Guðrún Oddsdóttir
Guðrún Oddsdóttir
Við hjónin viljum sjá mann eins og Arnar Þór á Bessastöðum og hans trúuðu fjölskyldu.

Guðrún Oddsdóttir

Við hjónin biðum spennt eftir kappræðum forsetaframbjóðendanna og mörg voru framboðin – úr nógu að velja. Ekki getum við sagt að margir úr þessum fríða hópi hafi heillað okkur, en nóg var samt talað og margt um allt og ekkert. Spyrlarnir báðu fólkið að vera fljótt að svara, en sumir þurftu langan tíma til að sanna ágæti sitt. Einn var sá maður, sem bar af í allri framkomu og svaraði skýrt og skorinort. Það var Arnar Þór Jónsson. Hann bar af að okkar dómi, en fékk fæstar spurningar til að svara. Ég fór að velta því fyrir mér hvers vegna það gæti verið og komst að því að það væri hans kristna trú sem stæði þar að baki. Eins og við vitum er trúin á undanhaldi hjá þessari þjóð þótt hún þurfi aldrei meira á henni að halda en einmitt núna. „Gakk öruggur rakleitt mót ástríðuher, en ætíð haf Drottin í verki með þér.“

Við hjónin viljum sjá mann eins og Arnar Þór á Bessastöðum og hans trúuðu fjölskyldu. Ég bið Guð að blessa hann og stóru fjölskylduna hans, og skora á alla að leggja honum lið. Alla, sem vilja landinu sínu allt hið besta.

Höfundur er eldri borgari.