Lóðir Vigdís Hauksdóttir segir mikið tap hljótast af samningnum.
Lóðir Vigdís Hauksdóttir segir mikið tap hljótast af samningnum. — Morgunblaðið/Eggert
Kári Freyr Kristinsson karifreyr@mbl.is „Það eru miklu fleiri spurningar sem vakna en þau svör sem maður getur fengið í öllu þessu máli,“ segir Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Miðflokksins, spurð um afstöðu sína til lóðarleigusamninga Reykjavíkurborgar og olíufélaganna.

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

„Það eru miklu fleiri spurningar sem vakna en þau svör sem maður getur fengið í öllu þessu máli,“ segir Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Miðflokksins, spurð um afstöðu sína til lóðarleigusamninga Reykjavíkurborgar og olíufélaganna.

Vigdís var gagnrýnin á samninginn í sinni tíð í borgarstjórn og birti í gær hluta af erindisbréfi samninganefndar borgarinnar á facebook-síðu sinni.

„Það var ótrúlega skrýtið hvað meirihlutinn barðist gegn því að við fengjum fundargerðir,“ segir Vigdís.

Vigdís bendir í færslu sinni á samningsákvæði, sem kveður á um að ef nýtt deiliskipulag eða samningar um uppbyggingu takast ekki innan tveggja ára mun uppgjör og viðskilnaður borgarinnar vera samkvæmt fyrri samningi. „Það er ekki farið að byggja upp á neinni lóð og eftir því sem ég best veit er ekki búið að koma neinni af lóðunum í gegnum skipulagsferli,“ segir Vigdís. „Þá situr eftir spurningin hvað er búið að gerast frá því ég hætti í borgarstjórn.“

Einungis eitt svar

Vigdís segir að borgin hafi haft allan réttinn í samningsstöðunni. Það geri það erfiðara að átta sig á því hvers vegna þessi leið var farin.
Aðspurð segir hún einungis eitt svar við því af hverju þessi leið var valin umfram aðrar.

„Það var tekin ákvörðun um að Reykvíkingar myndu bera kostnað við orkuskiptin og minnkandi olíu- og bensínsölu hjá olíufélögunum með því að gera þeim kleift að breyta sér í fjárfestingar- og fasteignafélög á þeim grunni að varan sem þeir voru að selja hefði orðið fyrir minnkandi eftirspurn.“

Hún segir kaldhæðnislegt að markmiðið hafi upphaflega verið að fækka bensínstöðvum í Reykjavík. „Á sama tíma og Reykjavíkurborg gefur olíufélögunum allan byggingarrétt og hlunnindi sem hljótast af samningnum gefur hún þeim nýjar lóðir til að setja undir nýjar bensínstöðvar.“ Tapið sé enn meira þegar litið er til þess.

„Þetta er bara hluti eitt af þremur. Þess vegna er samningurinn farinn að skipta tugum milljarða þegar allt er komið til framkvæmda.“

Höf.: Kári Freyr Kristinsson