Blindur Ljósvaki komst ekki á samfélagsmiðla.
Blindur Ljósvaki komst ekki á samfélagsmiðla. — AFP/Lionel Bonaventura
Eins og ég hef áður greint frá hér á dagskrársíðum Morgunblaðsins þá á ég í eins konar ástar-/haturssambandi við snjallsímann minn. Ég gekkst undir laser-aðgerð á augum um daginn. Linsurnar, sem ég hef stuðst við undanfarin ár og hafa án gríns…

Bjarni Helgason

Eins og ég hef áður greint frá hér á dagskrársíðum Morgunblaðsins þá á ég í eins konar ástar-/haturssambandi við snjallsímann minn. Ég gekkst undir laser-aðgerð á augum um daginn. Linsurnar, sem ég hef stuðst við undanfarin ár og hafa án gríns bjargað geðheilsunni þegar ég er að gera eitthvað misgáfulegt úti á víðavangi, voru farnar að bregðast mér og því kom ekkert annað til greina en að skella sér í laser. Reyndar stóð mér það líka til boða að ganga sáttur frá öllum áhugamálum mínum, ekki orðinn fertugur, og að setjast þannig séð í helgan stein en ég tel mig ennþá eiga fullt erindi í þau jaðarsport sem ég kýs að stunda. Allavega. Sjónin er hægt og rólega að koma til baka en fyrstu dagana eftir aðgerðina var mér bæði illt í augunum og ofan á það var ég hálfblindur. Ég var allavega það blindur að ég sá ekkert á símann minn. Ég sá ekki heldur á sjónvarpið. Þá voru góð ráð dýr. Ég keypti mér áskrift að Storytel og eyddi því síðustu viku með lappirnar upp í loft að hlusta á hljóðbækur. Bestu dagar sem ég hef upplifað að mörgu leyti. Ekkert áreiti, sá engin númer eða nöfn á símanum og ákvað þess vegna að svara ekkert í símann. Það besta af öllu voru samt engir samfélagsmiðlar. Það var ekkert eðlilega næs að fá pásu frá þeim. Ég mæli svo sannarlega með!