Ingibjörg Þorleifsdóttir fæddist 23. mars 1934. Hún lést 21. apríl 2024.

Útför hennar fór fram 2. maí 2024.

Elsku mamma, þá er komið að leiðarlokum hjá okkur.

Það er alltaf sárt og erfitt að kveðja sína nánustu, en góðar og gamlar minningar lifa. Mín fyrsta minning er frá því þegar ég var lítil og þú varst alltaf til staðar fyrir okkur systkinin, það var alltaf verið að elda mat eða baka eitthvað með kaffinu og ég fékk að leika mér frjáls úti með vinum mínum. Pabbi var oft á sjónum og þú varst dugleg að hugsa um okkur ein og kvartaðir aldrei, kenndir okkur bænir og að vera dugleg og góð við hvort annað.

Heimilið var alltaf mjög snyrtilegt og þið pabbi kennduð mér að hafa fínt í kringum mig, vera dugleg að hjálpa til og koma vel fram við aðra.

Það var alltaf eins og jólin væru komin þegar pabbi var heima í fríi. Um jólin elduðuð þið saman matinn og svo fórst þú stundum upp á loft til að opna fyrir jóla og komst svo niður klædd eins og jólasveinn með poka og gjafir fyrir okkur. Við urðum skíthrædd við þennan sveinka og skriðum stundum undir borð en vorum svo glöð eftir á. Ég man að ég hjálpaði oft til við að líta eftir Guðjóni bróður þegar þú þurftir að gera eitthvað því hann gat oft fengið flogaköst og dottið.

Það var alltaf gaman þegar við fórum í útilegur og ferðalög saman á sumrin og gistum í tjaldi og fengum jolly cola-drykk. Einnig þegar við heimsóttum ömmu og afa á Siglufirði, og systur þína Ásu í Búrfelli.

Þú hjálpaðir mér mikið með pössun á krökkunum mínum þegar ég fór suður að læra hárgreiðslu, þá voru þeir í góðu yfirlæti hjá þér/ykkur og eiga góðar minningar um þann tíma, eins og er þú eldaðir eitthvað gott þegar þau vildu ekki það sem afi fékk í matinn.

Alltaf passaðir þú upp á að vera fín og vel tilhöfð og komst reglulega til mín í permó og klippingu og voru það gæðastundir hjá okkur, og þegar við fórum saman á Elly og Ragga Bjarna sem voru í uppáhaldi hjá þér.

Þú ætlaðir ekkert að halda upp á níræðisafmælið þitt 23. mars, en hvað ég var ánægð þegar þú vildir að ég héldi veislu heima hjá mér, þú vildir sjaldan biðja um aðstoð eða einhverja hjálp. Þetta var yndislegur dagur sem við áttum saman nánasta fjölskyldan og þú varst svo glöð og lifðir það sem eftir var á þessum yndislegu minningum.

Það er skrítið að eiga enga foreldra og geta ekki hringt í þig eða heimsótt og spjallað, en margar góðar minningar ylja mér, elsku mamma. Nú ertu komin til pabba og Guðjóns sem þú elskaðir svo mikið í sumarlandið. Takk fyrir allt.

Guð geimi þig, með einföldu i, eins og þú skrifaðir inn í öll kort til mín.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðar hnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Þín dóttir,

Soffía Guðrún
Ómarsdóttir (Sossa).