Sýnileiki Frá Gleðigöngunni árið 2019. Gleðigangan, Gay Pride, varð fljótlega fjölmennasta útihátíð landsins og mikil fagnaðarhátíð hinsegin samfélagsins.
Sýnileiki Frá Gleðigöngunni árið 2019. Gleðigangan, Gay Pride, varð fljótlega fjölmennasta útihátíð landsins og mikil fagnaðarhátíð hinsegin samfélagsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Upphaf Gay Pride Frelsisdagur homma og lesbía, Christopher Street Day, er haldinn hátíðlegur til minningar um uppreisnina á Stonewallkránni 27. júní 1969. Hans var fyrst minnst á Íslandi 1982 með því að sex manns úr Samtökunum ’78 dreifðu flugritum á Ingólfstorgi

Upphaf Gay Pride

Frelsisdagur homma og lesbía, Christopher Street Day, er haldinn hátíðlegur til minningar um uppreisnina á Stonewallkránni 27. júní 1969. Hans var fyrst minnst á Íslandi 1982 með því að sex manns úr Samtökunum ’78 dreifðu flugritum á Ingólfstorgi. Næst voru haldnar kröfugöngur með mótmælaspjöld frá Samtakahúsinu á Lindargötu 1993 og 1994 og þar mættu um 70 manns. Síðan lágu hátíðahöld niðri þangað til frelsi var aftur fagnað með Gay Pride í lok júní 1999.

Allt frá árinu 1986 hafði karlmannaklúbburinn MSC Ísland haldið mót á sumrin og fengið marga gesti og á páskum 1998 komu fimmtíu gestir að utan á fimm daga hátíð sem tókst vel. Reynslan sýndi að gay fólk hafði áhuga á að koma til Íslands. Um haustið var komið að því að tilkynna Evrópusambandi klúbbanna um mót MSC næsta ár og þá var rætt hvernig hægt yrði að halda sæmilega hátíð 1999. Félagi í klúbbnum, virtur kaupmaður, lagði þá til að mótið yrði haldið í lok júní og reynt yrði að fá önnur gay félög til að standa saman að veglegri hátíð og halda hana sem næst frelsisdeginum. Tillögunni var vel tekið og rætt við önnur félög sem tóku vel í hugmyndina. Þann 28. janúar 1999 sendi ritari klúbbsins Samtökunum ’78 bréf og leitaði formlega samvinnu um þessi hátíðahöld og mætti síðan á aðalfund Samtakanna og las upp bréfið. Fulltrúar frá Samtökunum, MSC Ísland, Stonewall, félagi sam- og tvíkynhneigðra framhaldsskólanema, FSS, félagi sam- og tvíkynhneigðra stúdenta og Jákvæðum hópi homma komu síðan saman á fund og samþykktu að halda sameiginlega hátíð.

Mjög hæfur maður tók að sér að vera framkvæmdastjóri og haldin var útiskemmtun á Ingólfstorgi í lok júní undir nafninu Gay Pride. Fagnað var þrjátíu ára afmæli uppreisnarinnar á Stonewallkránni og áherslan á sögu hreyfingarinnar mæltist vel fyrir hjá söguþjóðinni. Dagskráin hófst með stuttu ávarpi þingmanns og síðan voru skemmtiatriði. Fyrst var lítill hópur við sviðið, gay fólk af öllu tagi og fólk með börn. Þar kom strax fram sá íslenski háttur að foreldrar komu með börnin sín á gay hátíð og útlendingum þótti skrýtið að sjá litla krakka sitja á sviðsbrúninni með draggdrottningu á sviðinu. Talið er alls hafi rúmlega þúsund manns komið á hátíðina og þótti mikill fjöldi.

Íslensk útgáfa af Gay Pride

Hátíðin 1999 tókst svo vel að öllum þótti sjálfsagt mál halda aftur Gay Pride að ári. Svo stórt fyrirtæki krafðist betra skipulags og stofnað var félag um hátíðarhald í framtíðinni. Strax í september voru fulltrúar gay félaganna boðaðir til fundar í samstarfsnefnd. Allt áhugafólk gat komið á fundina með tillögur og hugmyndir og ekki veitti af því skrautlegar skrúðgöngur voru óþekktar hér á landi svo skipuleggja þurfti gönguna frá grunni. Fjöldi fólks kom á fundina, sumir einu sinni, aðrir oft og nokkrir sátu alla fundi hvert einasta mánudagskvöld allan veturinn og fram í byrjun ágúst.

Útkoman varð íslensk útgáfa af kröfugöngu (Pride March) vestanhafs og frelsisdegi (Chistopher Street Day, CSD) á meginlandi Evrópu. Íslenska útgáfan varð ekki kröfuganga heldur fagnaðarhátíð með menningarviðburðum sem stóð í fjóra daga og hlaut því nafnið Hinsegin dagar, á ensku Different Days eða Öðruvísi dagar. Hugsunin var að þessir dagar væru öðruvísi en aðrir dagar ársins því þessa daga væri gay fólk ekki í baráttu heldur að fagna menningu sinni. Fjögurra daga hátíð Gay Pride voru öðruvísi dagar fyrir gay fólk sem stóð að hátíðinni og fagnaði frelsi, réttindum og menningu en fólkið sjálft var ekki öðruvísi heldur einmitt ekkert öðruvísi en annað fólk.

Fyrsta Gay Pride með Gleðigöngu

Gay Pride hátíðin árið 2000 hófst með opnunarhátíð í Íslensku óperunni í lok maí og haldið var mannréttindaþing í Norræna húsinu í byrjun júlí. Heiðursgestur þar var fræg norsk baráttukona sem minnti á að þrátt fyrir velgengnina mætti ekki gleymast að vera vel á verði því alltaf væri hætta á að andstaðan gæti risið upp aftur og þá kannski í annarri mynd. Þá grunaði engan að niðurrifsöflin kæmu úr eigin röðum.

Aðra helgi í ágúst var svo haldin fjögurra daga hátíð með glæsilegri Gleðigöngu, Gay Parade, frá Hlemmi niður Laugaveg að Ingólfstorgi. Ætlunin var að halda hátíðina sem næst frelsisdeginum en stórir viðburðir voru á hverri helgi í lok júní og allan júlímánuð svo fyrsta lausa helgin var eftir verslunarmannahelgi. Þeir sem mundu fámennar kröfugöngur á árum áður óttuðust að gangan yrði fátækleg og haft var gott bil milli atriða svo gangan sýndist lengri. Lagt var af stað frá Rauðarárstíg og þegar gangan kom fyrir hornið inn á Laugaveg blasti við sjón sem engum hafði hugkvæmst, fimmföld röð fólks á báðum gangstéttum og mannfjöldi svo langt sem augað eygði. Gangan varð líka miklu lengri en búist var við því fjöldi fólks steig inn í gönguna til að sýna samstöðu. Síðan var útiskemmtun á Ingólfstorgi og talið var að um fimmtán þúsund manns hafi verið í bænum.

Sigurganga Gay Pride

Í rúman áratug fögnuðu hommar og lesbíur frelsi og jafnrétti með Gleðigöngu og útiskemmtun undir merkjum Gay Pride sem tókst betur en nokkur þorði að vona. Tugir þúsunda sýndu gay fólki stuðning og hátíðin dró að sér fjölda ferðamanna sem hleyptu lífi í gay menningu á Íslandi.

Fjöldi gay fólks vann mikið starf við að skipuleggja og undirbúa stórkostleg atriði í göngu og á sviði. Í byrjun júlí ár hvert var opnað verkstæði þar sem gay fólk kom saman til vinnu og þar fékk sköpunarkraftur gay hreyfingarinnar útrás sem minnti á gamla daga í Húsinu á sléttunni.

Framkvæmdastjórinn var stórhuga og hafði forgöngu um að auglýsa hátíð fyrir alla með stórum auglýsingum í strætóskýlum í borginni og nágrenni og vönduðu ókeypis dagskrárriti í tímaritsformi sem dreift var um allt land. Hann fékk banka, tryggingafélög og flugfélag til að auglýsa í dagskrárritinu og auglýsingastofur gerðu nýstárlegar auglýsingar sem höfðuðu beint til gay fólks. Drífandi baráttumaður sannfærði veitingahús og verslanir í miðbænum um að það væri þeirra hagur að auglýsa á gay korti af miðbænum með gönguleiðinni því Gay Pride fyllti miðbæinn af fólki.

Gleðigangan og útiskemmtunin gaf fólki gott tækifæri til að sýna stuðning við samkynhneigða með því einu að mæta og fagna og hátíðin varð fjölmennasta útihátíð landsins. Með Gay Pride unnu hommar og lesbíur sinn stærsta sigur og tókst loksins að ná langþráðum sýnileika og útrýma þannig fordómum, fyrirlitningu og andúð á samkynhneigðum sem enn var til í samfélaginu þótt lagalegu jafnrétti væri náð.

Fólk á öllum aldri kom í miðbæinn til að horfa á og fagna og börn voru sérstaklega hrifin af skrautlegum atriðum með hrífandi tónlist. Í ævintýrinu um nýju fötin keisarans kemur fram að börn segja sannleikann og svipta þannig hulunni af hræsni og kjánalegum skoðunum fullorðna fólksins. Félagar í leðurklúbbnum MSC voru litnir hornauga og taldir siðlausir og hættulegir en frægt varð þegar sjónvarpsfólk spurði átta ára stúlku hvaða atriði í göngunni henni þætti skemmtilegast og hún svaraði að bragði: „Leðurhommarnir!“