Ingvar P. Guðbjörnsson
Ingvar P. Guðbjörnsson
Ég skora á kjósendur að brjóta blað í heimssögunni og fylgja Baldri og hans áherslum alla leið á Bessastaði með atkvæði sínu 1. júní næstkomandi.

Ingvar P. Guðbjörnsson

Í komandi forsetakosningum gefst okkur landsmönnum færi á því að velja okkur næsta forseta. Það er vandasamt verk og betra að kasta ekki til höndunum. Ég hef gert upp minn hug og mun með stolti og ánægju kjósa Baldur Þórhallsson.

Fyrir mér er Baldur sá einstaklingur sem ég treysti best til að sinna embætti forseta Íslands af þeim sem gefið hafa kost á sér, þótt margir aðrir séu vel hæfir í það.

Ég hef þekkt Baldur alla mína ævi. Hann þekkir vel stjórnskipan landsins sem doktor í stjórnmálafræði, hefur yfirburðaþekkingu á málefnum smáríkja eins og Íslands, hann er mannlegur, vel máli farinn, greindur og skynsamur. Mér hugnast afar vel þær áherslur sem hann hefur sett á oddinn.

Ég er ánægður með að hann komi hreint fram varðandi það hvernig hann og eiginmaður hans Felix Bergsson sjá hlutverk sitt sem forsetahjón á Bessastöðum. Staðreyndin er sú að makar forseta Íslands hafa hlutverki að gegna þó það sé bara einn forseti.

Baldur hefur haft uppi skynsamlega nálgun í öryggis- og varnarmálum og málefnum norðurslóða þegar hann hefur verið fenginn sem álitsgjafi og þótt það sé hlutverk ríkisstjórnar og Alþingis að móta stefnu í utanríkismálum skiptir máli að forsetinn geti fylgt henni vel eftir með trúverðugum hætti á alþjóðavettvangi.

Baldur talar skýrt og af skynsemi fyrir því hvernig hann vilji haga hlutverki forseta gagnvart Alþingi. Hann ætlar að vera öryggisventill gagnvart lagasetningu sem myndi skerða verulega t.d. tjáningarfrelsi eða mannréttindi og vísa slíkum málum til þjóðarinnar. Það er líkt og margt annað í framboði Baldurs til fyrirmyndar – að talað sé skýrt um hlutina og hvar mörkin liggja. Þingræðið sé virt, enda einn af hornsteinum í stjórnskipan landsins, en þjóðinni lofað að gætt verði að hagsmunum hennar í grundvallarmálum.

Baldur og Felix hafa sagst vilja leggja áherslu á málefni barna og þeirra í samfélaginu sem höllum fæti standa. Það er sannarlega full þörf á því í dag að leggja meiri áherslu á málefni barna í íslensku samfélagi, ekki síst menntun og vellíðan þeirra. Það er margt í dag sem er stórt áhyggjuefni s.s. að allt of stór hluti barna útskrifast úr grunnskóla illa læs. Það og margt annað bendir til að vanlíðan barna og ungmenna sé sívaxandi áhyggjuefni. Stórátak þarf í málefnum barna svo tryggja megi að börn á Íslandi séu sem best búin undir lífið og öll þau tækifæri sem það hefur upp á að bjóða. Þá er mikilvægt að hugað sé betur að jaðarhópum og þeim sem á er hallað í samfélaginu. Forseti getur gert margt er varðar málefni sem eru hafin yfir dægurþras stjórnmálanna og varða framtíð þjóðarinnar.

Íslenska þjóðin hefur áður brotið blað í heimssögunni með kjöri frú Vigdísar Finnbogadóttur. Nú gefst Íslendingum tækifæri til að kjósa fyrsta þjóðkjörna samkynhneigða forseta veraldar. Þar fyrir utan yrði Baldur góður kostur og fullkomlega hæfur til að gegna embættinu óháð kynhneigð. Ég trúi því að þjóðinni sé alvara með að hér ríki fullt jafnrétti og að fólki sé treyst án tillits til kynhneigðar. Við fáum bara eitt atkvæði hvert og það er á ábyrgð hvers og eins okkar að nýta það af skynsemi.

Ég skora á kjósendur að brjóta blað í heimssögunni og fylgja Baldri og hans áherslum alla leið á Bessastaði með atkvæði sínu 1. júní næstkomandi. Þvílík gæfa sem það yrði fyrir okkur öll.

Höfundur er upplýsingafulltrúi og sveitarstjórnarmaður í Rangárþingi ytra.

Höf.: Ingvar P. Guðbjörnsson