Bjarney Sigurlín Erlendsdóttir fæddist í Ólafshúsum í Vestmannaeyjum 20. febrúar 1932. Hún lést á Hraunbúðum í Eyjum 24. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Ólafía Bjarnadóttir frá Túni, f. 3. desember 1909, d. 1. júní 1994, og Erlendur Oddgeir Jónsson frá Ólafshúsum, f. 9. október 1908, d. 23. febrúar 1984. Uppeldisbróðir hennar var Viktor Þór Úraníusson, f. 27. janúar 1942, d. 27. ágúst 2020.

Bjarney giftist Gísla Grímssyni frá Haukabergi hinn 22. mars 1953. Foreldrar hans voru Guðbjörg Magnúsdóttir, f. 11. ágúst 1901, d. 5. maí 1982, og Grímur Gíslason, f. 20. apríl 1898, d. 31. mars 1980.

Börn Bjarneyjar og Gísla eru: 1) Erla Ólafía, f. 21.5. 1955, gift Kristni Ó. Grímssyni. Dætur þeirra: a) Ásta Björg, maki Trausti Jósepsson. Barn Erna Rakel. b) Bjarney Sif, maki Ævar Þ. Ólafsson. Börn Birta Dís og Thelma Karen. 2) Grímur, f. 26.4. 1960, giftur Guðrúnu Hjörleifsdóttur. Börn Gríms: a) Kristín Inga. Börn Þórdís Perla, Bryndís Anna og Emma Dís. b) Erna Ósk, maki Ágúst Grétar Ágústsson. Börn þeirra Katla Sif og Tumi Sær. c) Gísli, maki Klara A. Sigurðardóttir. Barn Grímur. d) Huginn Sær, maki Karítas Ólafsdóttir. e) Sophia Ornella, maki Dýrmundur H. Óskarsson. f) Andrea Líf. Dætur Guðrúnar: a) Tinna Karen, maki Benedikt Kr. Magnússon. Börn Iðunn Rósa, Heiðdís Lóa og Guðrún Birna. b) Berglind, maki Ívar Sævarsson. Börn Jökull Kári og Eyþór Máni.

Bjarney ólst upp í Ólafshúsum. Var hún ætíð kennd við æskuheimili sitt og kölluð Baddý frá Ólafshúsum.

Baddý lauk hefðbundnu barna- og unglinganámi en fór síðar til náms í Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði.

Í Ólafshúsum var stundaður hefðbundinn búskapur og vann Baddý við bústörf frá unga aldri. Með bústörfum vann hún í fiski en fór síðan að vinna verslunarstörf sem hún vann við lengst starfsævinnar en einnig starfaði hún lengi við matseld á matstofu Vinnslustöðvarinnar og á Tanganum.

Baddý og Gísli hófu búskap árið 1953 en fluttu síðar í risið á Heiðarvegi 52 til Önnu systur Gísla og Guðjóns manns hennar. Í árslok 1960 fluttu þau í Grænuhlíð 5 í hús sem þau höfðu byggt sér og bjuggu þar fram að eldgosinu 1973.

Á gostímanum bjuggu þau í þrjú ár á Selfossi en héldu þá til Eyja þar sem þau bjuggu á Illugagötu 21 til ársins 2002 er þau fluttu á Selfoss. Þau fluttu á ný til Eyja 2016 og festu kaup á parhúsi í Kleifahrauni 14a. Gísli lést áður en þau fluttu þangað en Baddý bjó þar ein þar til í ágúst 2023 er hún flutti á Hraunbúðir, þar sem hún bjó síðustu mánuðina.

Baddý var mikil félagsvera og naut þess að tala við fólk, kynnast því og fræðast um hagi þess og ætterni. Hún þekkti marga og var mannglögg. Það kom sér vel í störfum hennar fyrir Fylki, blað Sjálfstæðismanna í Eyjum, en hún sá um þáttinn Látnir kvaddir í jólablaði Fylkis í 35 ár og lét af þeim störfum í lok árs 2023.

Útför Bjarneyjar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 11. maí 2024, klukkan 14. Streymt verður frá útförinni á vef Landakirkju, www.landakirkja.is/.

Elskuleg móðir mín kvaddi þennan heim að morgni 24. apríl sl. Vorið var að vakna eftir kaldan vetur og fuglasöngurinn allsráðandi fyrir utan gluggann þegar lífsneisti hennar slokknaði og hún flaug á vængjum vorsins í sumarlandið.

Hún hafði hugsað um sig sjálf að mestu leyti í sinni eigin íbúð í Eyjum, en dvaldi síðustu níu mánuði á Dvalarheimilinu Hraunbúðum við gott atlæti, þar fór hún í hárgreiðslu í hverri viku og passaði upp á að vera snyrtileg og fín.

Mamma gekk alltaf undir nafninu Baddý frá Ólafshúsum, en hennar æskuheimili fór undir ösku í Eyja-gosinu 1973. Foreldrar mínir bjuggu lengst af í Eyjum og einnig á Selfossi, þar sem ég og mín fjölskylda eigum heimili. Ég er óendanlega þakklát fyrir þau ár sem mamma og pabbi bjuggu hér í návist við mína fjölskyldu, en Eyjarnar toguðu stíft í elsku mömmu og síðustu átta árin bjó hún þar í fallegri íbúð sem hún keypti sér eftir andlát pabba.

Mamma hafði gott skap og sópaði að sér vinum, sérstaklega ungu fólki og þurfti hún að vita allt um þau enda var hún mjög fróðleiksfús eins og hún orðaði það. Þegar hún vann á matstofunni í Vinnslustöðinni á árunum áður var hún kölluð mamma af fjölda ungs fólks sem dvaldi þar í verbúðunum og var gleðin ætíð við völd á matstofunni þar sem eldað var ofan í fjölda fólks sem kom til Eyja í fiskvinnslu. Hún vann einnig lengi á Tanganum þar sem hún útbjó mat sem seldur var í hádeginu og varð hún vinsælust fyrir góðu fiskibollurnar sem hún útbjó af mikilli natni.

Við Kiddi áttum því láni að fagna að ferðast mikið með foreldrum mínum, þá sérstaklega innanlands og var ætíð gist í tjöldum, en ein góð ferð var farin til Spánar með þeim. Mamma elskaði barnabörnin og langömmubörnin sín, þegar komið var í heimsókn til hennar var pönnukökupannan aldrei langt undan, einnig var hún meistari í flatkökubakstri og enginn mátti fara svangur úr hennar húsi.

Þegar foreldrar mínir bjuggu í Eyjum var vinsælt að dvelja hjá þeim á þjóðhátíð og vorum við ætíð velkomin með dætur okkar og einnig vini sem okkur fylgdu. Seinni árin voru það dætur okkar sem fengu að leggja undir sig kjallarann á Illugagötunni og fengu þá vinir þeirra einnig að fljóta með og svo var auðvitað grillað í allan mannskapinn áður en haldið var í dalinn. Ég man sérstaklega eftir einni þjóðhátíð, þar sem rigndi eldi og brennisteini alla hátíðina. Þegar ungmennin komu heim um morguninn var nú bara farið úr göllunum án þess að hirða um hvernig þeir myndu líta út daginn eftir, en þau vissu sem var; þegar þau vöknuðu seinna um daginn voru mamma og pabbi búin að hengja upp og þrífa allan fatnaðinn, svo mannskapurinn var klár í dalinn fyrir næsta kvöld.

Ég kveð elsku mömmu með söknuði og þakka öll árin sem við fengum að njóta hennar.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Erla og Kristinn (Kiddi).

Í þann mund er veturinn var að kveðja og vorið byrjað að blaka vængjum sínum sló mamma sinn síðasta takt í lífinu. Hún sofnaði vært og flaug inn á nýjar ókunnar víddir eilífðarinnar. Ég sat hjá mömmu aðfaranótt síðasta vetrardags og hlustaði á taktfastan andardráttinn, sem hljómaði í eyrum mínum eins og falleg sinfónía lífs hennar, sem vitað var að yrði á endastöð innan tíðar. Að morgni nýs dags var síðasti takturinn skyndilega sleginn og allt varð hljótt. Fallegri sinfóníu lífs hennar var lokið. Þögnin og tómið helltist yfir.

Mamma var yndisleg kona, klettur og skjól alla tíð, sem hugsaði vel um alla sem nálægt henni voru. Henni var í raun annt um alla og vildi öllum vel. Hún hafði það líklega í genunum frá foreldrum sínum í Ólafshúsum og var lík þeim báðum á marga vegu. Það var dugnaður og þrautseigja í henni og hún var sjaldnast á því að gefast upp á því sem hugurinn stefndi að. Það var ekkert gefið eftir og henni lét illa að láta bakverki, magaverki eða aðra smámuni stöðva sig í því að sinna því sem hún ætlaði sér.

Það varð að baka a.m.k. 35 flatkökur vikulega. Pönnukökudeig varð að vera til og auðvitað rjómi, rækjusalat, hveitibrauð, randalínur og svo smákökur um allar stórhátíðar. Þannig var það alla tíð og alveg fram yfir nírætt. Hún hafði eiginlega ekki orðið heilsu í allt það sem hún framkvæmdi á þessu sviði síðustu tvö árin, eða jafnvel lengur, en hún gerði það samt. „Ég lagast bara við að gera eitthvað. Ég er enginn aumingi,“ var svarið við athugasemdum um framkvæmdagleði hennar í eldhúsinu. Það var mikil seigla í henni og uppgjöf ekki til. Hún sagði stundum sjálf að „Ólafshúsþrjóskan“ eins og hún kallaði það kæmi sér stundum vel, og brosti um leið.

Mamma var hjartahlý og brosmild. Gat verið stíf á meiningunni en ljúflingur var hún og vildi öllum vel. Okkar samband í gegnum lífið hefur alltaf verið ákaflega gott, náið og traust og ég held að okkur hafi bara aldrei orðið sundurorða. Mjög oft sammála, en þó ekki alltaf, en alltaf sátt og sæl. Miklir vinir alla tíð. Við áttum vel saman, vorum lík í skapferli, hæfilega kærulaus, hörð ef þurfti en meyr inn við beinið.

Síðustu árin hafa samskiptin og samveran verið enn meiri en fyrr. Mamma var alltaf þakklát fyrir allt sem fyrir hana var gert. Með bros á vör og kvartaði lítið þó að verkir og kvillar trufluðu hana. Hún brosti sínu blíðasta og barðist áfram. Gerði allt sem hún möguleg gat og stundum talsvert meira.

Það verður tóm í tilverunni í Eyjum að fara ekki að kíkja á mömmu nokkrum sinnum á dag, eins og verið hefur síðustu árin, en minningin um trausta, góða, blíða og hlýja mömmu mun fylla það tóm.

Við þökkum fyrir að hafa fengið svo mörg gjafarík og góð ár með elsku mömmu og trúum því og treystum að hún dansi nú í óravíddum eilífðarinnar með pabba, mömmu sinni og öllum þeim sem hún leitaði ákaft að síðustu dagana fyrir brottförina og víst er að það verður ekki skortur á flatkökum, pönnsum eða öðrum veitingum í þeim víddum sem hún ferðast um.

Takk fyrir allt, elsku mamma.

Góður Guð geymi þig.

Grímur.

Komin er kveðjustund. Í dag kveðjum við Baddý, elskulega tengdamóður mína, sem lést á 93. aldursári eftir skammvinn veikindi. Við Baddý urðum frá fyrstu kynnum miklar og góðar vinkonur og sú trausta vinátta og væntumþykja varði alla tíð og efldist með tímanum.

Við vörðum miklum tíma saman síðustu árin og dvöl okkar í Eyjum hvert sinn snerist að stórum hluta um að eyða tíma með Baddý. Fara með henni í bæinn að versla, þiggja hjá henni kaffisopa og auðvitað meðlæti, því annað var ekki vel séð, eða taka hana heim til okkar í mat.

Baddý tók alla tíð vel á móti mér, gaf frá sér einstaka hlýja og góða strauma. Var brosmild, glöð og ákaflega geðgóð. Yndisleg manneskja. Full af kærleik, umhyggju og ást til allra og ákaflega þakklát fyrir allt sem fyrir hana var gert.

Baddý elskaði að vera í eldhúsinu. Það var hennar staður. Hún var alltaf tilbúin með veitingar ef einhver kom til hennar. Nýbakað brauð og kökur. Pönnukökudeig í ísskápnum og pannan komin á eldavélina um leið og einhver kom, sama hvað klukkan var. Þeyttur rjómi og rækjusalat og svo auðvitað flatkökur. Þetta var staðalbúnaður í eldhúsinu hjá Baddý auk ýmissa annarra kræsinga og það er alveg ljóst að það fór aldrei neinn svangur úr húsi hjá tengdamömmu.

Baddý var alltaf fín og vel tilhöfð. Lagði mikið upp úr því að vera í fallegum og nýjum fötum. Fylgja tískunni, eins og hún sagði oft sjálf. Hún fór í hárgreiðslu í hverri viku því að henni fannst mikilvægt að vera fín, enda var hún glæsileg kona allt fram til síðasta dags. Hún fór meira að segja í hárgreiðslu 10 dögum fyrir andlátið, þó að kraftarnir væru ekki miklir og hún orðin rúmliggjandi fannst henni mikilvægt að láta laga hárið til.

Baddý tók mér svo vel þegar ég kom inn í fjölskyldu hennar og lét mig strax finna að ég og mín börn, sem ég átti fyrir, værum öll velkomin inn í sitt líf. Mér þótti svo fallegt og vænt um það þegar hún sagði að hún vildi að börnin mín og barnabörn myndu bara kalla hana ömmu Baddý.

Það er skrýtið að skrifa minningarorð um þá sem eru manni kærir og nánir og því fylgir söknuður og tregi en minningin um einstaka tengdamömmu yljar mér um hjartarætur og ég get ekki annað en brosað þegar ég hugsa til allra þeirra góðu minninga sem ég á um elsku Baddý.

Nú er ferðalagi Baddý á þessari jörð lokið en ég veit að Gísli þinn hefur tekið vel á móti þér í Sumarlandinu.

Takk fyrir allt, elsku Baddý.

Þín tengdadóttir,

Guðrún.

Elsku amma, það er ótrúlegt að átta sig á hvernig hringrás lífsins er óumflýjanleg. Að skrifa minningarorð um þig, manneskju sem manni finnst að eigi alltaf að vera til í lífi manns, er sérstakt en hugsunin um þig hlýjar mér í hjarta. Amma Baddý var nefnilega skólabókardæmi um ömmu. Hún var amman sem var alltaf klár með pönnukökur, alltaf tilbúin að spila, alltaf tilbúin að segja sögur frá því í gamla daga og alltaf tilbúin að vera til staðar.

Þegar ég hugsa til baka er svo ótrúlega margt hversdagslegt sem mér þykir svo vænt um í fari ömmu. Hvernig hún lagaði hafragraut á morgnana fyrir sig og afa og þau tóku inn vítamín og lyf með því að setja töflurnar í skeið með hafragraut. Hvernig Rás 1 ómaði oft í lágum dúr í útvarpinu. Hvernig amma lagði á borð og upprúllaðar pönnukökur voru alltaf á sama fatinu.

Þegar amma og afi bjuggu á Illugagötunni var ég þar mjög mikið sem barn og á mikið af fallegum minningum en líka flóknum minningum vegna þess að amma var alltaf til staðar þegar eitthvað bjátaði á.

Ég man þegar við Erna vorum hjá ykkur að borða rabarbaragraut og síminn hringdi 15. september og okkur var sagt að við værum búin að eignast lítinn bróðir. Ég man þegar þú huggaðir mig og lagaðir fánann sem ég braut á fótboltaleik. Ég man hvernig gestrisni ykkar afa fyllti húsið ykkar hverja Þjóðhátíð af gleði og glaum (og ég fékk alltaf að vera í pössun). Ég man hvernig þú veittir okkur umhyggju og skjól þegar upp komu erfiðir tímar í fjölskyldunni og ég man heldur betur eftir því sjö ára gamall þegar við áttum samtal um lífið og dauðann og þú sagðir að einn daginn mynduð þú og afi deyja. Ég hugsaði mig um í smástund og spurði í barnslegri einlægni: „Amma, fæ ég þá lampann?“

Það sem mér hefur alltaf þótt svo vænt um er hversu góðir vinir við höfum alltaf verið. Þú varst alltaf jafn glöð og hrifin að sjá mig labba inn um dyrnar og koma í heimsókn. Líkt og að þú hefðir alltaf verið að bíða eftir að ég kæmi. Hvernig þú kenndir mér allt sem þú kunnir, hvort sem það var að hræra í deigi, fletja út flatkökur eða spila marías.

Ég er svo þakklátur fyrir að hafa fengið að ganga með þér svo lengi í mínu lífi og að þú hafir fengið að hitta son minn og hann þig áður en þú kvaddir okkur á síðasta vetrardag.

Lífshlaup þitt er svo sannarlega fagnaðarefni og gleði þín og hlátur er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Ég lofa að segja börnum mínum allar sögurnar mínar um þig og okkur og monta mig af því að þau muni aldrei smakka jafn góðar pönnukökur og ég fékk hjá ömmu minni. Ef ég næ að verða fyrir mínum barnabörnum allt sem þú varst fyrir mér þá hef ég skorað ansi hátt í leik lífsins. Ég elska þig, amma Baddý, og takk fyrir allt sem þú gafst mér. Einn daginn mun ég knúsa ykkur afa aftur en þá verð ég búinn að sjá til þess að lampinn fari í öruggar hendur.

Gísli Grímsson.

Elsku amma Baddý, ég samdi eftirfarandi til þín:

Elsku amma Baddý, nú hvílir þú í ró.

Þú varst svo ljúf og fyndin,

að bröndurunum þínum ég hló.

Fallegu björtu blómin þú minntir
mig á,

þitt ljúfa blíða bros alltaf ég sá.

Þínar pönnukökur voru heimsins bestar,

ég hámaði þær í mig, langflestar.

Mikið mun ég sakna spilastundanna með þér,

ó hvað ég væri til í að þú værir ennþá hér.

Nú dansar þú við afa í fallegu sumarlandi.

Ég kveð þig með sorg í hjarta

en himinninn er blómstrandi.

Elsku amma Baddý

þú varst besta amma mín,

ég veit þér líður núna vel

en ég mun alltaf sakna þín.

Guð geymi þig, elsku amma Baddý.

Andrea Líf.

Lyktin af nýbökuðum pönnukökum mætti mér oftast þegar ég kom til ömmu Baddýjar, amma stóð í eldhúsinu í essinu sínu og tilbúin að reiða fram kræsingar ef gestir kíktu við. Hún tók ekki annað í mál en að allir færu saddir frá henni. Amma var myndarleg húsmóðir, heimilið alltaf nýpússað með Mr. Sheen, heimabakaðar kræsingar á borðum og handverk sem hún hafði gert prýddi heimilið. Það var ekkert sem amma gat ekki gert í höndunum eða lagað ef þess þurfti og gaf hún mér alls konar handverk sem ég held mikið upp á. Amma var snillingur í eldhúsinu og hvort sem það var sunnudagshryggur eða fiskibollur þá var allt gott sem hún eldaði. Þegar ég byrjaði að búa voru ófá símtölin til ömmu um kvöldmatarleytið. Afi sagði við ömmu þegar síminn hringdi rétt fyrir kvöldmat: „Núna hringir Kristín Inga til að fá ráð við eldamennskuna.“

Heimsóknir til ömmu og afa voru tíðar, það var gott að koma til þeirra, þau gáfu mér mikinn tíma og minningarnar með þeim óteljandi. Ferðirnar í kartöflugarðinn, leit að hreiðrum, göngutúrar um eyjuna, ferðalögin, útilegurnar og leikhúsferð á Ellý. Amma Baddý var einstök amma, hún sinnti mér af mikilli natni, hlýju og þolinmæði og kenndi mér margt. Ömmu fannst gaman að spila og við spiluðum oft saman. Það var eftirminnilegt þegar ég var fimm ára að spila Svarta-Pétur við hana. Ég tapaði og amma setti „sót“ á nefið á mér, ég var mjög tapsár, henti spilunum í ömmu og rauk grátandi í burtu. Hún kom á eftir mér og sagði ákveðin: „Kristín Inga, ég spila ekki við þá sem eru tapsárir, það þarf bæði að kunna að vinna og tapa.“ Ég held að ég hafi lært þá strax að vera ekki tapsár í spilum. Við barnabörnin máttum brasa alls konar hjá ömmu og henni fannst aldrei of mikið vesen á okkur, sama hvort við tíndum út allt útilegudótið í kjallaranum í leik, tjölduðum í stofunni með afa eða bökuðum með henni, þolinmæðin alltaf 100% hjá ömmu.

Við amma vorum miklar vinkonur og gátum talað saman um allt milli himins og jarðar. Amma hafði mikinn áhuga á því sem ég var að gera, hún var alltaf einlæg í samtölum okkar og hikaði ekkert við að segja skoðun sína á hlutunum. Ég er heppin að hafa átt ömmu að í rúm 45 ár, ég er endalaust þakklát fyrir allar samverustundirnar okkar og símtölin og á eftir að sakna þeirra mikið. Amma var brosmild, kát, hlý, góð og hafði gaman af lífinu. Svo gaf hún bestu faðmlögin. Amma hugsaði líka alltaf vel um sig og var alltaf svo fín og sæt. Amma er algjör fyrirmynd í ömmuhlutverkinu og ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa átt bestu ömmuna. Stelpurnar mínar minnast ömmu með hlýju og þakklæti fyrir allt og sakna þess að eiga ekki eftir að fá ömmufaðmlag og bestu pönnukökurnar.

Minningin um ömmu Baddý mun lifa í hjarta mér um ókomna tíð, ég mun halda áfram að baka pönnukökurnar hennar, segja sögur af henni og taka með mér allt það góða sem hún kenndi mér.

Ég bið góðan guð að geyma elsku ömmu Baddý og gefa pabba, Erlu og okkur fjölskyldunni styrk í sorginni.

Þar til við hittumst aftur, takk fyrir allt. Ég elska þig.

Þín

Kristín Inga.

Mér finnst þetta erfitt. Það kemur eiginlega á óvart hversu sorgmædd ég er búin að vera. Ég elskaði auðvitað ömmu innilega. En hún var orðin fullorðin og ég er orðin fullorðin, þannig að ég hélt að þetta yrði einhvern veginn auðveldara og ég væri betur undir það búin. En ég er bara búin að vera pínulítil, álíka stór og þegar ég var alltaf í pössun hjá ömmu og afa. Þau voru algjörlega frábær amma og afi, einstaklega natin og dugleg að sinna okkur, og kenndu okkur margt.

Ég á svo mikið af dýrmætum minningum með þeim úr æsku. Í leit að hreiðrum úti á hrauni með nesti í för, í kartöflugarðinum, að spila, læra að hjóla, baka saman, borða pönnukökur, gista á dýnu á gólfinu, búa til grímubúninga, hlusta á sögur, vera Rósin, fá huggun þegar ég var leið og hvatningu í öllu sem ég gerði. Seinni ár eru minningarnar um góðar samverustundir og spjall, og að sjá hversu yndisleg hún var við börnin mín, líkt og hún var við mig.

Amma Baddý var einstök kona, hún var svo blíð og góð og vildi allt fyrir aðra gera. Hún var glaðvær, hafði góða nærveru og það var svo notalegt að vera hjá henni. Hún var hrikalega dugleg, var alltaf vel tilhöfð og allt fínt í kringum hana. Hún var vel gefin, mannglögg og hafði áhuga á fólki. Hún var flink í handavinnu og allt sem hún útbjó var svo fallegt. Hún bjó til góðan mat og langbesta bakkelsið. En hún var best í að vera amma.

Ég get fundið lyktina af pönnukökunum og uppáhelltu kaffinu, heyri röddina í henni, sé brosið hennar og finn fyrir hlýja faðmlaginu hennar þegar ég hugsa til hennar og verður hlýtt í hjartanu. Ég er svo innilega þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hana svona lengi, en jafnframt svo sorgmædd yfir því að hún sé farin. Elsku besta amma Baddý, takk fyrir að vera alltaf best, þú munt alltaf eiga risastóran part í mér.

Þín

Erna Ósk.

Elsku amma Baddý, það er nú frekar skrítið að vera að skrifa þessa minningargrein um þig, á annan bóginn langar mig að skrifa langan texta til þín en á hinn bóginn langar mig ekkert að þurfa að skrifa hann. En þannig er víst lífið.

Þegar ég lít til baka þá er örugglega ein af mínum fyrstu minningum frá Illugagötunni hjá þér og Afa. Ég að mála með vatn í fötunni, hlaupandi inn til að fá launin sem svo duglegur vinnumaður átti skilið og jú, auðvitað var ilmur af nýbökuðum pönnukökum sem tók á móti manni. Það skipti ekki máli hvenær maður kom í heimsókn, hvort sem það var um hádegi eða að kvöldi, þá var ekkert annað í boði en að þiggja kræsingar, hvort sem það voru pönnukökur, nýgert rækjusalat eða ísblóm. Jafnvel síðustu ár, þegar líkaminn var farinn að kvarta, var búið að rífa upp pönnukökupönnuna þegar maður rak inn nefið og jafnvel þótt þú ættir erfitt með að standa upp var það eins og að horfa á Michelangelo mála þegar þú fórst að snúa pönnukökunum. Og ekki nóg með það að þú bakaðir ofan í mann hægri vinstri, heldur dróstu fram spilastokkinn og spilaðir við mann í marga tíma þegar maður var búinn að éta sig á gat. Ég er nú reyndar enn staðfastur á því að þú hafir svindlað á mér allavegana einu sinni í marías, þegar þú sýndir stóra blankkort, og reyndar þegar ég heyrði söguna um hvernig þið afi dönsuðuð í ásadansinum varð ég nú enn vissari í minni sök. En ég fæ víst ekki að hefna mín alveg strax. Í hvert skipti sem maður kom í heimsókn heyrði maður um leið „nei, ert þetta þú, vinurinn?“ og maður fann hlýjuna og gleðina fylla rýmið. Það er nefnilega það, jæja, elsku amma, ég held að ég láti þetta nægja og segi nú bara í síðasta skiptið í bili: og góða nótt!

Huginn Sær Grímsson.

Sorg, söknuður og þakklæti eru tilfinningar sem hrærast saman nú þegar við kveðjum elsku Baddý okkar. Sorg og söknuður yfir því að fá aldrei aftur að hitta hana og þakklæti fyrir allt sem hún gaf af sér.

Þegar við Ponni minn fórum að stinga saman nefjum ósköp ung, eignaðist ég ekki bara eina tengdaforeldra heldur tvö pör. Það var mikið ríkidæmi. Ponni var nefnilega „uppeldið“ þeirra Baddýjar og Gísla. Eins vetrar „uppeldi“ getur enst út allt lífið. Haustið 1971 settist ungi pilturinn á skólabekk í Vélskóla Vestmannaeyja og fékk að dvelja hjá frændfólkinu í Eyjum. Honum var tekið fagnandi og hann umvafinn elskusemi, væntumþykju og gleði. Frá fyrsta degi varð hann „uppeldið“ þeirra. Dagarnir einkenndust af hlýju og endalausri gleði. Bras í skúrnum með Gísla, traust og hlýja í eldhúsinu hjá Baddý. Grímur smá snáði sem litli bróðir og Erla komin á löglegan aldur á böllin í Samkomuhúsinu um helgar. Að smella svona áreynslulaust inn í fjölskyldu er ekki sjálfgefið og verður aldrei fullþakkað. Vináttan og umhyggjan hélst áfram þrátt fyrir gos og alls konar breytingar. Síðustu árin kom Baddý varla á Selfoss án þessa að koma í heimsókn til okkar. Í gegnum þessar heimsóknir og símtöl við Ponna fylgdist hún með okkar lífi og lífi krakkanna okkar, sem langaði til að mega kalla hana ömmu. Alltaf áhugasöm, hlý og kát.

Innilegar samúðarkveðjur, elsku Erla, Grímur og fjölskyldurnar ykkar. Minningarnar geymast sem perlur á bandi.

Ragnhildur og
Árni (Ponni).

hinsta kveðja

Elsku amma Baddý, þetta var síðasta lagið sem við sungum fyrir þig:

Blinka, lilla stjärna där,

hur jag undrar vad du är.

Fjärran lockar du min syn,

lik en diamant i skyn.

Blinka, lilla stjärna där,

hur jag undrar vad du är

(Leiftra, leiftra stjarna smá,

stari’ ég hljóður log þitt á,

hátt á lofti, laus við ský,

líkt og demant geimnum í.)

Takk fyrir að vera alltaf svona góð og baka pönnukökur og gefa okkur þúsundkall. Bless elsku amma Baddý, við elskum þig.

Þín

Katla Sif og Tumi Sær.