlynur Freyr Karlsson, sem kom til Haugesund frá Val, hefur vermt varamannabekkinn og aðeins komið tvisvar inn á í fyrstu sex umferðum úrvalsdeildarinnar. Þeir sömdu báðir við félagið til fjögurra ára.

Aðstoðarþjálfararnir Sancheev Manoharan, Paul André Farstad og Kamil Rylka taka við stjórn liðsins til bráðabirgða á meðan leitað er að nýjum þjálfara. Í viðtölum við norska fjölmiðla sagði formaðurinn að það gæti allt eins verið að þeir yrðu með liðið út þetta tímabil.

Hvað tekur við?

En hvað tekur við hjá Óskari Hrafni? Þótt hann sé fimmtugur að aldri á hann ekki langan feril að baki sem þjálfari í fullu starfi. Hann þjálfaði yngri flokka hjá KR um árabil en tók svo við liði Gróttu árið 2019 og kom því á tveimur árum úr 2. deild upp í úrvalsdeild en var í framhaldi af því ráðinn til Breiðabliks.

Ljóst er að íslensk félög renndu hýru auga til Óskars síðasta haust, þegar ljóst varð að hann væri á förum frá Breiðabliki, og þar var hans gamla félag, KR, fremst í flokki. Margir Vesturbæingar voru spenntir fyrir því að fá Óskar til starfa. KR-ingar réðu síðan Gregg Ryder og hafa byrjað Íslandsmótið ágætlega undir hans stjórn.

Viðskilnaður Óskars við Breiðablik var hins vegar á þann veg að telja má öruggt að hann sé ekki á leiðinni aftur þangað.

Höf.: Víðir Sigurðsson