Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð: Í fæti mínum ónýt er efsta frosið lag í snjó. Lítið svona bátur ber, barnagull hún var úr sjó. Axel Knútsson leysir gátuna: Mín veika hnéskel ónýt er allsstaðar á fönnum skel afla lítinn bátsskel ber barnagull er öðuskel

Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Í fæti mínum ónýt er

efsta frosið lag í snjó.

Lítið svona bátur ber,

barnagull hún var úr sjó.

Axel Knútsson leysir gátuna:

Mín veika hnéskel ónýt er

allsstaðar á fönnum skel

afla lítinn bátsskel ber

barnagull er öðuskel.

Lausn Sigmars Ingasonar:

Skel á hné síst skemma má.

Skel á snjónum brotnar undan fæti.

Bátskel þessi ber víst skippund fá.

Börnin léku að legg og skel með kæti.

Guðrún B. átti kollgátuna:

Verkur í hnéskel og hæl,

þá harða snjóskel ég brýt

á leið að bátsskel í bræl-

u. Barn með skeljar ég lít.

Lausnarorðið er skel segir Úlfar Guðmundsson:

Styrkja skelin máttug má.

Myndast skelin snjónum á.

Lítil skel lítið tekur.

Leggur og skel hug vekur.

Stolin stund úr sauðburði, segir Harpa á Hjarðarfelli:

Hnéskel stundum ónýt er.

Örþunn skel á hjarni.

Lítil bátskel lítið ber.

Leikfang skel er barni.

Lausn Helga R. Einarssonar:

Hnéskel stundum skaða ber.

Skel myndast á snjó.

Í skelinni minn afli er.

Aða' er skel í sjó.

Sjálfur skýrir Páll gátuna:

Á fæti mínum hnéskel ónýt er,

efsta lagið frosin skel af snjó.

Kölluð skel sá bátur lítið ber

og barnagull var skelin upp úr snjó.

Þá er ný gáta eftir Pál:

Um litla drengi notað orðið er,

enn í vatnið spenntur þessi fer.

Það heyrist ef í bílnum bilar hann,

og brennivínið oft á gripinn rann.

Lausavísa eftir Símon Dalaskáld:

Norðurárdalur næsta' er svalur fremra.

Engar jómfrúr eru þar.

Allt eru tómar kerlingar.

Limra eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Ég skokka' ekki, skylmist né hjóla

né skálma um brekkur og hóla

né kasta og stekk

en kvöld eitt ég gekk

og komst milli hægindastóla.