Sigfús R. Sigfússon fæddist 7. október 1944. Hann lést 29. apríl 2024.

Útför fór fram 10. maí 2024.

Kær vinur er fallinn frá. Okkar vinátta stóð í yfir hálfa öld. Hún hófst þegar Sigfús kom að máli við mig og bauð mér starf i fyrirtækinu P. Stefánssyni. Ég hafði þá þegar unnið í Heklu um þriggja ára skeið og fannst mér þetta mikill heiður og mér sýnd mikil ábyrgð.

Þarna hófst vinátta okkar Sigfúsar sem hélst allar götur síðan.

Við sem hófum þarna störf vorum öll undir þrítugu, ung með miklar væntingar og þarna var mikill uppgangur undir hans leiðsögn. Margur sveitamaðurinn mætti í höfuðborgina til að kaupa sér Land Rover og Austin Mini rauk út eins og heitar lummur. Þetta var mjög skemmtilegur tími og góðar minningar tengdar honum. Þegar umsvifin tóku að minnka opnuðust augu Sigfúsar fyrir því að eitthvað þyrfti að gera.

Árið 1979 fékk Sigfús umboð fyrir Mitsubishi-bíla. Bílarnir seldust mjög vel og var markaðshlutdeild óvenju mikil og með því mesta sem gerðist í Evrópu. Sigfús var mjög virtur og vel metinn hjá yfirmönnum Mitsubishi í Japan sem m.a. leiddi til þess að árlegur Evrópufundur var haldinn hér árið 1990 og var þessi fundur einn sá glæsilegasti sem haldinn hefur verið og var lengi í minnum hafður. Við Sigfús ferðuðumst mikið á þessum tíma, aðallega til Japan til viðræðna vegna bílanna og einnig til Evrópu. Sigfús var eldklár í samningaviðræðum og gaf sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Hann átti erfitt með að sætta sig við nei eða að ekki væri hægt að gera hlutina. Eitt sinn sem oftar vorum við staddir á virtum veitingastað í Kaupmannahöfn og á þeim tíma kom ekkert annað til greina en friggadellur en þær voru ekki á matseðlinum. Sigfús varð ósáttur við þetta en heldur glaðnaði yfir honum þegar eigandinn kom og færði okkur friggadellurnar. „Hvernig í ósköpunum bjargaðir þú þessu?“ spyr Sigfús en eigandinn hafði þá sent eftir þeim yfir á hótel D'Angleterre þar sem þær voru á matseðlinum. Sama var uppi á teningnum þegar við vorum á Naustinu, þá komst ekkert annað að hjá mínum manni en nýjar gellur. Því miður ekki fáanlegar í það skiptið. „Ég á nóg af þeim heima á Starhaga, Stefán minn, renndu eftir þeim.“ Nýjar gellur voru framreiddar að hætti Naustsins.

Sigfús var stórhuga maður. Hann undirbjó sig afspyrnuvel fyrir alla fundi og var þekktur fyrir snyrtimennsku. Nefna má þegar starfsmenn á bílaverkstæðinu þurftu að fara í inniskó við inngöngu í mötuneytið. Fáir voru dagarnir þegar Hjálmar blessaður þurfti ekki að þrífa bílinn hans. Allt þurfti að vera tipptopp. Klæðnaður sölumanna var blár blazer, gráar buxur, bindi og nýburstaðir skór. Stundvísi var honum í blóð borin. Ef manni varð á að koma aðeins of seint á morgunfundi þá fékk maður kveðjuna „Good afternoon“.

Sigfús hélt utan um fjölmarga mannfagnaði á vegum Heklu og fræg voru jólaboðin sem haldin voru ár eftir ár.

Mikill vinskapur var milli fjölskyldna okkar og tengjumst við órjúfanlegum fjölskylduböndum. Þegar erfiðleikar steðjuðu að hjá okkur, mætti kærleikur þeirra hjóna Sigfúsar og Maríu Sólveigar okkur á einstakan hátt sem seint verður fullþakkað.

Síðustu ár hafði Sigfús átt við heilsuleysi að stríða, sem að lokum varð honum að aldurtila.

Í dag kveð ég kæran vin minn og samstarfsfélaga til margra ára. Við Maja sendum Maríu Sólveigu, börnum Sigfúsar og fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu góðs drengs, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Stefán Sandholt.

Það var mikil eftirvænting er við vinirnir áttum fund í Heklu snemma árs 1997 til að skrifa undir samstarfssamning um rekstur rallbíls næstu fjögur árin. Samningur sem þessi hafði aldrei verið gerður áður hér á landi. Óvænt kom Sigfús forstjóri inn á fundinn og sagðist vilja skrifa undir samninginn sjálfur. Við höfðum ekki hitt hann fyrr, en á þessari stundu áttuðum við okkur á því að við vorum að eignast velgjörðamann af bestu gerð. „Núna förum við að vinna,“ sagði hann, „setjum þennan samning niður í skúffu og horfum aldrei meira á hann, þannig virka bestu samningarnir.“ Og við stóðum við okkar og hann við sitt, svo sannarlega.

Við erum þess fullvissir að með tilkomu þessa bíls hingað til lands fór rallið af áhugamannastigi yfir í atvinnumennskuna. „Eruð þið komnir með alla þá peninga sem þarf?“ spurði kappinn nokkrum vikum áður en bíllinn kom til landsins. Svarið var auðvitað nei. Á sama augnabliki rífur hann upp símtólið, hringir í ritarann sinn og segir: „Hringdu fyrir mig í hann Sólon vin minn, ég þarf nauðsynlega að ná í hann núna.“ Sólon svarar og Sigfús spyr hvort hann megi senda tvo unga menn til hans í bankann, þá vanti smá aur upp á vegna kaupa á flottasta rallbíl landsins.

Sigfús fékk að sitja í rallbílnum fína eina sérleið um Öskjuhlíð í alþjóðarallinu 1997. Það var ljóst að hann var pínu stressaður, mættur í þessum fína galla og með hjálm að auki. Sennilega búinn að fá sér eitt eða tvö hvítvínsglös svo stemningin yrði betri. „5, 4, 3, 2, 1 keyra!“ Og Lancerinn þýtur af stað út veginn frá Fossvogskirkju og það er dauðaþögn úr sætinu hægra megin, en eftir tvær beygjur heyrist í talkerfinu: „Nau, bara bomba!“ Ökumaðurinn er ánægður með þetta komment og sýnir alla taktana í gegnum skóginn niður á Flugvallarveg, þar sem þessi spurning heyrist: „Palli, er hann fjórhjóladrifinn?“

Við Jói eigum endalausar góðar minningar frá þessum árum er við störfuðum með Heklu að ýmsum verkefnum, hvort sem um var að ræða útgerð rallbílsins, persónulegan akstur með Sigfús og vini hans og viðskiptafélaga eða umsjón Pajeró-klúbbsins sem m.a. stóð fyrir jeppaferðum viðskiptavina, t.d. með rúmlega 100 fjölskyldur á Pajeró-jeppum í Þórsmörk með Sigfús fremstan í flokki.

Sendum fjölskyldu Sigfúsar okkar innilegustu samúðarkveðjur vegna fráfalls hans, mannsins sem hafði klárlega mest áhrif á líf og leik okkar Jópal-bræðra. Nú kveðjum við góðan vin með miklu þakklæti fyrir traustið.

Páll Halldór Halldórsson, Jóhannes Jóhannesson.

Genginn er góður maður. Það var eitt mitt mesta lán í lífinu að kynnast Sigfúsi í Heklu, njóta handleiðslu hans, starfa bæði fyrir hann og hjá honum. Hann var ráðagóður og réð manni heilt. Þú gast treyst honum. Stundum dró hann upp heilræði úr smiðju föður síns: „Heiðra skaltu skálkinn!“

Sigfús gerði marga góða hluti fyrir bílgreinina í heild alla tíð og ekki síst þegar hann var formaður Bílgreinasambandsins. Hann var maður með „bílablóð í æðum“, þjónustumiðaður og hafði skilning á vonum og væntingum viðskiptavina. Þegar vantaði nýja bíla þá hikaði hann ekki við að selja forstjórabílinn til að halda viðskiptunum. Hann var snjall viðskiptamaður, gat verið mjúkur og jafnframt mjög fastur fyrir. Ég minnist máls þar sem viðskiptavinur reyndi að beita svokölluðu „viðskiptaofbeldi“ og þvinga inn skil á ársgömlum bíl vegna ábyrgðarviðgerðar, í ljósi stórra viðskipta við annað svið Heklunnar. Sigfús sagðist myndu skoða málið og kallaði til þjónustustjórann, sem fullyrti að viðgerðin væri algjörlega fullnægjandi. Viðskiptavinurinn sætti sig ekki við þetta svar og sagðist þar með hætta við sín stóru viðskipti við Heklu. Svar Sigfúsar er ógleymanlegt: „Við kaupum ekki viðskipti á þennan hátt.“

Hann var mjög laginn í mannlegum samskiptum og ágætur hlustandi. Sigfús kunni vel að deila ábyrgð og verkefnum, hann treysti fólkinu sínu, sem lýsir sér best í því hve lág starfsmannavelta var í Heklu á hans vakt. Hann naut trausts síns fólks enda reyndist hann fólki vel þegar eitthvað bjátaði á og lét sér annt um fjölskyldur þegar veikindi steðjuðu að. Hann var tilbúinn að styðja við. Sigfús var vinmargur og hefur skilað góðu lífsstarfi.

Ein dýpsta gæfa í geði manns

er glaðlegt bros í fari hans.

Af lítilmagna bar hann blak

og batt orð við handartak.

Elsku María og stórfjölskylda. Sendi ykkur öllum samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Sigfúsar í Heklu.

Bjarki Harðarson.

Elsku besti Sigfús er farinn og heimurinn svo miklu fátækari að missa svona góðan mann. Ég var svo heppin að kynnast Sigfúsi fyrir 25 árum þegar ég var að vinna hjá IMG Gallup. Hann var uppáhaldsviðskiptavinurinn minn, alltaf svo skemmtilegur, hress og mikill húmoristi. Stuttu eftir að við kynntumst þá vantaði mig nýjan bíl og mig langaði bara í Golf, en það var þannig ástand að þessir bílar voru uppseldir og einhver biðlisti. Sigfús sagði mér samt að kíkja til sín og þegar ég var komin í Heklu þá sagði hann: „Hvaða lit viltu?“ Hann vissi hvað skipti máli. Svo þegar liturinn var klár þá sagði hann: „Hvað viltu marga miða?“ Ég vissi nú ekkert hvað hann meinti með þessu en þá var það þannig að ég átti að fljúga til Akureyrar til að ná í bílinn. Þessi bílakaup tóku u.þ.b. tvær mínútur og norður flaug ég daginn eftir með Katarínu mína til að sækja bílinn. Sigfús var algjör reddari og vildi allt fyrir mann gera. Stuttu seinna urðum við svo nágrannar á Sunnuveginum, eða Sunshine boulevard eins og Sigfús kallaði götuna alltaf. Þá kynnist ég elsku Maríu konunni hans og hjartahlýrri konu hef ég ekki hitt. Sá var heppinn að ná sér í þessa frábæru konu og ég lánsöm að eiga hana sem vinkonu. Þau voru falleg hjón, frábærir nágrannar og glæsileg í alla staði. Ég á margar góðar minningar af grillpartíum, gamlárskvöldum og glæsilegum veislum í þeirra húsi. Elsku Sigfús, hvíl í friði, og Maríu sendi ég allan minn styrk. Minningin um góðan vin lifir og yljar.

Jensína Kristín
Böðvarsdóttir.