40 ára Sigurjón ólst upp í Skerjafirði og Vesturbænum í Reykjavík en býr í Kópavogi. Hann lærði klarínettuleik í Konunglega tónlistarskólanum í Stokkhólmi og Ecole Normale de Musique í París, en í vor lýkur hann meistaranámi í heimspeki frá HÍ

40 ára Sigurjón ólst upp í Skerjafirði og Vesturbænum í Reykjavík en býr í Kópavogi. Hann lærði klarínettuleik í Konunglega tónlistarskólanum í Stokkhólmi og Ecole Normale de Musique í París, en í vor lýkur hann meistaranámi í heimspeki frá HÍ. Sigurjón er rithöfundur og hefur gefið út þrjár skáldsögur: Hendingskast (2015), Óbundið slitlag (2018) og Umbrot (2023).

Tónlist og bókmenntir hafa skipað stærstan sess í lífi Sigurjóns, en hann hefur starfað sem tónlistarkennari og bókavörður. Hann kemur úr fjölskyldu listafólks og ólst upp í skapandi umhverfi. „Það mótar mann mikið að alast upp innan um listafólk. Maður verður svolítið sérstæð manneskja. Á leikskóla bað ég um að við myndum syngja O sole mio því mér fannst hin lögin svo barnaleg. Í dag er ég mjög þakklátur fyrir að hafa vaxið úr grasi á listrænu heimili.“

Eftir framhaldsnám í tónlist erlendis starfaði Sigurjón sem tónlistarmaður á Íslandi, en síðustu ár hafa ritstörfin átt hug hans allan. Hann hefur einnig stundað nám í heimspeki. „Ég hafði svo mikinn áhuga. Heimspekin leiðir huga manns að hlutum sem þykja kannski sjálfsagðir við fyrstu sýn en reynast síðan alls ekki vera það þegar betur er að gáð. Mér fannst að ég yrði að kynna mér þetta betur, ætlaði fyrst að skrá mig í einn áfanga, en skyndilega er ég við það að ljúka mastersnámi.“

Sigurjón fæddist í Amsterdam, þar sem foreldrar hans voru þá í námi, og bjó auk þess lengi erlendis. Hann segist samt kunna best við sig á æskuslóðum í Reykjavík. „Það er eitthvað kunnuglegt við hverfin og göturnar. Ég hef sterkar taugar til þessara staða þar sem maður á góðar minningar.“

Fjölskylda Sambýliskona Sigurjóns er Eva Kristinsdóttir, f. 1984, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg. Foreldrar Sigurjóns eru Daði Guðbjörnsson, f. 1954, listmálari, búsettur í Reykjavík, og Guðbjörg Sigurjónsdóttir, f. 1946, stofnandi Söngskóla Sigurðar Demetz, skólastjóri og píanóleikari, búsett í Reykjavík. Systir Sigurjóns er Inga Þórey Jóhannsdóttir, f. 1966, myndlistarkona.