Vilborg Gunnarsdóttir
Vilborg Gunnarsdóttir
Ég skora á ritstjórn blaðsins að snúa við blaðinu og bjóða fleiri frambjóðendum á fundina.

Vilborg Gunnarsdóttir

Enn eru nokkrar vikur þar til við kjósum næsta forseta Íslands og ljóst að fylgi frambjóðenda er langt í frá orðið ljóst.

Engu að síður hefur hjá Morgunblaðinu verið tekin sú „lýðræðislega“ ákvörðun að veðja aðeins á fjóra frambjóðendur af tólf. Auglýst hefur verið herferð með útvöldum frambjóðendum þar sem Morgunblaðið efnir til funda um landsbyggðina með tilheyrandi umfjöllun og myndbirtingum í kjölfarið.

Ég hélt að sá tími væri liðinn þegar Morgunblaðið birti ekki greinar eftir pólitíska andstæðinga og taldi það á sínum tíma bæði gott og jákvætt skref þegar fólk úr öllum flokkum fékk birtar eftir sig greinar í blaðinu. Allt annar bragur varð á annarri fréttaumfjöllun og traust á því sem stóð á prenti jókst.

Morgunblaðið hefur nú farið áratugi til baka þegar kemur að því að stjórna umræðunni og það fyrir kosningar! Ég hef heyrt frá fjölda fólks sem er svo misboðið að það hefur sagt upp áskrift sinni til allt að sex áratuga!

Það er enn tími til bóta og ég skora hér með á ritstjórn blaðsins að snúa við blaðinu. Bjóðið fleiri frambjóðendum á fundina ykkar og fjallið af sanngirni um það sem við blasir, sem er að fylgið er á fleygiferð – ekki síst núna eftir fyrstu kappræðurnar á RÚV.

Sýnið okkur forsetaframbjóðendurna og hvað þeir standa fyrir. Þannig leggur blaðið sitt af mörkum til að tryggja að næsti forseti Íslands verði forseti fólksins.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri og stuðningsmaður Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda.

Höf.: Vilborg Gunnarsdóttir