Reykholt Ofbeldismál í byggðarlaginu leiddi af sér handtökur og rannsókn.
Reykholt Ofbeldismál í byggðarlaginu leiddi af sér handtökur og rannsókn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Fernt, þrír karlar og ein kona, er í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurlandi á alvarlegu ofbeldisbroti sem átti sér stað í Reykholti í Biskupstungum í lok apríl síðastliðins. Til rannsóknar er meint frelsissvipting, líkamsárás og fjárkúgun

Fernt, þrír karlar og ein kona, er í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurlandi á alvarlegu ofbeldisbroti sem átti sér stað í Reykholti í Biskupstungum í lok apríl síðastliðins. Til rannsóknar er meint frelsissvipting, líkamsárás og fjárkúgun. Varðhaldið sem fólkið sætir var af héraðsdómi framlengt til 24. maí og eru rannsóknarhagsmunir röksemdirnar fyrir því.

Sá er misgjört var við er erlendur ríkisborgari sem hefur verið hér á landi í langan tíma. Allir grunaðir í málinu eru Íslendingar, segir í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi vegna málsins. Rannsókn er í fullum gangi og koma ýmis lögregluembætti að henni svo og héraðssaksóknari.

Fram kom í fréttum í gær að þrjú þeirra sem í haldi eru séu á þrítugsaldri og hið fjórða undir tvítugu.

Þolandinn í málinu er maður um sextugt, sem starfað hefur á garðyrkjustöð í Laugarási í Biskupstungum. Hefur hins vegar leigt húsnæði og búið í Reykholti og mun fólkið, sem á hlut hans gerði, tengjast leigusalanum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.