Reynir St. Valdimarsson fæddist á Akureyri 19. september 1932. Hann lést á Hornbrekku Ólafsfirði 10. mars 2024.

Foreldrar hans voru Valdimar Pétursson bakarameistari, f. 10. ágúst 1911, d. 22. október 1994, og Anna María Sigurbjörnsdóttir húsmóðir, f. 17. september 1913, d. 30. júlí 2005.

Systkini hans voru Halla Björg sjúkraliði, Bandaríkjunum, f. 1938, d. 2017, Gunnbjörn, fv. flugstjóri, f. 2. 6 1939, og Gunnar bakari, f. 1945, d. 2023.

Reynir kvæntist Ingu S. Sigurpálsdóttur, f. 9. júlí 1936, dóttur Sigurpáls Sigurðssonar og Halldóru Guðmundsdóttur Hauganesi.

Synir Reynis og Ingu eru: 1) Sigmar Kristinn, f. 14.6. 1955, kvæntur Maríu Jónsdóttur, þeirra börn eru Heiður Dögg og Kristinn. 2) Sigurbjörn Halldór, f. 17.4. 1958, kvæntur Svövu Birgisdóttur, dætur þeirra eru Inga Fönn og Gréta Ósk. 3) Valdimar Heiðar, f. 10.8. 1961, kvæntur Heiðdísi Jónsdóttur, sonur hans er Reynir Snær, móðir hans er Halla Þórhallsdóttir. 4) Pétur Ingimar, f. 12.12. 1969, kvæntur Enikö Csergö, börn þeirra eru Szilárd Andri, Adrian og Natalía Helga.

Reynir ólst upp í Hrísey, Akureyri en lengst á Blönduósi og fluttist með foreldrum sínum til Akureyrar til að hefja menntaskólanám. Útskrifaðist sem læknir frá HÍ 1960 og fékk almennt lækningaleyfi 1962. Hann vann með náminu m.a. á Raufarhöfn og Blönduósi. Síðar lá leið hans til Danmerkur 1962 til að hefja sérnám í húð- og kynsjúkdómafræði. Eftir það tóku við við nám og læknisstörf í Kaupmannahöfn og Óðinsvéum og síðan lá leiðin til Rönne á Borgundarhólmi.

Einnig í tvö og hálft ár á Grænlandi þar sem hann starfaði á lyflækninga- og barnadeild Landspítalans í Nuuk og var enn fremur ráðgefandi læknir þar í húðlækningum við læknamiðstöðina. Reynir kenndi sérgrein sína bæði í Danmörku og einnig við Háskólann á Akureyri.

Útför Reynis fór fram í kyrrþey í Stærra-Árskógskirkju 23. mars 2024.

Reynir mágur og fyrrverandi læknir hefur nú lokið jarðvist sinni. Hann kvæntist systur minni Ingu 12. apríl 1956 og síðar lá leið þeirra auk þriggja drengja til Danmerkur þar sem Reynir hóf sérnám í húð- og kynsjúkdómum, grein sem hann valdi sér. Sótti hann sér góða starfsreynslu með því að starfa í þremur löndum með Íslandi við þá sérgrein og á mörgum deildum. Einn drengur bættist við fjölskylduna á þeim árum og eignuðust þau því fjóra prýðisdrengi. Tveir búa í Reykjavík, Sigmar og Valdimar, ásamt fjölskyldum sínum, en Sigurbjörn og Pétur fluttu með sitt fólk til Noregs og eiga þeir þar afkomendur. Niðjar þeirra eru nú 21 talsins.

Undirrituð var svo lánsöm að heimsækja þau bæði í Kaupmannahöfn og Óðinsvéum og naut gestrisni þeirra. Reynir hafði gaman af að ferðast í frítíma sínum og lék á als oddi með drengina, mig og Ingu að sigla á vötnum, í sirkus, í Tivolí, fara á söfn, til næstu bæja og margt fleira var skoðað. Góð fimmár áttu þau í Óðinsvéum og dáðu þá fallegu borg þar sem hann starfaði við sjúkrahúsið nærri heimili þeirra. Eftir rúm 14 ár erlendis komu þau heim 1976. Á Akureyri starfaði Reynir við heilsugæsluna, og við sérgrein sína, auk þess að vera ráðgefandi læknir við SAK og að sjá um húð-göngudeild á Bjargi. Hann var mikill fræðimaður, skrifaði um læknisfræði, lét kristin trúmál til sín taka og skrifaði um þau efni í rit og dagblöð. Reynir varð ungur félagi og starfaði mikið í KFUM á Akureyri, sat í stjórn þess og starfaði að kristilegum málefnum ásamt starfi við hvítasunnusöfnuð.

Er heim kom ferðuðust þau Inga víða um Ísland, gistu á góðum hótelum og nutu þess vel. Einnig að skoða kirkjur og við fuglaskoðun. Íslenska fjallaloftið taldi Reynir góða heilsubót og sóttist eftir því með fjallgöngum. Hann dáði ætíð klassíska músík og átti gott plötusafn.

Reynir hætti að vinna sem heimilislæknir 67 ára gamall eftir annasöm og krefjandi ár í starfi, en starfaði áfram við sérgrein sína meðan heilsan leyfði. Eru þeir ófáir sem nutu leiðsagnar hans víða um land auk fjölskyldu okkar. Var hann mjög fylginn sér að fyrirmælum hans skyldi fylgt, enda úrræðagóður.Eftir starfslok Reynis fluttu þau Inga frá Akureyri á Svalbarðseyri 2004 og bjuggu þar næstu árin. Er heilsu hans tók að hraka dvaldi hann síðustu ár sín á Hornbrekku í Ólafsfirði og var þá enn að skrifa um áhugamál sín um kristna trú. Annasamri ævi hans lauk þegar hann var 91 árs gamall. Útför hans fór fram í kyrrþey í Stærra-Árskógsskirkju 23. mars 2024.

Sveinfríður
Sigurpálsdóttir.