Sigurður Hermannsson fæddist 16. ágúst 1945. Hann lést 28. apríl 2024.

Útför Sigurðar fór fram 7. maí 2024.

Flugmálastjórn Íslands var afar heppin að fá Sigurð Hermannsson tæknifræðing til starfa sem umdæmisstjóra stofnunarinnar á Norðurlandi árið 1997. Sigurður var Akureyringur í húð og hár, hafði fyrst lokið námi í húsasmíði en síðan orðið tæknifræðingur og stofnandi Verkfræðistofu Norðurlands, þar sem hann vann um áratuga skeið við hvers konar framkvæmdaverkefni í þágu samfélagsins. Hann hafði því einmitt þá menntun og reynslu sem fyrirsjáanlegt var að kæmi að miklum notum við frekari uppbyggingu og rekstur flugvalla á Norðurlandi, ekki hvað síst á Akureyrarflugvelli. Það sem ekki skipti minna máli var að Sigurður var afar heilsteyptur einstaklingur og afar fær í mannlegum samskiptum þar sem hann gekk fram af festu en mikilli rósemi.

Ekki leið á löngu þar til hann hafði náð góðum tökum á stjórn flugvallamála í sínu umdæmi og var orðinn öflugur leiðtogi þess. Allt sem hann tók sér fyrir hendur á því sviði var unnið í góðu samstarfi við flugmálastjóra og aðra pótintáta sunnan heiða. Sigurður kunni vel þá list að vera góður talsmaður síns umdæmis án þess að efna til ósamkomulags við samstarfsmenn sína eða koma þeim í erfiða aðstöðu. Þar kom sér vel að hann hafði mikla reynslu af umfjöllun um málefni samfélagsins. Á þeim vettvangi miðlaði hann af þekkingu sinni á innviðum þjóðfélagsins og lýsti skoðun sinni á hvað hann teldi því fyrir bestu. Sigurður hafði sértakt lag á því í slíkum umræðum að nýta sér gamla og gilda samskiptatækni, sem fólst í að segja stuttar og hnitmiðaðar dæmisögur. Þegar mál voru komin í hnút vegna þess að menn sáu hlutina ekki í sama ljósi greip hann gjarnan til þess að „taka dæmi“. Slík aðferð leiðir gjarnan til þess að umræðan leitar inn á nýjar brautir og verður oft til að létta lundina sérstaklega ef sögumaður kann vel sitt fag.

Sigurður var einstaklega hjálpsamur maður í eðli sínu, sem er afar æskilegur eiginleiki hjá umdæmisstjóra flugvalla stórra og smárra. Ekki sakaði að hann hafði ungur að árum smitast af flugbakteríu, sem í hans ungdæmi var landlæg, ekki síst á Akureyri. Þetta gerði það að verkum að hann var öllum stundum upptekinn af því að aðstoða menn við að sinna flugi hvort sem það var í atvinnuskyni eða sér til ánægju og íþróttar.

Og hann var alltaf á vaktinni að degi og nóttu eins og umdæmisstjórar Flugmálastjórnar voru alla tíð. Hann var sannfærður um að þróttmikið flug væri mikilvægur hluti af velsæld og framtíð þjóðarinnar og lét ekkert eftir liggja til að svo mætti verða.

Mikill sómamaður er nú kvaddur hinstu kveðju. Hafi hann þökk fyrir vináttu, góð samskipti og drjúgt framlag til íslenskra flugmála um árabil á síðari hluta farsællar starfsævi. Fjölskyldu hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur á þessum tímamótum.

Þorgeir Pálsson, fv. flugmálastjóri.