Viðbúnaður Ísraelskir skriðdrekar í suðurhluta Ísraels nálægt landamærum Gasasvæðisins. Ísraelsher undirbýr innrás í austurhluta Rafah.
Viðbúnaður Ísraelskir skriðdrekar í suðurhluta Ísraels nálægt landamærum Gasasvæðisins. Ísraelsher undirbýr innrás í austurhluta Rafah. — AFP/Ahmad Gharabli
Ísraelsher hefur náð á sitt vald aðalgötunni sem skilur á milli vestur- og austurhluta borgarinnar Rafah syðst á Gasasvæðinu og hafa skriðdrekar nánast umkringt austurhlutann. Íbúar í borginni sögði í gær að í austurhlutanum kvæðu við stanslausar…

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Ísraelsher hefur náð á sitt vald aðalgötunni sem skilur á milli vestur- og austurhluta borgarinnar Rafah syðst á Gasasvæðinu og hafa skriðdrekar nánast umkringt austurhlutann.

Íbúar í borginni sögði í gær að í austurhlutanum kvæðu við stanslausar sprengingar og skothríð þar sem Ísraelsher og vopnaðar sveitir Hamas-samtakanna og Heilags stríðs berjast. Hamas-samtökin segjast hafa setið um ísraelska skriðdreka í austurhluta borgarinnar, sem þýðir að Ísraelsher hefur sótt nokkra kílómetra inn í austurhlutann.

Sameinuðu þjóðirnar vöruðu við því í gær, að flutningar hjálpargagna til Gasasvæðisins kynnu að stöðvast á næstu dögum en í Rafah er lykillandamærastöð.

Ísraelsher hefur skipað óbreyttum borgurum að yfirgefa austurhluta borgarinnar. Ísraelsstjórn segist ekki geta unnið stríðið á Gasasvæðinu án þess að ráðast inn í Rafah þar sem þúsundir vopnaðra Hamas-liða eru taldir hafa leitað skjóls. Hamas segist á móti munu verja borgina.

Um 1,4 milljónir manna eru taldar hafa leitað skjóls í Rafah en skömmu eftir að stríðið hófst hvatti Ísraelsher íbúa á Gasa til að leita skjóls á „öruggum svæðum“ á suðurhlutanum, þar á meðal í Rafah. Samhæfingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum segir að yfir 100 þúsund manns hafi nú flúið frá borginni, margir til borgarinnar Khan Yunis, þar sem harðir bardagar voru háðir fyrr á árinu, og svæða við strönd Miðjarðarhafs.

Ísraelskir mótmælendur kveiktu á fimmtudag í hluta byggingar í Austur-Jerúsalem þar sem Palestínuaðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, var með höfuðstöðvar og var þeim lokað í kjölfarið. Bæði Antonio Guterres framkvæmdastjóri SÞ og Josep Borrell utanríkismálastjóri Evrópusambandsins fordæmdu þetta í gær.

Allsherjarþing SÞ samþykkti í gær með 143 atkvæðum gegn 9 að veita Palestínu aukinn rétt til þátttöku í störfum þingsins. 25 ríki sátu hjá. Palestína óskaði á ný eftir fullri aðild að samtökunum en Bandaríkin beittu neitunarvaldi í öryggisráði SÞ í apríl.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson