Yoon Suk Yeol
Yoon Suk Yeol
Greinilegt er að fram undan er harður slagur á tölvukubbamarkaði og hafa núna stjórnvöld í Suður-Kóreu kynnt sitt útspil í formi stuðningspakka upp á jafnvirði margra milljarða dala. Árið 2022 samþykktu bandarísk stjórnvöld um það bil 280 milljarða…

Greinilegt er að fram undan er harður slagur á tölvukubbamarkaði og hafa núna stjórnvöld í Suður-Kóreu kynnt sitt útspil í formi stuðningspakka upp á jafnvirði margra milljarða dala.

Árið 2022 samþykktu bandarísk stjórnvöld um það bil 280 milljarða dala stuðning við þróun og framleiðslu tölvukubba þar í landi, með það fyrir augum að tryggja bandarískum fyrirtækjum forskot og stuðla að því að bandarískt atvinnulíf yrði ekki öðrum háð um þessa undirstöðutækni tölvu- og gervigreindargeirans.

Fyrir ári sammæltust aðildarríki Evrópusambandsins einnig um að styðja tölvukubbaframleiðendur og þá ákváðu ráðamenn í Japan í nóvember síðastliðnum að verja jafnvirði 13 milljarða dala til að styrkja geirann.

Stuðningspakki suðurkóreskra stjórnvalda hljóðar upp á jafnvirði rösklega 7 milljarða dala en að auki verður settur á laggirnar risavaxinn hátæknigarður helgaður tölvukubbagerð í borginni Yangin suður af Seúl og á að verða sá stærsti í heiminum. Yoon Suk Yeol forseti Suður-Kóreu greindi frá því í janúar að framleiðendum tölvukubba yrði veitt undanþága frá sköttum og er vonast til að hvatarnir muni leiða til allt að 470 milljarða dala fjárfestingar á næstu 20 árum og að geirinn muni búa til að minnsta kosti þrjár milljónir nýrra starfa. ai@mbl.is