Spennandi mynd Katy O'Brien og Kristen Stewart í hlutverkum sínum sem Jackie og Lou í Ást liggur í blóðinu.
Spennandi mynd Katy O'Brien og Kristen Stewart í hlutverkum sínum sem Jackie og Lou í Ást liggur í blóðinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bíó Paradís Love Lies Bleeding / Ást liggur í blóðinu ★★★★· Leikstjórn: Rose Glass. Handrit: Rose Glass og Weronika Tofilska. Aðalleikarar: Kristen Stewart, Katy O'Brian, Anna Baryshnikov, Jena Malone, Dave Franco og Ed Harris. 2024. Bretland og Bandaríkin. 104 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Amaranthus caudatus er tegund blómplöntu en hún gengur undir ýmsum nöfnum, þar á meðal „ást liggur í blóðinu“, sem er titillinn á nýjustu mynd leikstjórans Rose Class. Ást liggur í blóðinu er önnur mynd hennar í fullri lengd á eftir Heilagri Maud (2019). Glass hefur verið gagnrýnd fyrir að myndirnar séu bara tvær hliðar á sama peningi, því jafnvel þótt Ást liggur í blóðinu sé skilgreind sem rómantískur spennutryllir en Heilög Maud sem hrollvekja eru líkindin augljós. Báðar myndirnar segja sögu af ofbeldisfullri utangarðskonu sem kemur inn í líf annarrar konu sem neyðist fljótlega til að endurmeta samband sitt við utangarðskonuna.

Ást liggur í blóðinu fylgir Lou (Kristen Stewart) sem starfar á líkamsræktarstöð í Nýju-Mexíkó á 9. áratug síðustu aldar. Lou lifir frekar einmanalegu lífi en það breytist þegar Jackie (Katy O'Brien), glaðleg vaxtarræktarkona, gengur inn á stöðina. Um er að ræða ást við fyrstu sýn en samdægurs sofa þær saman og daginn eftir flytur Jackie inn til Lou, hún leyfir raunverulega bláókunnugri konu að flytja heim til sín. Jackie stefnir á að keppa í vaxtarrækt í Las Vegas og þarf að æfa sig fyrir mótið. Lou fær þannig bókstaflega borgað fyrir að stara á fáklædda kærustu sína lyfta lóðum sveitt og vera kynþokkafull. Lífið er þó ekki einungis dans á rósum og það kemur í ljós að þær fela ljót leyndarmál hvor fyrir annarri sem reynist hættulegt. Kristen Stewart leikur Lou vel en það eru hins vegar nokkur augnablik þar sem leikurinn er aðeins of líkur leiknum í kvikmyndaseríunni Ljósaskiptum (2008-2012) og þá er erfitt að taka leikkonuna alvarlega.

Áhorfendur komast fljótt að því að ástæðan fyrir því að Lou hefur ekki yfirgefið þennan óhuggulega bæ er sú að hún þorir ekki að skilja systur sína, Beth (Jena Malone), eftir með ofbeldisfullum eiginmanni sínum, JJ (Dave Franco), og spilltum föður þeirra, Lou Sr. (Ed Harris). Jackie vinnur á skotsvæðinu sem faðir Lou rekur en Lou hefur lokað á allt samband við föður sinn. Í einu atriðinu mætir einn úr bandarísku alríkislögreglunni í ræktina til að spyrja Lou út í föður hennar en hún gefur ekkert upp. Í því atriði komast áhorfendur að því að faðir hennar er glæpamaður af verstu sort. Í kjölfarið reyna áhorfendur að skilja af hverju hún ákveður að gefa ekkert upp. Þeir velta fyrir sér hvort það sé út af ótta eða ást til föður hennar eða jafnvel hvort hún geti verið flækt í málið.

Ástæða fyrir því að blómið Amaranthus caudatus nefnist líka „ástin liggur í blóðinu“ er sú að það stendur m.a. fyrir vonlausa ást en það liggur í augum uppi að Lou og Jackie eru gjörsamlega vonlausar hvor fyrir aðra en það stoppar þær ekki. Þær reyna eftir bestu getu að láta ekki myrkar hliðar sínar hafa áhrif á sambandið en það er óumflýjanlegt og fljótlega draga þær fram það versta hvor í annarri. Það er vissulega oft þannig að maður er verstur þeim sem maður ann mest af því að það ríkir svo mikið traust en slíkt er hættulegt þegar önnur í sambandinu er dóttir mafíósa og hin vöðvabúnt með barnslegar hvatir og tekur orðatiltækið „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ aðeins of alvarlega.

Jackie, sem Katy O'Brian leikur listilega, er án efa áhugaverðasti karakterinn í myndinni. Hún virðist í fyrstu vera ótrúlega saklaus þrátt fyrir að massaður líkaminn segi annað en í hennar huga er heimurinn ansi svarthvítur, það er til vont og gott fólk en ekkert þar á milli. Jackie virðist heldur ekki hafa almennilega stjórn á eigin líkama, sem er kaldhæðnislegt þar sem hún er í vaxtarrækt. Líkaminn virðist stundum bókstaflega taka yfir, því hún fer í eins konar maníu og beitir ofbeldi líkt og karakterinn Hulk. Rose Glass og kvikmyndatökumaðurinn Ben Fordesman fanga þau atriði með því að taka nærmyndir af vöðvunum þegar þeir taka vaxtarkippi. Óljóst er hvort það er út af öllum sterunum sem Lou dælir í hana eða af einhverjum öðrum yfirnáttúrulegum ástæðum en það gerir myndina enn þá meira spennandi, þ.e. við vitum aldrei hverju Rose Glass tekur upp á næst. Er Lou kannski að búa til skrímsli eða eru þetta bara áhrif steranna?

Það er mjög erfitt að fjalla um Ást liggur í blóðinu án þess að gefa of mikið upp. Í fyrstu virðist myndin aðeins fylgja lesbísku pari sem er að reyna lifa af á mjög karllægum stað en fljótlega kemur í ljós að myndin er miklu skrautlegri en það. Hún virðist eiga að gerast í raunheimi þar sem lögmálin eru þau sömu og í heimi áhorfenda en undir lokin tekur myndin allt aðra stefnu, sem kemur skemmtilega á óvart. Þriðji hluti myndarinnar einkennist af miklu ofbeldi og titill myndarinnar, Ást liggur í blóðinu, verður því meira viðeigandi enda virðist þeirra ást bara eitt stórt blóðbað. Undirrituð gekk út úr bíóhúsinu í sjokki yfir lokasenunni en ef lesandi vill láta koma sér á óvart þá er Ást liggur í blóðinu alveg málið. Hér er á ferðinni geysilega spennandi mynd og flinkur leikstjóri sem þorir að gera tilraunir, jafnvel þótt það sé bara undir lok myndarinnar.