Þóra Unnur Kristinsdóttir fæddist 3. ágúst 1930. Hún lést 29. apríl 2024. Útför hennar fór fram 10. maí 2024.

Þóra vinkona mín hefur yfirgefið þessa jarðvist. Þóra var einn af þeim nemendum Kennaraskóla Íslands sem útskrifuðust árið 1951. Þóra var frá Hólmavík og hóf sinn kennsluferil þar. Hún flutti svo til Reykjavíkur og gerðist kennari í Melaskóla. Það var eftirsótt að fá stöðu í þeim ágæta skóla. Við Þóra urðum strax góðir félagar og héldum sambandi til hinstu stundar. Við sem vorum í þessum árgangi í kennaranámi vorum flest utan af landi. Margir hurfu heim aftur að loknu námi. Þóra var mjög metnaðarfullur kennari og sótti sér framhaldsnám í Noregi í Statens Spesiallærerhögskole. Snerist það nám mjög um málrækt og móðurmálskennslu yngri barna og kennsluleiðbeiningar. Samdi hún ásamt Rannveigu Löve kennslubækur í því skyni og urðu þær nokkrar samtals. 1982 var hún skipuð lektor við Kennaraháskólann. Þóra var mjög traust manneskja og vinaföst. Hún var nákvæm í því sem hún var að gera og lagði áherslu á skýran og vel skiljanlegan málflutning. Starf hennar sem lektors bar góðan árangur og kennaranemar töldu sig mun færari í kennslu móðurmáls eftir að hafa notið tilsagnar Þóru.

Við ræddum oft um kennslumál og alltaf fór ég fróðari og betur að mér eftir þær samræður. Þeim fækkar nú óðum sem útskrifuðust kennarar 1951 en við voru 32 í þeim bekk. Þetta er allt orðið vel fullorðið fólk og því gangur lífsins að það sé að kveðja. Ég er afar þakklátur fyrir samskipti og vináttu okkar Þóru og tel það happ fyrir þjóðina að fá slíka úrvals starfsmenn til kennslustarfa. Kristínu og hennar fjölskyldu sendum við hjónin innilegar samúðarkveðjur.

Kári Arnórsson.

Þóra Kristinsdóttir kennari átti langan og farsælan starfsferil, hæfileikarík í hverju sem var og áhugasöm. Hún byrjaði að kenna í barnaskóla á miðri síðustu öld og lauk lífsstarfinu dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún hafði þá fengið drjúga reynslu af flestu sem fylgdi breytingum í menntamálum yfir fimmtíu ár. Þóra var lengst af leiðandi sérfræðingur á landinu í sérkennslufræðum og lestrarfræðum og brautryðjandi að kenna á þeim sviðum. Áður mótaði hún starf sérkennslu á grunnskólastigi og síðar hafði hún forstöðu í sérkennslufræðum og lestrarfræðum í kennaramenntun. Hún og aðrir byggðu upp nám á þessum sviðum bæði í grunnnámi og í framhaldsnámi. Þóru var margt til lista lagt; hún var öflugur höfundur náms og kennsluefnis fyrir byrjendur í lestri og íslenskukennslu. Námsefni hennar og samhöfunda er löngu orðið klassískt í skólastarfi, sívinsælt og gagnreynt. Þóra hélt einnig í áraraðir námskeið í flestum grunnskólum landsins fyrir kennara í byrjendakennslu. Þóra Kristinsdóttir var ótvíræður frumkvöðull á sínu sviði; traust og vönduð í öllum verkum og í samstarfi. Fyrsti fundur okkar var í anddyri Æfingaskóla Kennaraháskólans fyrir löngu. Ég var í sérfræðinámi erlendis og hitti Þóru litla stund að fræðast um lestrarkennslu: „Jú, það skortir einkum áhugaverðar bækur fyrir byrjendur í lestri,“ sagði Þóra, reyndur kennarinn og fremsti lestrarfræðingur landsins við kennarann unga. Ég man að mér þótti miður að geta ekki kippt þessu í lag. Hvorug okkar vissi þarna, að við ættum eftir að starfa saman í fjöldamörg ár, við Kennaraháskóla Íslands, síðar Menntavísindasvið HÍ; á námsbraut í sérkennslu og á sviði náms og kennslu barna í lestri og læsi. Við vissum ekki heldur um tugi klukkustundanna sem við áttum eftir að ræða saman í þaula um hugðarefnin okkar. Á fyrstu kennsluárum Þóru var takmarkað til af útgefnu námsefni og kennslugögnum. Hún var því ein fjölda kennara sem sömdu námsefni sjálfir og útbjuggu kennslugögn heima – vel þekkt iðja á síðkvöldum. Þóra vissi hvar skórinn kreppti hjá ungum nemendum að læra að lesa og hjá þeim eldri sem þurftu fjölbreytni og æfingu – hún hannaði námsspil fyrir byrjendur í lestri og íslenskukennslu! Námsspilin urðu vinsæl og svo mörg að ekki var annað ráð en að fá sér trausta ferðatösku úr leðri að ferðast með á námskeiðin um landið. Ferðataskan er enn til; það var heiður þegar Þóra bað mig að varðveita hana. Það má segja að lesspilin víðförlu séu á sinn hátt frumgerð að síðari þróun náms- og tölvuleikja tengdum lestri og íslensku. Frumgerð námsspila Þóru og ferðataskan góða eru nú varðveitt hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur.

Ég kveð kæru Þóru með hlýhug og þakklæti fyrir gæfuríkt samstarf og vináttu. Innilega samúðarkveðju sendi ég Kristínu Björk, einkadóttur Þóru, Jóni og fjölskyldu þeirra.

Rannveig Jóhannsdóttir.